Mat á umhverfisáhrifum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 11:32:07 (8327)

     Frsm. umhvn. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um umhverfismat. Nál. er á þskj. 1139 en frv.

til laga um umhverfismat er 80. mál þingsins.
    Nefndin hefur fjallað mjög ítarlega um þetta mál og fengið fjölda aðila á fund sinn. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með allmiklum breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Tillögurnar varða nokkrar verulegar efnisbreytingar. Þannig er lagt til að ferli svonefnds umhverfismats, er frumvarpið gerir ráð fyrir, verði breytt á þann hátt að embætti skipulagsstjóra ríkisins fari ekki bæði með framkvæmd matsins og úrskurðarvald um niðurstöður þess. Á hinn bóginn verður áfram gert ráð fyrir að skipulagsstjóri fari með framkvæmd laganna og úrskurðarvald um mat á umhverfisáhrifum. Þá er um ýmsar efnislegar breytingar að ræða jafnt sem formbreytingar. Mun ég nú gera grein fyrir helstu efnisbreytingum frv. en ekki fara orði til orðs yfir nál. sem er allítarlegt.
    Breytingin á 1. gr. felur í fyrsta lagi í sér að lagt er til að starfsemi, sem framkvæmdum fylgir, verði einn þeirra þátta sem athugaðir verða við mat á umhverfisáhrifum þar sem umhverfisáhrif vegna starfsemi eru ekki síður mikilvægur þáttur en umhverfisáhrif vegna framkvæmdanna sjálfra. Þetta var gert m.a. til þess að skerpa merkinguna sem við lögðum í þau atriði í frv. sem um þetta fjölluðu en þar var m.a. talað um eðli starfseminnar.
    Í öðru lagi er lagt til að í stað orðsins ,,og`` komi ,,eða`` sem felur í sér að til þess að fram fari mat á umhverfisáhrifum nægir að fyrir hendi sé einn þeirra þátta sem taldir eru upp í greininni. Þá er lagt til að orðið ,,umtalsverð`` verði notað í stað orðsins ,,veruleg`` og er sama breyting lögð til annars staðar í frumvarpinu til samræmingar. Frumvarpinu, ef að lögum verður, er þannig ætlað að tryggja að mat á umhverfisáhrifum verði fastur liður í gerð skipulagsáætlana og við ákvarðanir um tilteknar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Loks er lagt til að í stað orðsins ,,umhverfismat`` komi ,,mat á umhverfisáhrifum`` og verður komið að því síðar í máli mínu.
    Gerð er tillaga um að brott falli úr skilgreiningum nokkur hugtök sem ekki þykir þörf á að skilgreina sérstaklega.    
    Ástæðan fyrir því að orðið ,,umhverfismat`` er fellt brott úr skilgreiningum er ekki einungis að það þykir ekki þjóna sérstökum tilgangi að skilgreina hugtakið sér í lagi heldur er það og vegna þess að hugtakið þótti ekki lýsa vel því sem um er að ræða og hefur því verið farin sú leið að notast við orðasambandið ,,mat á umhverfisáhrifum`` og kemur sú breyting víða fram í tillögu nefndarinnar. Þess má geta að þetta orðalag þýðir raunar betur það hugtak á enskri tungu sem notað er um sams konar atriði en það hefur verið leitt í lög víða um heim. ,,Environmental impact assessment`` er hugtakið kallað á enskri tungu og er sem sagt tillaga nefndarinnar að um það verði notað orðasambandið ,,mat á umhverfisáhrifum``. Kemur það einnig heim og saman við ábendingu sem nefndinni barst um þetta atriði.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 3. og 4. gr. sem gerð er grein fyrir í nál. og mun ég ekki fara yfir það sérstaklega. Hins vegar eru lagðar til nokkrar breytingar á 6. gr. sem ástæða er til að fara yfir sér í lagi.
    Í fyrsta lagi er lagt til að viðmiðunarmörkin um vatnsmiðlanir í 1. tölul. lækki úr 5 km 2 í 3 km 2 .
    Í öðru lagi er lagt til að 2. tölul. orðist upp á nýtt. Þannig verði jarðvarmavirkjanir með varmaafl 25 mw eða meira að hráorku eða 10 mw uppsett afl eða meira og önnur varmaorkuver með 10 mw uppsett afl eða meira háð mati á umhverfisáhrifum. Orðið hrávarmi, sem notað er í frv., getur aðeins átt við um jarðvarmavirkjanir en hrávarmi er brúttóvarmi upp úr jörð. Er því lagt til að um önnur varmaorkuver, sem geta verið eldsneytisrafstöðvar eða eldsneytiskynntar hitunarstöðvar, verði notuð viðmiðunin uppsett afl.
