Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil benda hæstv. utanrrh. á það að þingskapaumræðan er til margra hluta nytsamleg. ( Gripið fram í: Hæstv. utanrrh. er ekki í salnum.) Það væri eiginlega alveg nauðsynlegt að koma því á framfæri við hann að þingskapaumræðan er alveg sérstaklega nauðsynlegt ,,forum`` fyrir þingmenn og hæstv. ráðherra til þess að koma á framfæri yfirlýsingum um mikilvæg mál og greiða fyrir þingstörfum. Mér þykir vænt um að hæstv. menntmrh., sem er einn þingreyndasti ráðherrann, formaður þingflokks Sjálfstfl. um árabil, skuli standa að þessu brautryðjandastarfi með þeim hætti sem hann gerði hér áðan og ég þakka honum fyrir það.
    Varðandi þá yfirlýsingu sem hæstv. ráðherra gaf hér, þá vil ég segja að ég tel að það sé mikilvægt að hann orðaði þetta þannig að hann telur tillöguna ekki skynsamlega, hann muni kalla eftir skýringum, hann muni ekki staðfesta þessar tillögur fyrr en hann fái nánari skýringar og sagði: Það er ekki líklegt að ég fái rökstuðning sem dugir mér til að staðfesta tillögurnar. Ég skil þetta þannig að það séu hverfandi líkur á því að ráðherrann muni staðfesta þessa tillögu og ég leyfi mér að túlka hans orð þannig að það liggi fyrir býsna gild og mikilvæg yfirlýsing frá hæstv. menntmrh. í þá veru að þessi ósköp, sem ákveðin voru af stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna í dag, verði ekki staðfest. Og í framhaldi af því verð ég að hvetja hæstv. menntmrh. til þess, sem ég hef áður gert, að skoða sérstaklega og láta rannsaka vinnubrögð stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna og meiri hlutans þar. Ég held að það sé satt að segja á mörkunum að þær ákvarðanir, sem stjórn sjóðsins hefur tekið, standist lög í ýmsum tilvikum. Í því sambandi vil ég m.a. benda á greinargerð sem mér barst í dag frá fulltrúa stúdentaráðs Háskóla Íslands í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna, þar sem hann rekur það mjög skilmerkilega að kröfurnar um námsframvindu til námsmanna standist ekki lög. Í þessari greinargerð kemur reyndar líka fram að það hefur orðið mikil fækkun á einstæðum foreldrum í námi, mjög mikil fækkun, og það er ljóst að ef þessi ákvörðun meiri hluta stjórnarinnar í dag kemur til framkvæmda þá er það auðvitað rothögg á fjölda námsmanna, tugi námsmanna eða hundruð sem eru með börn á sínu framfæri. Ég vona því að það megi skilja yfirlýsingu hæstv. menntmrh. þannig, sem hann gefur hér í þingskapatíma, að hann muni ekki staðfesta þessi ósköp sem þarna dundu yfir af hálfu meiri hlutans í stjórn LÍN í dag.