Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 20:24:32 (8439)

     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Út af þessum umræðum um gæslu þingskapa vil ég að það komi fram að á fundi sem þingflokksformenn eða staðgenglar þeirra héldu í þinghúsinu í dag varð um það samkomulag að taka fyrir dagskrána eins og hún lá fyrir og ljúka umræðum um þau mál sem þar væru. Ljúka sem sagt þeim málum sem á dagskránni væru en að sjálfsögðu ekki þeim málum sem fallist hefði verið á að dyttu niður. En eins og menn hafa tekið eftir hefur verið hlaupið yfir nokkur mál sem ekki er ætlunin að fylgja frekar eftir í þinginu.
    Ég vil bara vekja athygli á þessu samkomulagi sem gert var. Ég vakti sérstaka athygli á því á þessum fundi að þarna væri einnig þingfrestunartillagan þannig að það var öllum ljóst sem aðilar að því samkomulagi voru. Það hefur verið staðið við þetta samkomulag í einu og öllu og ég vænti þess að menn ætli ekki að fara að hlaupa frá því núna út af þessu atriði þegar aðeins eitt mál er eftir á dagskránni sem samið var um að ljúka á þessum fundi.