Menningarsjóður

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 11:22:15 (8320)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur. Hún gengur út á það að breyta stjórn Menningarsjóðs.
    Í upphaflegri tillögu var gert ráð fyrir því að hæstv. ráðherra skipaði alla stjórnarmenn. Nú er komin tillaga um að Alþingi kjósi stjórn Menningarsjóðs hlutfallskosninu. Við teljum hins vegar eðlilegra í þessu sambandi að stjórn Menningarsjóðs sé skipuð samkvæmt tilnefningum frá þeim samtökum sem einkum eiga hér hagsmuna að gæta og eðlilegt er að séu höfð með í ráðum og ráði úrslitum um úthlutun þeirra litlu fjármuna sem verið er að tala um. Þess vegna flytjum við á þskj. 1231 brtt. þar sem segir:
    ,,Í stjórn Menningarsjóðs sitja þrír fulltrúar sem menntamálaráðherra skipar samkvæmt tilnefningum frá Rithöfundasambandi Íslands, Hagþenki, félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, og heimspekideild Háskóla Íslands. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Stjórnin er skipuð til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann úr hópi stjórnarmanna``.
    Ég tel ekki þörf á að rökstyðja þessa tillögu, hæstv. forseti, og læt þessi fáu orð duga.