Framleiðsla og sala á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 17:00:52 (8395)

     Frsm. meiri hluta landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegur forseti. Ég er þakklátur hæstv. forseta fyrir að hafa farið að minni ósk um að þetta mál yrði tekið til umræðu og afgreiðslu á Alþingi.
    Síðustu dagar hafa verið um margt sérstæðir og reyndar einstaklega ánægjulegir og ég hlýt að þakka fjölmörgum mönnum, kunnugum og ókunnugum, fyrir baráttukveðjur.
    Það hafa borist fregnir um það að hæstv. landbrh. hafi verið kjörinn vinsælasti alþingismaður vikunnar og þó að mér finnist kannski aðeins að óverðugu hvað hann sigraði mig þar með miklum yfirburðum þá get ég vel unnt honum þess og árnað heilla. Þetta sýnir það eitt út af fyrir sig að menn þurfa ekki að hafa svo sérstaklega miklar áhyggjur af því þótt þeir taki svari þeirra sem búa við erfiðari kost ef málefnið er að öðru leyti nógu gott.
    Ég hlýt að minna á það vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um að hugsanlega yrði þessu máli frestað og fram hjá því gengið við umræðuna og verð ég þá að vænta þess að ráðherrarnir sitji í sætum sínum. Það kemur mér helst til hugar þegar ég sé hvað þeir flýja í burtu uppruni huldufólksins sem varð til með þeim hætti að móðirin átti svo mörg börn að hún gat ekki þrifið þau almennilega og það skiptist í tvo hópa, óhrein og hrein, þannig varð huldufólkið til vegna þess að það varð auðvitað að fela óhreinu börnin. Nú hafa þeir allir hlaupið hér af bekkjum (Gripið fram í.) utan tveggja --- ég verð að vænta þess að þeir taki sér hér sæti m.a. vegna þess að ég þarf að tala til þeirra og það er mjög óþægilegt að tala á bak á öðrum mönnum. Ég veit að forseti virðir óskir mínar að þessu leyti.
    En ég ætlaði aðeins að minnast á það nánar sem ég var að hefja mál mitt á að það hefur legið á orðspori að yfir þetta mál yrði gengið við afgreiðslu þess. Það er á allra vitorði að nálega allir alþingismenn styðja þetta mál. Það er af vissri prinsippástæðu sem Kvennalistinn undirritaði ekki nál. og eins var um Alþb. en um þá efnislegu þætti löggjafar sem hér er verið að fjalla um er tæpast nokkur ágreiningur á Alþingi. Það hefði þess vegna verið alveg óskiljanlegt ef þetta mál hefði ekki fengið sína þinglegu meðferð og ég má í því sambandi sérstaklega minna á það, vegna þess að það hefur verið helst á vitorði að forustulið ríkisstjórnarinnar ætlaði að bregða fæti fyrir afgreiðslu málsins, að þegar á dögunum fóru fram umræður á Alþingi um EES-samninginn þá var þar mjög haft á orði að stjórnarandstaðan væri að tefja málið með málþófi og þar væri í raun og veru um ofbeldisaðgerðir að ræða af hendi minni hluta Alþingis. Ég minnist þess sérstaklega að hæstv. utanrrh. gerði það að umtalsefni erlendis hvernig háttað væri þingræðisstörfum á Íslandi. Það var þess vegna óhugsandi að menn færu að vera með bolabrögð gagnvart afgreiðslu þessa máls þar sem hér um bil allt Alþingi er á sama máli, hér um bil allt Alþingi, og kannski allt, er á sama máli.
    Til þess að skýra það aðeins fyrir hv. alþm. hvernig komið er með það frv. sem hér er til umræðu sem flutt er af ríkisstjórninni þá er ástæða til að benda á álitsgerð frá tveimur virtum lögmönnum, Sveini Snorrasyni hæstaréttarlögmanni og Jóni Höskuldssyni deildarstjóra. Mér er ljóst að þessi álitsgerð er í vörslu margra alþingismanna en hún er fyrir margra sakir afar athyglisverð. Þessi álitsgerð tekur til þess hvað í rauninni fólst í frv. ríkisstjórnarinnar. Þar er sérstaklega fjallað um þau deilumál sem upp hafa komið á undanförnum dögum í þessari umræðu. Þar er í fyrsta lagi frá því greint að í orðinu ,,tilsvarandi vörum`` --- og til þess vitnað hér sérstaklega --- felist hin svokölluðu vörulíki. Það er vísað til orðalags sem sé að finna í samkomulagi um tolla og viðskipti, þ.e. Genfarbókunarinnar, og sett fram ótvíræð rök þess efnis að vörulíki, eða réttara sagt að tilsvarandi vörur, eins og það er orðað í frv., nái til vörulíkja.
