Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 19:58:33 (8424)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í þeirri tillögu, sem við þremenningar fluttum upphaflega, var gert ráð fyrir því að kveðið yrði á um það beinlínis að stjórnarskráin skyldi endurskoðuð og endurskoðunin kæmi fyrir þingið í tengslum við afmæli lýðveldisins. Það er alveg ljóst af viðtölum sem ég hef átt við marga aðila, m.a. fjölda þingmanna að það er erfitt að slá því föstu. Miðað við þær aðstæður tel ég að sú yfirlýsing, sem hæstv. forsrh. hér las upp áðan, sé mjög mikilvægt og jákvætt innlegg í stjórnarskrármálið. Ég vænti þess að það verði unnið samkvæmt þessari yfirlýsingu þannig að hæstv. forsrh. beiti sér fyrir því að helstu forustumenn flokkanna setjist niður til viðræðna um stjórnarskrármálið og finni því farveg sem skilar niðurstöðu þar sem m.a. verði tekið á ágreiningsefnum. Ég er viss um, virðulegi forseti, að það að bíða eftir stjórnarskrárnefnd leysir ekki vandann í þessu tilviki. Forustumenn flokkanna verða að taka málið í sínar hendur og síðan auðvitað Alþingi sjálft sem ræður úrslitum um málin að lokum.
    En ég þakka þessa yfirlýsingu. Ég tel að hún sé mikilvæg í þessu samhengi.