Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 20:44:58 (8449)

     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið bera það á mig ómótmælt að ég fari hér með ósannindi. Það liggur alveg fyrir hver var niðurstaða þessa fundar. Ég vakti sérstaka athygli á þessu máli, að það væri síðast á dagskránni og það yrði þá eins með það og önnur mál að við mundum ljúka umræðum en atkvæðagreiðslu yrði frestað. Það var þannig. Við tókum hins vegar að okkur að kanna jafnframt önnur mál, hver örlög þeirra yrðu, og það hefur óðum verið að skýrast. Það hefur hins vegar ekki verið tilefni til þess að halda annan fund formanna þingflokka fyrr en eftir að þessum þingfundi væri lokið því að okkar samkomulag gilti um þennan eina fund og ekki lengra. Ég vísa því algjörlega á bug og ég fer fram á það, það er lágmarkskrafa, að menn standi við það sem þeir hafa samið um.