    Þá segir líka í niðurlagi greinarinnar út af vörugjöldunum sem svo mjög hafa verið umtöluð: ,,Verði frv. að lögum getur landbrh. ákveðið með reglugerð eða á annan hátt hvort og hvaða búvörur skuli heimilt að flytja inn og með hvaða skilyrðum, þar með talið hvort lögð skuli á verðjöfnunargjöld, eins og tollalög og viðskiptasamningar heimila.`` Frv. kveður á um það að landbrh. hafi heimild til þess að ákveða hvaða vörur séu fluttar inn og hvernig beri að haga álagningu vörugjalda. Það er athyglisvert að í niðurlagi þessarar álitsgerðar segir: ,,Að okkar áliti fela brtt. landbn. Alþingis á þskj. 1125 ekki í sér efnislegar breytingar að þessu leyti.``
    Þessir lögmenn segja það með öðrum orðum í álitsgerð sinni að það sem hefur verið deiluefni á síðustu dögum, vörulíkin og vörugjöldin, heimildir til þeirra ákvæða sé að finna í frv. ríkisstjórnarinnar. Ég dreg þetta hér sérstaklega fram vegna þess að menn hafa verið bornir ýmsum sökum í þessum efnum og verið að laumast aftan að löggjafanum og ríkisstjórninni í sambandi við tillögur landbn. En hvað er þá annars að? Ef þessi þýðingarmiklu ákvæði og umdeildu eru á annað borð í frv. ríkisstjórnarinnar, hvers vegna þarf þá að gera breytingar? Ég held að það verði best skýrt með því að fara yfir skjal sem landbn. barst frá fjmrn. raunar eftir að hún hafði lokið við að afgreiða sínar tillögur. Það er nefnilega athyglisvert að bera saman skoðanir fjmrn. og frv. eins og það hefur verið skýrt af lögfræðingum, m.a. vegna þess að í þessari álitsgerð er alveg sérstaklega greint frá því að fjmrn. hefði fjallað um frv. áður en það var lagt fram eða afgreitt frá ríkisstjórninni.
    Fjmrn. gerir fimm efnislegar athugasemdir við frv., raunar við tillögur landbn. Fimm efnislegar athugasemdir gerir fjmrn. Fjórar af þeim eru hins vegar skýrlega settar fram í frv. ríkisstjórnarinnar sem fjmrn. segist hafa yfirfarið. Að þeirri fimmtu kem ég síðar. Þannig segir fjmrn. að í frv. felist óeðlilega mikil völd landbrh. Eins og ég mun víkja að síðar þá er í tillögum landbn. þrengt að þessum völdum. Þar er sagt að óeðlilegt sé að vörulíki séu á verksviði og á valdi landbrh.
    Þrátt fyrir að það sé komin lagaskýring um það að slík sé ætlunin í frv. ríkisstjórnarinnar, sem fjmrn. hafði farið yfir og fjallað um, þá er með sama hætti talið óeðlilegt að í frv., í brtt. nefndarinnar, sé fjallað um með jafnskýrum hætti og þar er gert hvernig verðjöfnunargjöldum skuli háttað. Nú liggur það fyrir að í tillögum ríkisstjórnarinnar hefur landbrh. meiri og víðtækari heimildir eins og það er skýrt af lögfróðum mönnum heldur en í brtt. landbn.
    Það er sérstaklega frá því sagt í fjórða lagi að samráð á milli ráðherra sem landbn. leggur til að séu viðhöfð við ákvörðun á verðjöfnunargjöldum séu óeðlileg. Í frv. ríkisstjórnarinnar á grundvelli þeirra lagaskýringa sem ég hef sérstaklega getið er sagt að landbrh. þurfi engan að spyrja. Hann hafi heimildir til þess að veita leyfi fyrir innflutningi og taka ákvarðanir um hver hann skuli vera og hvaða vörugjöld hann skuli bera. Þetta eru fjögur efnisatriði í umsögn fjmrn. sem í raun ganga þvert á frv. eins og ríkisstjórnin lagði það fram. Ég kem svo að fimmta atriðinu síðar meir.
