Mat á umhverfisáhrifum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 11:52:06 (8330)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að ræða það mál efnislega sem gerð hefur verið prýðileg grein fyrir af hálfu frsm. umhvn. og varaformanns nefndarinnar. Ég vil aðeins ítreka það sem einnig kom fram í framsögu hans að hér er um mjög stórt og þýðingarmikið mál að ræða sem ég held að geti haft verulega þýðingu til bóta fyrir stöðu umhverfismála í landinu þó að auðvitað sé þar margt undir framkvæmd komið og hvernig á er haldið á grundvelli þeirra ákvæða sem hér er lagt til að lögfesta.
    Það hefur verið ánægjulegt að vinna að þessu máli í umhvn. á liðnum vetri þó að starf nefndarinnar hafi orðið óvenjumikið miðað við að hér var á ferðinni stjfrv. Ég held að fyrir nefndina hafi þetta verið lærdómsríkt en ég tel jafnframt að fyrir ráðuneyti umhverfismála, það unga ráðuneyti, geti þetta orðið lærdómsríkt því eins og fram kemur í málsgögnum sem hér hafa verið kynnt þá er um að ræða óvenjulega víðtækar breytingar á frv. frá því stjfrv. sem lagt var fyrir í haust. Ég tel út af fyrir sig að það sé engin ofætlun að þingnefndir taki vel og ítarlega á málum, síður en svo, og geri þær breytingar sem nefndir telja rétt að gerðar séu. En það eru auðvitað takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að leggja á þingnefndir sem fá mikil mál, mörg mál og viðamikil til meðferðar og auðvitað hlýtur það síðan að koma niður á því hverju þær fá áorkað ef gera þarf jafnvel grundvallarbreytingar á flóknum málum eins og þetta frv. er sem hér um ræðir. En ég var í hópi þeirra, og það varð niðurstaðan í umhvrn., sem töldu að rétt væri að ráðast í þetta verkefni og ég tel að farsællega sé að landi náð í þessu máli. Auðvitað ekki þannig að allir hafi fengið sín sjónarmið inn í þann texta sem undirritaður er, en í meginatriðum hefur ríkt prýðilegt samkomulag um niðurstöðu og áfanga að þeirri niðurstöðu í nefndinni og það hefur verið ánægjulegt að vinna að þessu máli. Ég tel að það sé ekki síst varaformaður nefndarinnar, sem stýrði því verki á lokastigum umfjöllunar, sem hafi átt mjög góðan þátt í því að koma málinu í þá höfn sem hér hefur verið kynnt af frsm. en auðvitað eiga allir nefndarmenn þar óskilinn hlut að máli að þetta er hér lagt fyrir í samkomulagi.