Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 20:55:43 (8454)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það hefur komið hér fram að það væri hægt að ræða um mörg mál nú í þinglok miðað við það hvernig staðan er í þjóðfélaginu og flest þar í uppnámi. En ég ætla ekki að gera það, ekki að þessu sinni a.m.k., en mig langaði að bera fram einfaldar spurningar til hæstv. forseta: Er gert ráð fyrir því að halda einn fund enn til að afgreiða mál? Liggur fyrir dagskrá þess fundar og ákvörðun um hvaða mál verða þar tekin fyrir?
    Mér sýnist augljóst að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að þingfrestun verði hér innan ekki margra klukkutíma. Þá hlýtur það að vera nokkuð ljóst orðið hjá henni hvernig hún ætlar að halda á málum. Ég vil því eindregið biðja hæstv. forseta að skýra frá því hvernig forseti ætlar að halda á málum þessa stuttu stund sem hér er eftir svo öllum þingmönnum verði það ljóst og þá kannski sérstaklega hv. þm. stjórnarliðsins sem bera ábyrgð að sjálfsögðu á þessum vinnubrögðum og kannski er þeim kunnugt um það. En mér hefur þó heyrst það hingað til, m.a. á hv. 3. þm. Austurl., að honum sé ekki alveg ljóst enn þá hvernig þinglokum eða þingfrestun verði hagað og hvernig verður þá unnið að afgreiðslu mála fram að því.