Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 13:59:51 (8363)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson, 5. þm. Vesturl., sleppti í sinni ræðu aðalatriði míns máls varðandi þrýstinginn á sameininguna. Það eru peningarnir, Guðjón, það eru peningarnir, hv. þm., það eru peningarnir sem hæstv. félmrh. eys út til hyllingar þeim sem fara að hans tillögum en sviptir hina. Það eru leikreglur Jöfnunarsjóðsins sem eru notaðar. Hefur hv. þm. kynnt sér efni þess? Hvað er það sem veldur því að sveitarfélag undir ákveðnum mannfjölda á ekki að fá sömu tekjur á mann eins og hin sem eru yfir þessum mannfjölda? Hver eru rökin fyrir þeim vopnaburði? Hefur hv. þm. kynnt sér leikreglurnar eða þarf að lesa upp leikreglur Jöfnunarsjóðsins svo menn átti sig á því hvaða hnútasvipa er notuð til þess að ýta á það að menn sameinist, hvort sem menn vilja það eða ekki? Hefur hv. þm. kynnt sér það hvort það sé löglegt í venjulegum kosningum að bera fé á menn til að hafa áhrif? Í þessu tilfelli er ekki borið fé á menn. Það er ekki borið fé á sveitarstjórnir en það er verðlaunafé úr Jöfnunarsjóðnum ef menn kjósa rétt og engar smáupphæðir. Það er hægt að fara yfir þetta reikningslega með Eyjafjarðarsveit. Það er hægt að fara yfir þetta reikningslega með sveitarfélagið hér fyrir austan sem sameinaðist í Skaftafellssýslunum. Ég lét mæta menn reikna þetta út og á þá útreikninga. Það var engin skiptimynt sem verðlaunaféð hljóðaði upp á.