Lögheimili

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 19:35:39 (8418)


     Frsm. meiri hluta allshn. (Ólafur Þ. Þórðarson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er mikill misskilningur að ef þetta frv. verði að lögum þá grafi það undan lögheimilislögunum, þá verður það einfaldlega hluti af lögunum og grefur ekki undan þeim. Auðvitað er það svo að flestir fara til allrar dvalar tímabundið enda jarðvistin tímabundin og sá sem fer á dvalarheimili fyrir aldraða getur orðið að fara þaðan nokkrum dögum seinna, farið á sjúkrahús og e.t.v. þaðan áfram. Ég vara við því að hægt sé að segja: Eitt er varanlegt, annað er tímabundið. Ég lít svo á að hið góða kvæði eftir Tómas, Hótel Jörð, eigi að sannfæra alla um að það er tímabundin dvöl á þessari jörð.