Almenn hegningarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 19:09:03 (8412)

     Frsm. 1. minni hluta allshn. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil mæla fyrir áliti 1. minni hluta allshn. í 89. máli um breytingu á hegningarlögum. Frv. sem um er að ræða gerir ráð fyrir því að 108. gr. laganna falli brott.
    Það er við afgreiðslu málsins rétt að hafa í huga að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið upp þann úrskurð að þeir dómar sem fallið hafa á grundvelli þessarar greinar hafi gengið of langt í því að takmarka opinbera umfjöllun hér á landi. Því þykir okkur í 1. minni hluta allshn. rétt að bregðast við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu á þann veg að breyta því ákvæði í íslenskum lögum sem er ástæða dómsins. Við verðum að velja hvort við viljum fara að Mannréttindasáttmála Evrópu eða láta íslenska löggjöf standa óhaggaða. Ég tel það ekki kost í stöðunni að láta þá grein standa óbreytta eftir að dómur er fallinn og raunar alveg fráleitt að Alþingi láti heilt þing líða án þess að gera viðeigandi lagabreytingar.
    Greinin sem um ræðir hefur verið túlkuð þannig af íslenskum dómstólum að henni megi beita til að sækja menn til refsingar fyrir opinbera umfjöllun um löngu liðna atburði eða opinber mál. Hins vegar var hún sett í öðrum tilgangi sem var að vernda framkvæmd opinberra mála á vettvangi. Þessi beiting á

túlkun greinarinnar er langt utan við tilgang hennar og er því réttast að rjúfa þetta samband sem hefur verið í íslenskri dómatúlkun að unnt sé að tengja þessa grein við umfjöllun um atburði löngu seinna, t.d. í dagblöðum. Það er nægjanlegt að mínu mati fyrir opinbera starfsmenn að hafa ærumeiðingarkafla laganna þó ekki bætist við að þeir hafi sérstaka grein til að sækja menn til refsingar fyrir það ef þeir skrifa eitthvað sem þeim fellur ekki að skapi samanber Viðeyjardómklerk á sínum tíma.
    Þetta mál var nokkuð lengi í allshn. og var fyrsta þingmannamálið sem kom til nefndarinnar á haustdögum. Mig minnir að það hafi komið til nefndarinnar í byrjun október og hlaut ekki afgreiðslu úr nefndinni fyrr en á síðasta fundi hennar. Í millitíðinni var reynt að sætta sjónarmið manna með breytingarhugmyndum en dugði ekki til þess að saman gengi og varð því mín niðurstaða að láta óbreytt standa.
    Ég legg til, virðulegur forseti, við þingheim að frv., 89. mál, verði samþykkt óbreytt.