Húsnæðisstofnun ríkisins

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 15:31:46 (8374)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. ,,Vei yður, þér hræsnarar.`` Þessi orð sagði hv. þm. Svavar Gestsson. Hið sama mátti efnislega lesa úr ummælum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Vei yður, þér hræsnarar sem höfðuð ekki einu sinni fyrir því að ræða eitt einasta orð um þessa tillögu við flm. hennar. Vei yður, hræsnarar sem reynduð ekki einu sinni að ná samstöðu með okkur sem höfum flutt þáltill. um málið. Ekki einn einasti þingmaður stjórnarandstöðunnar nefndi þetta einu einasta orði. Ég er satt að segja hættur að undrast vinnubrögð stjórnarandstöðunnar, ég verð að segja það. Þessi málatilbúnaður er alls ekki til þess fallinn að ná samstöðu um þetta mál sem er afar brýn. Menn vita það fullvel að það er ekki eining um þetta mál, ekki heldur í stjórnarflokkunum. Ef menn hefðu viljað ná þessu fram, ef menn hefðu ekki bara viljað þetta til þess að opinbera eigin hræsni og yfirdrepsskap þá hefðu þeir talað við okkur.
    Staðreyndin er sú auðvitað að tillagan á alls ekki heima í þessum lögum, hún er sett fram í því samhengi, virðulegi forseti, að hún varðar einungis þá sem hafa komist í greiðsluerfiðleika vegna húsnæðiskaupa. Það er þrenging sem ég get ekki sætt mig við og ekki heldur atvinnulaust fólk á Íslandi. Og ég segi það, ég á eins og aðrir þingmenn hér heimtingu á því að þingið ræði mína tillögu, það þarf ekki að taka hana ófrjálsri hendi af einhverjum öðrum mönnum og ég segi því nei.