    En hvers vegna skyldi þá landbn. vera að gera tillögur um breytingar, m.a. að þrengja þær heimildir sem hæstv. landbrh. á að fá að settum þessum lögum? Ástæðan fyrir því er sú að um þetta eru deildar meiningar og það er að sjálfsögðu alveg augljóst mál að það er grundvallarskylda okkar sem störfum á Alþingi að ganga þannig frá lagatexta að hann sé skiljanlegur. Það liggur að sjálfsögðu í augum uppi hvaða hlutverk dómsvaldinu er ætlað á Íslandi. Það er að gæta réttarríkisins. Það er hins vegar ekki þáttur í daglegum störfum framkvæmdarvaldsins. Þess vegna þurfa lög að vera með þeim hætti að þau valdi ekki ágreiningi og að þau séu skiljanleg. Það var af þessari ástæðu sem landbn. Alþingis gerði tillögur um þær breytingar sem liggja nú fyrir. Menn geta svo velt því fyrir sér hver og einn hvers vegna skilningur er jafnóljós í þessu máli og raun ber vitni. Og menn geta velt því fyrir sér hvers vegna fjmrn. vill í öllum veigamestu efnisþáttum þessa máls skoða málið með allt öðrum hætti heldur en frv. sem það sjálft er búið að fjalla um lítur út.
    Landbn. fjallaði ítarlega um þetta mál og kvaddi á sinn fund og leitaði álits fjölmargra manna. Þar má nefna Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmann landbrh. og Guðmund Sigþórsson, skrifstofustjóra landbrn., Gunnar Snorra Gunnarsson sendiherra, Kjartan Ólafsson og Sigurð Þráinsson garðyrkjumenn. Auk þess var fjallað um álit fjölmargra aðila og stofnana, Búnaðarfélags Íslands, Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands og fleiri aðila. Og með því að málið var jafnóljóst og raun bar vitni og eins og ég hef nú leitt hér rök að, þá naut nefndin sérstakrar aðstoðar Tryggva Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns við athugun sína á málinu.
    Ég hygg að mönnum sé það ljóst vegna hvers sá lögmaður var valinn til þessara verka en hann er sá úr þeirra hópi sem hvað mest hefur fjallað um þessi mál og þeim skyld, auk þess sem hann var líka ráðunautur nefndarinnar þegar sú mikilvæga umræða fór fram við afgreiðslu á EES-samningnum sem hv. alþm. er væntanlega að fullu ljós. Vegna skyldleika þessa máls við þann samning og það samkomulag fór nefndin nú öðru sinni yfir þau mál, og m.a. af því tilefni að um þessar mundir, að því er mig minnir 30. og 31. mars, kom fram á fundi í Brussel milli EFTA og EB nokkuð annar skilningur á þeim málum en fyrir lá við afgreiðslu EES-samningsins. Ég hlýt í þessu sambandi að þakka sérstaklega samstarfið við utanrrn. sem tók með mjög skýrum hætti þátt í þessari umfjöllun. Niðurstaða úr því samstarfi birtist m.a. í tveimur fylgiskjölum sem fylgja nál., þ.e. bréfi sem ég ritaði utanrrn. og svari utanrrn. við því bréfi. Þar voru enn tekin af öll tvímæli og allar efasemdir í þessu máli.
    Nefndarálitið fjallar um þessi efni og skýrir þau út í fimm köflum. Og með því hvað málið var nátengt fyrri umræðu og í miklum tengslum við utanrrn., þá afhenti ég embættismönnum ráðuneytisins nál. til yfirlestrar áður heldur en frá því var gengið. Ég er þakklátur þeim heiðursmönnum, embættismönnum í utanrrn., sem fóru yfir málið, gerðu við það athugasemdir sem voru teknar til greina að öðru leyti en því sem ég kem hér síðar að.
    Það var reyndar eins um tillögur landbn. að um þær fjallaði utanrrn. líka og nefndinni bárust tvær ábendingar frá ráðuneytinu sem betur máttu fara að dómi ráðuneytisins og þær voru teknar til greina eins og þær bárust nefndinni.
