Framleiðsla og sala á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 18:58:40 (8408)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka það sem hv. þm. sagði hér áðan og það reyndar staðfestir minn skilning að við göngum ekki á nokkurn hátt tryggilega frá þessum þáttum varðandi forræði landbrn. varðandi jöfnunargjaldatökuna og yfirumsjón með innflutningsheimildum öðruvísi en samþykkja það frv. sem liggur fyrir núna því að það er alveg ljóst að menn geta haft lögfræðiálit út og suður og þau gagnast lítið ef við höfum ekki annaðhvort dómsúrskurðinn eða þá við skerum úr því hreinlega með nýrri lagasetningu eins og hér er rætt um. Og þetta sést best á því að þrátt fyrir þennan úrskurð frá 1990 var haldið áfram með innflutninginn á því sem iðnrn. túlkaði sem iðnaðarvara með allt að 20% kjöti. Nú tek ég það skýrt fram að ég er ekki að leggja hér neinn efnisdóm á það hvort banna ætti allan slíkan innflutning. Ég er einfaldlega að segja að það verður að liggja alveg ljóst fyrir hvar heimildirnar eru og hver hefur forræðið í málinu og það verður að mínu mati ekki gert á annan hátt en þann að við samþykkjum það frv. sem hér liggur fyrir.