    Í þriðja lagi er lagt til að viðmiðunarmörkin við háspennulínur lækki úr 132 KV spennu í 33 KV spennu. Með þeirri breytingu mun mat á umhverfisáhrifum taka til lagningar helstu raflína á milli byggðarlaga.
    Í fjórða lagi er lagt til að almennar sorpeyðingarstöðvar falli undir ákvæði 6. tölul. og þá miðað við stöðvar þar sem skipuleg förgun eða urðun á sorpi og úrgangi fer fram.
    Í fimmta lagi er lagt til að 7. tölul. falli brott þar sem ekki þykir líklegt að efni standi til að hann geti átt við hér á landi. Í 2. mgr. 6. gr. er vísað í viðauka I við tilskipun 85/337 frá Evrópubandalaginu sem birtur er sem fylgiskjal með frv. en þar er m.a. getið um þær framkvæmdir sem felast í 7. tölul.
    Í sjötta lagi eru lagðar til þær breytingar á 8. tölul. að hann taki ekki aðeins til frumbræðslu á steypujárni og stáli heldur verði ál þar á meðal auk þess sem endurbræðsla þessara málma falli undir töluliðinn.
    Í sjöunda lagi er lagt til að orðin ,,blandaða framleiðslu`` í 8. og 9. tölul. falli brott enda er ekki ljóst hvað er átt við með þessum orðum.
    Í áttunda lagi eru lagðar til breytingar á 10. tölul. varðandi vegi, hraðbrautir og flugbrautir. Lagt er til að miðað verði við lagningu nýrra vega þar sem ekki er talin ástæða til að endurbætur eða viðgerðir á vegum falli undir ákvæði frv. En nefndin lítur svo á að lagning hraðbrauta falli samkvæmt skilgreiningu nefndarmanna undir vegalagningu. Þá er talið eðlilegt að flugbrautir verði almennt látnar sæta mati á umhverfisáhrifum. Breytingin á 11. tölul. felur í sér brottfellingu á skipgengum vatnaleiðum, enda nægilegt að um það sé getið í viðauka I. Loks eru lagðar til nokkrar breytingar á 2. og 3. mgr. sem ekki eru efnislegs eðlis.
    Rétt er að geta þess að þær breytingar sem gerðar eru á 6. gr. miða allar að því að setja hér nokkuð strangari mörk um mat á umhverfisáhrifum og skilgreiningu á þeim framkvæmdum sem skulu fara í mat

á umhverfisáhrifum. Meginástæðan fyrir þessu er sú að nefndarmenn voru sammála um að náttúra Íslands væri á margan hátt viðkvæmari fyrir umhverfisáhrifum heldur en gerist annars staðar og væri því ástæða til að færa þessi mörk niður, gera þau strangari hér. Á sama tíma eru gerðar aðrar breytingar á frv. sem leiða til þess að þótt ekki sé dregið úr upplýsingaöflun þá eru opnaðar leiðir til þess að ákveða að framkvæmdir séu heimilar á tveimur tímamótum í ferlinu sem lýst er í frv.
    Í umsögnum er nefndinni bárust frá fimm samtökum, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Landvernd, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Náttúruverndarráði og Landvarðafélagi Íslands, kemur fram að þau telja að í frv. vanti ákvæði um umhverfismat eða mat á umhverfisáhrifum vegna breytinga á gróðurfari af mannavöldum. Er þá átt við t.d. framræslu votlendis, landgræðslu og skógrækt. Nefndin ræddi þessar ábendingar og er hún sammála um að nauðsynlegt sé að vinna skipulega að verkefnum á þessu sviði með tilliti til fjölþættra landnota og umhverfisverndar. Þannig geti verið ástæða til að fram fari mat á umhverfisáhrifum eða hliðstæður undirbúningur áður en ráðist verði í meiri háttar verkefni af þessum toga, enda er heimild til þess samkvæmt 7. gr. frv.
    Lítils háttar breytingar eru gerðar á 7. gr. sem þarfnast ekki skýringa, en samkvæmt 8. lið nál. er lagt til að í stað 8.--13. gr. í frv. komi sex nýjar greinar sem verði 7.--12. gr. Tengist sú breyting m.a. fækkun á skilgreiningum 2. gr. þar sem lagt er til að hugtakið umhverfismat verði ekki lögbundið hugtak skv. frv.