    Ég hlýt að þakka þetta samstarf. Ég hafði reyndar áður gert það persónulega við hæstv. utanrrh. þegar ég vék mér að honum eftir að við höfðum lokið starfi og þakkaði honum sérstaklega fyrir samstarfið við ráðuneytið við afgreiðslu þessa máls. Það er auðvitað grundvallaratriði þegar verið er að fjalla um mál af þessum toga, fella íslensk lög að samskiptum við erlendar þjóðir, að þar fylgist menn enn að en

gangi ekki í sína áttina hvor og af þeirri ástæðu var þessa samstarfs sérstaklega leitað með þeim árangri sem ég hef nú skýrt og í rauninni liggur hér fyrir í nefndaráliti landbn.
    Virðulegi forseti. Ég skal þá víkja hér sérstaklega að brtt. nefndarinnar sem auðvitað hafa mikla grundvallarþýðingu við afgreiðslu þessa máls þó að fleira komi þar til. Þá mun ég að sjálfsögðu hafa til hliðsjónar frv. ríkisstjórnarinnar sem ég hef áður lýst til þess að gera hv. alþm. sem greinilegust skil á þeim breytingum sem frv. felur í sér.
    Það er þá í fyrsta lagi að í frv. ríkisstjórnarinnar fær landbrh. ótakmarkaðar heimildir til þess að veita leyfi fyrir öllum landbúnaðarvörum hvort sem sams konar vörur eða hliðstæðar vörur eru framleiddar hér á landi eða ekki. Það er fróðlegt að huga að því að á þeim tíma sem Sjálfstfl. og Framsfl. voru saman í ríkisstjórn kom fram frv. með sams konar texta. Frv. sem ætlað var að ná til allrar landbúnaðarframleiðslu. --- Ég sá hæstv. utanrrh. koma hér í dyrnar en ég hafði þá lokið umfjöllun um viðskipti mín og utanrrn. og það vill nú svo til að hæstv. ráðherra situr í sama stól núna og var hér á dögunum þegar ég gekk til hans og þakkaði honum með handabandi fyrir samstarfið við undirbúning þessa máls og veit ég að ráðherrann man eftir því. Ég hef, hæstv. ráðherra, farið yfir það í . . .  ( Utanrrh.: Ég hlustaði. Ég hlustaði niðri.) Já, svo það hefur komist á framfæri? ( Utanrrh.: Já, já.) Það þykir mér vænt um því að skárra væri það nú, ekki síst á þeim tímum sem nokkurs darraðardans gætir í stjórnarliðinu að menn fengju ekki að njóta sannmælis. Þá held ég áfram þar sem frá var horfið, virðulegi forseti.
    Ég var að segja frá því, kannski á vissan hátt til gamans, að frv. sem var flutt á þeim tímum sem Sjálfstfl. og Framsfl. voru í ríkisstjórn fól í sér ákvæði um sams konar heimildir og ríkisstjórnin í frv. sínu leggur nú til, þ.e. að allur flutningur á landbúnaðarvörum til landsins væri í höndum landbrh. Frv. ríkisstjórnarinnar núna er að þessu leyti með sama texta. Þessu breyttum við. Okkur fannst ekki ástæða til þess eins og ríkisstjórninni að t.d. landbrh. færi með innflutning á eplum og appelsínum, hrísgrjónum og hafragrjónum ( Gripið fram í: Og tóbaki.) og öðru slíku góðgæti. Og þannig væri lengi hægt að telja. En þetta voru samt tillögur ríkisstjórnarinnar. Þetta þrengdum við þannig að heimildir ráðherrans ná nú einungis til þeirra vara eða hliðstæðra og framleiddar eru á Íslandi og vörulíki úr þeim vörum. En þarna tókum við hins vegar af skarið og töluðum þannig að allir máttu skilja. Við bættum við þessari heimild með skírum orðum um vörulíki og í nál. er greint frá því hvað felist í þessu orði. En ég vitna til þess sem ég sagði áðan í áliti lögfræðinganna að orðalag frv. greinir frá því að tilsvarandi vörur, eins og þar er komist að orði, sé sams konar skýring og á vörulíkjum. En með því að við urðum þess vör í umfjöllun málsins að um þetta voru deildar meiningar, jafnvel þó að lögskýringar lægju fyrir, þá var það náttúrlega sjálfsagt mál að ganga svo frá orðalagi í þessu sambandi að ekki mundi leiða til misskilnings.
