Framleiðsla og sala á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 19:01:04 (8409)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir öðru nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem svo sem kunnugt er eru nr. 46 frá árinu 1985. Þetta frv. er einfalt í sniðum, þess eðlis að veita landbrh. heimild til þess að semja við Stéttarsamband bænda um að gera breytingar á búvörusamningi sem gerður hefur verið á grundvelli þessara laga.
    Ef frv. yrði að lögum, þá opnaðist heimild til þess að semja við tiltekna bændur á landgræðslu- og gróðurverndarsvæðum um að þeir héldu beingreiðslum sínum óskertum þótt þeir drægju úr eða felldu jafnvel niður framleiðslu í sauðfjárrækt. Eins fengjust heimildir til þess að gera sams konar samkomulag við bændur sem væru komnir á efri ár og nytu þá annaðhvort örorkulífeyris eða ellilífeyris. Og í þriðja lagi er eftir því leitað í þessu frv., ef að lögum verður, að ákveða misjafnar greiðslur eftir byggðarlögum eða landsvæðum. Og það var um þetta ákvæði sérstaklega sem landbn. þótti ástæða til að gjalda varhug við og það hefur nefndin skýrt í áliti sínu því að eins og menn vita, þá fer nú réttur manna ekki eftir byggðarlögum heldur eftir bújörðum og hagsmunir einstakra bænda eru náttúrlega óháðir því hvar þeir búa á landinu. Þetta kemur fram í áliti nefnarinnar að hún hafi efasemdir um, en þar er líka tekið fram að með því að hér er einungis um að ræða heimild til þess að taka upp samninga, þá gerir nefndin ekki tillögur um

breytingu á frumvarpstextanum. Þetta vona ég að sé nægilega skýrt til þess að þessi skoðun fylgi inn í þá umræðu sem fram undan er ef þessi heimild verður veitt.
    Undir þetta nefndarálit skrifuðu allir nefndarmenn nöfn sín athugasemdalaust, en einn nefndarmanna, Ragnar Arnalds, var ekki viðstaddur afgreiðslu málsins.
    Ég vil svo í lokin, virðulegi forseti, leggja til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 3. umr.