Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 20:25:52 (8440)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða um það hvort taka eigi fyrir síðasta málið á dagskrá. Ég var að vísu ekki á allra síðasta fundi þingflokksformanna en í dag þegar þetta var rætt þá var einnig rætt um það að halda áfram með dagskrána. En ég verð að játa það að ég hafði ekki hugsað út í það að það er ekki nema ein umræða um þessa síðustu dagskrártillögu. Ég sé ekki hvers vegna hún þarf að koma til umræðu nú á þessum fundi þar sem eftir er að ljúka atkvæðagreiðslu um ýmis mál og taka síðan annan fund til þess að afgreiða þau endanlega frá þinginu. Ég vil því beina því til hæstv. forseta að fresta því að ræða þetta síðasta dagskrármál þar til atkvæðagreiðslur um hin málin sem bíða hafa farið fram.