    Að óbreyttu gerir frv. ráð fyrir að skipulagsstjóri ríkisins sjái um undirbúning mats á umhverfisáhrifum og framkvæmd matsins og gerð en geti í undantekningartilvikum falið það öðrum aðilum skv. 8. gr. og 11. gr. frv. Samkvæmt 11. gr. frv. ákvarðar skipulagsstjóri síðan hvort umhverfismat sé í samræmi við þar til gerðar kröfur. Nefndin leggur til að á þessu ferli verði nokkrar breytingar. Munu þær nú verða skýrðar í helstu efnisatriðum.
    Í hinni nýju 7. gr. er að hluta tekið upp efni 10. gr. frv. um ferli það sem fram fer áður en hafist er handa um framkvæmd sem frv. eða reglugerð samkvæmt því tekur til. Framkvæmdaraðili skal þannig senda skipulagsstjórn tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd þar sem fram kemur lýsing á framkvæmdinni, ráðgerðri hönnun, hugsanlegri umhverfisröskun og fyrirhuguðum ráðstöfunum til að draga úr henni auk annarra upplýsinga sem skipulagsstjóri telur nauðsynlegar. Er þetta efnislega í samræmi við 1. og 2. mgr. 10. gr. frv. Þó verður sú breyting á að ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdaraðili sendi neina beiðni til skipulagsstjóra um að fram fari umhverfismat, enda er gert ráð fyrir því að mat á umhverfisáhrifum verði á ábyrgð sjálfs framkvæmdaraðilans.
    Í 2. mgr. kemur síðan að hluta fram efni 3. mgr. 10. gr. frv. Skipulagsstjóri birtir innan tveggja vikna tilkynningu framkvæmdaraðila ásamt meðfylgjandi gögnum með opinberri auglýsingu og skal athugasemdum skilað til skipulagsstjóra innan fimm vikna frá birtingu auglýsingar. Frestur til að skila inn athugasemdum er þarna lengdur um eina viku, enda er verið að kynna viðkomandi framkvæmd opinberlega í fyrsta skipti.
    Efni hinnar nýju 8. gr. byggir á því sem að framan er sagt. Í 3. mgr. 10. gr. og 11. gr. frv. er gert ráð fyrir að upplýsingar er framkvæmdaraðili veitir, geti uppfyllt skilyrði frv. um mat á umhverfisáhrifum þannig að ekki sé þörf frekara mats. Lagt er til að í greininni verði kveðið á um að innan átta vikna frá því að skipulagsstjóri hefur birt tilkynningu framkvæmdaraðila taki hann ákvörðun eða felli úrskurð um það hvort fallist er á viðkomandi framkvæmd eða gerð krafa um frekara mat á umhverfisáhrifum. Þá skal skipulagsstjóri kynna ákvörðun sína samkvæmt 1. mgr. fyrir hlutaðeigandi aðilum auk þess sem ákvörðunin verður birt opinberlega.
    Í því ferli sem lýst hefur verið hingað til er ekki gert ráð fyrir sjálfstæðum rannsóknum til þess að byggja mat á umhverfisáhrifum á heldur fyrst og fremst öflun upplýsinga. Á síðari stigum málsins er hægt að taka ákvörðun um að nauðsynlegt sé að láta fara fram rannsóknir sem beinlínis tengjast þessum framkvæmdum.
    Í stað ákvæðis 1. mgr. 8. gr. frv. um að skipulagsstjóri stjórni framkvæmd umhverfismats og sjái um að það fari fram er lagt til að í nýrri 9. gr. sé kveðið á um að framkvæmdaraðili sjái um mat á umhverfisáhrifum. Þá er kveðið á um að framkvæmdaraðili skuli bera kostnað af matinu í stað þess að 12. gr. frv. gerir ráð fyrir að sá greiði kostnaðinn sem óskar eftir því að matið verði gert. Þá er lagt til í 2. mgr. að skipulagsstjóri setji almennar leiðsögureglur um framkvæmd matsins að teknu tilliti til sérákvæða í lögum og alþjóðlegra skuldbindinga. Þannig er ætlast til þess að í leiðsögureglum skipulagsstjóra verði bent á þau ákvæði sérlaga, svo sem náttúruverndarlaga, vegalaga og þjóðminjalaga, sem taka þarf tillit til við gerð mats á umhverfisáhrifum.
