Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 13:10:10 (8358)

     Jón Kristjánsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég verð að segja að sjaldan hef ég orðið eins undrandi á þingstörfum og núna síðustu klukkutímana. Ég hygg að það sé ekki aðeins ríkisstjórnin sem er í upplausn með sín mál heldur veitti ekki af fyrir forsn. að setjast niður og komast að niðurstöðu um hvað á eiginlega að gera hér. Það er náttúrlega alveg einstakt að stjórnarliði, 3. varaforseti þingsins og í raun 2. varaforseti núna því 2. varaforseti er erlendis, komi upp og standi í þingskapaumræðum út af dagskrármálum og síðan kemur næsti forseti í stólinn og frestar þeim málum sem 3. varaforseti hefur knúið á dagskrá, (Gripið fram í.) í rauninni 2. varaforseti núna. Þetta er náttúrlega svo undarlegt að það tekur ekki nokkru tali og sýnir bara hvers lags upplausn er orðin í stjórnarliðinu því það er náttúrlega ljóst að stjórnarliðar eru á fundum um allt þinghús til þess að reyna að bjarga málum á síðasta degi þingsins og það veit í rauninni enginn hvað á að gera hér það sem eftir lifir dagsins. Ég ætla svo sem ekkert að vera að ráðleggja stjórnarliðum í þessu en ég vil bara fá að vita það nokkurn veginn hvað á að gera í dag. Ef allt er hér í upplausn þá er náttúrlega alveg eins gott að fresta þessu þinghaldi til mánudagsins svo það sé þá ljóst hvað á að gera á Alþingi. Það er alveg rétt sem hefur komið hér fram að ég heyri að það eru væntanlegar frá þingmönnum umræður um sveitarstjórnarmálin. Þó það sé sameiginlegt nál. í þeim málum þá er búið að boða að hér séu umræður fram undan í því máli. Það er svo sem ekkert undarlegt, þetta er stórt mál og eitt af stærstu málum þingsins sem hér eru á dagskrá.