    Í þriðja lagi er það sölutími frjálsu varanna. Eins og kemur fram í nál. er frá því greint hvaða vörur það eru sem njóta frelsis á tilteknum tíma. Fulltrúi utanrrn. benti mér á það að sú heimild sem lagt er til að verði tekin inn í frv., þ.e. að landbrh. hafi leyfi til þess að setja reglur um hvernig felldur verður saman þessi frjálsi tími og sölutími þessara vara gæti orkað tvímælis. Og það er mér fullkomlega ljóst því að á samningsbundna fríverslun getum við tæpast sett lög. Hins vegar var það aftur ljóst að garðyrkjumenn hafa af því miklar áhyggjur að óhóflega mikið magn af þessum vörum verði flutt inn í landið í lok þessa tíma en margar þær vörur geta geymst í landinu um langa tíð, jafnvel svo mánuðum skiptir, og þess vegna þarf að koma á einhverjum reglum eða samkomulagi um það að þessi mál gangi fram með þeim hætti sem til er ætlast. Ég kem þessari ábendingu hér sérstaklega á framfæri, m.a. vegna þess, eins og ég hef áður sagt, að þetta þarf að framkvæma af mikilli varúð og réttara sagt meira í sátt og samkomulagi heldur en með tilskipunum. Þessa er sérstaklega getið hér í trausti þess að þegar gengið verður frá reglugerð um þessi mál þá verði þetta sérstaka ákvæði skoðað í þessu ljósi. En því er ekki að neita að garðyrkjubændur eru áhyggjufullir yfir ákvæðum um þennan frjálsa innflutning og það ber að sjálfsögðu að leita leiða til þess að þeir verði ekki þar fyrir meiri áföllum heldur en út frá er gengið.
    Í fjórða lagi er það heimild ráðherra til að fara að alþjóðasamningum og þar eru nú satt að segja ekki gerðar miklar breytingar heldur málin skýrð aðeins betur. Þar er sérstaklega átt við bókun 3 og verðjöfnunargjöld á innflutning. Ég hef áður lýst því hvernig frv. ríkisstjórnarinnar tekur til þessara mála. En eins og ég sagði áðan er túlkunin sú að landbrh. væri í þessum efnum alvaldur, hefði leyfi til að ákveða hvaða vörur væru fluttar til landsins og hvaða gjöld væru lögð á þær. Í tillögum landbn. er þessi réttur þrengdur. Þar er út frá því gengið að álagning þessara gjalda sé í höndum fjmrh. en aftur á móti fái landbrh. rétt sinn með þeim hætti að ákvörðun verði að liggja fyrir þegar hann veitir innflutningsheimild. Með sama hætti er lagt til að fram fari umræða og gert sé samkomulag á milli fjmrh. og landbrh. um það hver þessi gjöld skuli vera þegar til álagningar kemur. Þetta er þrenging frá því sem var í frv. ríkisstjórnarinnar þar sem landbrh. hafði þá samkvæmt þeim lagaskýringum sem ég hef vitnað til ótvíræðan rétt og ótvíræða skyldu til að taka þessar ákvarðanir einn. Í tillögum nefndarinnar er hins vegar lagt til að réttur landbrh. verði þrengdur og með sama hætti fái fjmrh. og fjmrn. meiri rétt heldur en fólst í frv. sjálfu.
    Þetta eru að sjálfsögðu mikil grundvallaratriði í þessari umræðu. Ég gat um það hér áðan að að fimmta atriðinu í umsögn fjmrn. mundi ég koma síðar en þar er fjallað um endurgreiðslu á verðjöfnunargjöldum. Eins og hv. alþm. er kunnugt er EES-samningurinn byggður á gagnkvæmni. Gagnkvæmni um að réttur sé sambærilegur á milli þjóða og m.a. er sérstaklega kveðið á um þetta, eins og hér er tilfært í nál., í 2. gr. bókunar 3 með EES-samningnum, en þar er kveðið á um endurgreiðslu til útflutnings.

    Í lögum og reglum, bæði í tollalögum og víðar, er ekki kveðið á um þessa framkvæmd. Enda segir fjmrn. þegar það fjallar um þessa tillögu eða réttara sagt vísar til þess sem að framan greinir, eins og þar er komist að orði. Það getur auðvitað ekki vísað í neinar reglur því þær eru ekki til. Samkvæmt eðli málsins er þess vegna gerð tillaga um það að þessi sérstaka framkvæmd verði í höndum landbrh. og að honum beri að setja reglugerð um framkvæmd þessa máls.