    Í nýrri 10. gr. er efni 1. mgr. 9. gr. frv. um áhrif þau sem tilgreina skal í mati á umhverfisáhrifum, tekið upp með nokkrum breytingum. Helsta breytingin er sú að ekki er kveðið á um að meta skuli félagsleg áhrif en þess í stað notað orðið samfélag svo sem gert er í 1. gr. frv. Nefndin telur rétt að taka það sérstaklega fram að hún telur að ekki beri að líta á upptalninguna í 11. gr. þannig að um sé að ræða þrengingu á meginreglu í 1. gr. frv. þar sem rætt er um framkvæmdir sem hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að skipulagsstjóri skuli birta niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum innan tveggja vikna frá því að hann hefur tekið á móti þeim. Athugasemdum skal skilað til hans innan fimm

vikna frá birtingu auglýsingar. Þetta ákvæði 2. mgr. samsvarar 4. mgr. 10. gr. frv.
    Í hinni nýju 11. gr. er kveðið á um að skipulagsstjóri kveði upp úrskurð á grundvelli fyrirliggjandi gagna innan átta vikna frá því að hann hefur birt niðurstöður mats á umhverfisáhrifum. Með þessu ákvæði er þannig kveðið skýrar en í frv. á um úrskurðarvald skipulagsstjóra. Í úrskurði skipulagsstjóra getur falist að fallist er á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða, að krafa er gerð um frekari könnun einstakra þátta eða að lagst er gegn viðkomandi framkvæmd. Ekki er tekið upp ákvæði 4. mgr. 11. gr. frv. um að skipulagsstjóri geti lokið við gerð matsins á kostnað framkvæmdaraðila verði hann ekki við tilmælum hans um öflun frekari upplýsinga eða gagna. Er litið svo á að það sé framkvæmdaraðila hagsmunamál að ljúka þessu máli og ekki ber að taka af honum frumkvæðið í þeim efnum.
    Í 2.--3. mgr. hinnar nýju 11. gr. er kveðið á um kynningu og opinbera birtingu úrskurðar skipulagsstjóra samkvæmt 1. mgr. og auk þess greiðan aðgang almennings að úrskurðinum og niðurstöðum matsins. Um þessi atriði er fjallað í 4. mgr. 10. gr. frv.
    Með nýrri 12. gr. er ráðherra heimilað að ákveða með reglugerð að innheimt skuli gjald af framkvæmdaraðila vegna kostnaðar embættis skipulagsstjóra af málsmeðferð samkvæmt lögunum. Breytingin á 14. gr. er ekki efnislegs eðlis heldur leiðir hana af þeim breytingum sem fyrr eru greindar. Breytingin á 15. gr. er heldur ekki efnislegs eðlis og þarfnast ekki skýringa. Breyting á 16. gr. felur í sér einföldun ákvæðisins um heimild ráðherra til að setja reglugerð samkvæmt lögum þessum. Lögð er til sú breyting á 18. gr. að lögin öðlist þegar gildi, enda þykja þau eiga fullan rétt á sér án tillits til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Þá er lagt til að við frv. bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, II, sem feli í sér að framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 verði ekki háðar mati á umhverfisáhrifum en nauðsynlegt er að gefa hlutaðeigandi aðilum nokkurn aðlögunartíma vegna þeirra breyttu réttarreglna sem lagðar eru til í frv. Með gildistöku frv., þó að það komi ekki til framkvæmda strax, er hægt að vinna að undirbúningi málsins og semja reglugerð en allri óvissu um það hvernig farið verður með leyfi sem útgefin eru fyrir 1. maí 1994 er eytt með þessu ákvæði.
    Lagt er til að heiti frv. verði ,,Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum.``
    Undir þetta nál. sem hér hefur verið kynnt skrifa Gunnlaugur Stefánsson, formaður umhvn., Tómas Ingi Olrich, Jón Helgason, Árni Mathiesen, Hjörleifur Guttormsson, Árni R. Árnason, Kristín Einarsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir.
    Ég vil taka það fram að þessi framsöguræða hefur verið allítarleg og nokkuð löng. Fyrir því standa þau rök að mjög veruleg breyting hefur orðið á frv. og má segja að sumu leyti, einkum og sér í lagi að því er varðar 7.--13. gr., hafi frv. verið mjög mikið breytt, enda ber nál. þess merki. Það hefur verið unnið mikið í þessu máli á vegum umhvn. og vil ég nota þetta tækifæri í lok framsöguræðu minnar með þessu nál. að þakka nefndarmönnum fyrir dugnaðinn og ósérhlífnina og ljúka máli mínu með þeim þakklætisorðum.