Atvinnuþróun í Mývatnssveit

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 12:12:52 (8340)


     Kristín Einarsdóttir (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég má til með að koma hérna í ræðustól og lýsa undrun minni á ummælum hv. 5. þm. Austurl. Ég tel ekki að forseti skuldi þingmönnum nokkra skýringu á því hvers vegna tekin eru mál í einni eða annarri röð. Það er ekki hægt að krefjast þess. Auðvitað getur forseti kosið það að skýra það mál, en við sem hér sitjum í þingsalnum, óbreyttir þingmenn, höfum enga kröfu á forseta í þessum efnum. Við getum óskað skýringa en við getum ekki krafið skýringa á þessu.
    Ég var hér í upphafi fundar þar sem forseti lýsti því að fyrst yrði tekið fyrir mál sem væri samkomulagsmál og ekki talið líklegt að yrðu miklar umræður um. Það var talað um það og við höfum farið eftir því núna í dag. Að vísu hafa orðið umræður óvænt um ýmis mál sem hafa hins vegar verið tekin út af dagskrá og forseti auðvitað úrskurðað það án þess að við getum neitt verið að kvarta yfir því. Mér þykir því mjög sérkennilegt hvernig hv. 5. þm. Austurl. kemur hér í ræðustól, bæði hvernig hann ávarpar forseta og hvernig hann krefur forseta um skýringar sem ég tel hann alls ekki hafa nokkurn rétt á að krefja forseta um.