Atvinnuleysistryggingar

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 16:26:46 (8389)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Þessi tillaga minni hlutans gerir ráð fyrir því að enn einu sinni sé gerð tilraun til þess að skerða hag elli- og örorkulífeyrisþega eins og meiri hluti þessa þings hefur verið að á undanförnum vikum, mánuðum, missirum og árum. Tillagan gerir ráð fyrir því að 11. gr. frv. sé felld þar sem í þeirri grein er gert ráð fyrir því að bætur atvinnuleysistrygginga séu skertar til elli- og örorkulífeyrisþega. Staðreyndin er sú að það er hópur elli- og örorkulífeyrisþega sem hefur farið út af vinnumarkaði á undanförnum árum til að rýma fyrir yngra fólki sem hefur verið atvinnulaust í trausti þess að þeir fái greiddar óskertar atvinnuleysisbætur samhliða elli- og örorkulífeyri. Nú er verið að koma í bakið á þessu fólki gangi þessi tillaga meiri hlutans hér eftir. Hins vegar ef tillaga minni hlutans verður samþykkt þá verður komið í veg fyrir þetta og því segi ég já.