    Menn mega ekki gleyma þessari gagnkvæmni sem ég hef verið að rekja hér. Hún er virt meðal þeirra þjóða sem hér eiga hlut að máli og byggist m.a. á því að þegar vara er flutt út úr landi þá ber að greiða af henni verðjöfnunargjöld til útflytjandans með sama hætti og þegar vara er futt inn til landsins. Á þetta legg ég mikla áherslu því að hér er um að ræða atriði sem er til hagsbóta fyrir landbúnaðinn og til hagsbóta fyrir iðnaðinn. Í þessu ákvæði felst helst vaxtarbroddur í sambandi við þessa samningsgerð sem landbúnaðurinn getur notið góðs af ef það ákvæði verður nýtt með þeim hætti sem til er ætlast. Og það er reyndar þannig með þennan samning að hann byggir á gagnkvæmni og er ég þá ekki að tala hér um efnislega þætti hans, þeirri umræðu er lokið. Það er verið að fella íslensk lög að þessum samningi og það er grundvallaratriði að framkvæmd þessara mála verði með þeim hætti að það samrýmist sem best högum og kjörum fólksins í landinu og að þeir vaxtarmöguleikar sem þarna kunna að vera fyrir hendi séu nýttir. Það gerist auðvitað ekki nema það stjórnvald sem hefur forræði þessara mála hafi vilja til þess að svo verði. Það er að sjálfsögu grundvallaratriði í þessum samskiptum hvernig unnið verður og tekið verður á þessum málum við framkvæmdina.
    Ég hef nú farið yfir þetta mál nokkuð ítarlega en bendi enn fremur á nál. sem er afar skýrt og skýrir þessi mál vel þannig að lengri framsögu er af þessari ástæðu ekki þörf.
    Ég vil að endingu geta þess að undir nál. rituðu nöfn sín auk mín Össur Skarphéðinsson, Árni R. Árnason og Einar Kristinn Guðfinnson án fyrirvara en Eggert Haukdal, Guðni Ágústsson og Jóhannes Geir Sigurgeirsson með fyrirvara.
    Ég vil sérstaklega geta þess í lokin að öll nefndin lagði á sig mikla vinnu í sambandi við þetta mál og ég er nefndarmönnum afskaplega þakklátur fyrir störf þeirra í landbn. sem hafa m.a. leitt til þess að fyrir liggja þær brtt. og það nál. sem ég hef nú lýst og skýrir þessi mál býsna vel þannig að eftir þessum tillögum, þegar þær hafa fengið hér staðfestingu á Alþingi, verður mun auðveldara að vinna heldur en ef frv. hefði verið samþykkt óbreytt. Og ég vitna til þess sem ég sagði hér í upphafi: Skyldur okkar við lagasetningu felast m.a. í því að talað sé með það skýrum hætti að ekki orki tvímælis hvað við er átt.
    Það var megingalli við frv. ríkisstjórnarinnar hvað menn lögðu breytilegan skilning í ákvæði þess og þar af leiðandi hlaut það að verða hlutverk landbn. að leggja fram tillögur sem gerðu það kleift að framkvæma þau vandasömu málefni sem fram undan eru með þeim hætti að ekki orkaði tvímælis. Það er að sjálfsögðu oft svo að það er auðveldara að koma fram málum með því að vera með a.m.k. tvær tungur í munninum. Ég hef heyrt það utan að mér á síðustu dögum að fjögur ráðuneyti hafi fjallað um þetta frv. og gert um það sérstakt samkomulag. Það bendir líka ýmislegt til þess að tungurnar hafi verið fleiri en tvær og í sumum greinum hafi þær kannski verið fjórar þó að ég kunni ekki þar frá að greina. Það er þess vegna ekki neitt undrunarefni að þegar farið er yfir mál með þennan bakgrunn og sannleikurinn leiddur í ljós um efni og texta að á einhverjum vígstöðvum hrökkvi menn við. En það er skylda Alþingis og það eru við aþingismenn sem eigum að sjá til þess að mál séu afgreidd þannig að eftir þeim sé hægt að starfa því eins og menn vita er ekki bara verið að afgreiða lög fyrir eina ríkisstjórn heldur fyrir þær ríkisstjórnir sem eiga eftir að starfa í landinu.
    Ég endurtek svo þakklæti mitt til samferðafólks míns í landbn. og geri tillögur um það, virðulegi forseti, að málinu verði vísað áfram til 3. umr. að þessari umræðu lokinni og það fái hér fyrir þinglokin greiða afgreiðslu á Alþingi.