Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 19:57:25 (8423)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu að bæta við lýsingar hv. síðasta ræðumanns á aðdraganda og umfjöllun um þau mál sem eru hér til umræðu, þetta og hið næsta. En vegna þeirra orða sem hann lét falla varðandi stjórnarskrárþátt þessara tillagna, þá þykir mér eðlilegt að lesa eftirfarandi yfirlýsingu:
    Forsrh. mun beita sér fyrir viðræðum formanna flokkanna og formanna þingflokkanna um stjórnarskrármálið. Markmið viðræðnanna verður að ná sem bestu samkomulagi um frv. til nýrra stjórnskipunarlaga áður en frv. yrði lagt fyrir Alþingi. Æskilegt er að ná samkomulagi um meðferð málsins á Alþingi og um tillögur í stjórnarskrárnefnd í tengslum við 50 ára afmæli lýðveldisins.
    Ég vænti þess að þessi yfirlýsing uppfylli þann þátt sem hv. síðasti ræðumaður nefndi sérstaklega og að þessi tvö mál sem forsætisnefndin hefur fjallað um milli umræðna megi afgreiðast hér með farsælum hætti.