Húsnæðisstofnun ríkisins

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 15:28:57 (8373)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt því sem heyrst hefur stendur til að ljúka þinginu núna á næstunni. Þetta er lengsta þing sem staðið hefur sennilega nokkru sinni og það er gert ráð fyrir að Alþingi komi síðan ekki saman aftur fyrr en 1. okt. í haust.
    Á sama tíma og þetta liggur fyrir, þá liggur það einnig fyrir að þessu þingi mundi ljúka án þess að það hefði tekið á alvarlegasta efnahagsvandamáli á Íslandi, sem eru greiðsluerfiðleikar þúsunda heimila í landinu. Það er ljóst að atvinnulausir um þessar mundir eru mjög margir að missa litlar íbúðir vegna fjárhagslegra erfiðleika og það er til skammar fyrir þessa stofnun að standa upp frá verki á þessu þingi án

þess að taka á vandamálum þessa fólks. Þess vegna er það ekki gamanmál þegar flutt er tillaga af því tagi sem hér er uppi til að taka á alvarlegu vandamáli og ég trúi því ekki að það gerist að formaður þingflokks Alþfl. snúist líka gegn þessari tillögu. Þá munu eiga við hann og hinn flutningsmanninn þau orð sem hæstv. utanrrh. hreytti í okkur hin fyrir nokkrum dögum, orðin ,,vei yður, þér hræsnarar``. Því hvað er það ef menn styðja ekki sínar eigin tillögur jafnvel þó að aðrir flytji þær? Til marks um hvað er það? Það er a.m.k. ekki virðing fyrir þeim málstað sem menn í orði kveðnu telja sig hafa þegar þeir tala sig heita úr þessum ræðustól. Það er til marks um eitthvað allt, allt annað.
    Það er a.m.k. ekki til marks um það heldur, virðulegi forseti, að það þýði fyrir stjórnarandstöðuna að flytja yfirleitt nokkur mál í þessari stofnun vegna þess að þau eru ævinlega hunsuð. Jafnvel þó að þau séu nákvæmlega samkynja málum sem stjórnarliðið hefur verið að flytja.
    Virðulegi forseti. Ég vona að í framhaldi af þessari atkvæðagreiðslu verði ekki hægt að segja við formann þingflokks Alþfl. það sem formaður Alþfl. sagði við okkur á dögunum: ,,Vei yður, þér hræsnarar``, ég vona að það gerist ekki. Ég segi já við þessari tillögu.