Atvinnuleysistryggingar

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 16:28:30 (8390)


     Þuríður Pálsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég ætla, með leyfi forseta, að gera grein fyrir atkvæði mínu. Í 6. gr. frv. stendur m.a. svo, með leyfi forseta:
    ,,Rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum þessum hafa þeir sem eru atvinnulausir og í atvinnuleit og fullnægja eftirtöldum skilyrðum, sbr. þó 24. gr.:
    1. Eru orðnir 16 ára að aldri en yngri en 70 ára.``
    11. gr. frv. í upphaflegri gerð gerir að engu þennan rétt til atvinnuleysisbóta hjá fólki sem náð hefur 67 ára aldri og öryrkjum. Það er því ljóst að frv. felur í sér skerðingu á kjörum og réttindum elli- og örorkulífeyrisþega. Ég á bágt við að sætta mig við það.
    Þetta ætti ekki að koma nefndarmönnum í heilbr.- og trn. á óvart þar sem ég benti einmitt á þetta atriði sérstaklega á fyrsta nefndarfundi sem ég sat þar sem þetta frv. var til umræðu. Þrátt fyrir að frv. feli í sér margvíslega réttarbót og leiðréttingu á alvarlegu misrétti sem hefur viðgengist við úthlutun atvinnuleysisbóta þá er þó ljóst að mörg atriði þessa frv. þurfa skoðunar við á nýjan leik þegar reynsla er komin á framkvæmd þeirra. Ég treysti því að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því, en ég mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessa tillögu.