Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið um leið og ég tek undir það sem hv. 6. þm. Vestf. spurði um. Það er mjög mikilvægt að svar við spurningu hennar fáist í þessari umræðu. Ég held að það hafi verið mjög dýrmætt að hv. 11. þm. Reykv., Finnur Ingólfsson, brást snöggt við í dag og ræddi við menntmrh. og að það tókst síðan að koma þessari umræðu á þó það sé undir liðnum um þingsköp. Og ég þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa það að þetta fari fram undir liðnum um þingsköp.
    Það er rétt sem hæstv. forseti sagði að það er spurning hvort þarf ekki að skoða það að skapa í þingsköpunum farveg fyrir þessa tegund af umræðum. Þetta heitir í grannþingum okkar ,,interpellasjónir`` sem eru leyfðar með stuttum fyrirvara og það eru umræður í kortér, tuttugu mínútur eða svo, um uppáfallandi mál sem koma upp af ýmsu tagi og það er spurning hvort það er ekki nauðsynlegt í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum haft, í senn hálfa klukkustund, að endurskoða þingsköpin með hliðsjón af því en ég endurtek þakkir mínar til hæstv. forseta fyrir að leyfa það að þessi umræða færi fram með þessum hætti.