Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 20:58:17 (8455)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Heldur þykir mér sorglegt að hlýða á þá umræðu sem hér fer fram. Ég minnist þess ekki þau 14 ár sem ég hef setið á hinu háa Alþingi að deilur hæfust um þingslit. Oft hitnaði auðvitað í kolunum á meðan verið var að ná samkomulagi en að menn stæðu hér og deildu um þingslit er auðvitað alveg óheyrt, a.m.k. svo lengi sem ég hef verið á Alþingi. Kannski verð ég enn þá sárari þegar ég heyri menn tala hér um hæstv. forsrh. eins og það sé í hans valdi hvernig þingi lýkur. Í 9. gr. þingskapalaga stendur skýrum stöfum:
    ,,Forseti ber ábyrgð á rekstri Alþingis og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess.``
    Og í 10. gr. stendur m.a.: ,,Forsætisnefnd skipuleggur þinghaldið . . . ``
    Það verður hins vegar að játast að forsætisnefnd hefur ekki verið kölluð saman nú um skeið og ber þess vegna enga ábyrgð á því sem hér fer nú fram. En ég vil benda hv. þm. á þó það beri kannski vott um illan hug minn til ríkisstjórnarinnar og jafnvel stjórnar þingsins, sem ég vona nú að menn líti á heldur sem gamanmál heldur en hitt, að ef þessari umræðu lýkur hér og atkvæðagreiðslu verður síðan frestað þá er auðvitað mönnum í lófa lagið --- [Tölvuklukka hringir.] Þetta mun vera vekjaraklukka hæstv. forsrh. sem var notuð við ræðu hans hér nýlega --- en ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því að að þessari umræðu lokinni er mönnum í lófa lagið að koma með dagskrá næsta fundar og á henni stæði ekkert annað en atkvæðagreiðsla um þessa tillögu. Það hlýtur því að vera krafa okkar að við fáum að sjá dagskrá næsta fundar áður en við getum leyft þessari umræðu að ljúka. Þetta hlýtur hæstv. forseti að skilja. Við viljum ekki standa frammi fyrir því hér eftir nokkrar mínútur að fá nýja dagskrá um nýjan fund þar sem ekkert væri á dagskrá nema þingslit. Þess vegna er það krafa mín, hæstv. forseti, að forsætisnefnd verði nú kölluð til örstutts fundar og menn reyni að ákveða hvernig síðasti fundur þessa langa þings á að fara fram svo við getum, hæstv. forseti, farið hvert til síns heima með nokkurri reisn en ekki eins og við höfum ekki komið okkur saman um hvernig beri að slíta þingi. Það gengur ekki. Við verðum, hæstv. forseti, að gæta þess að þingið missi ekki alla virðingu þjóðarinnar með aðförum sem þessum. Það hlýtur þess vegna að vera krafa okkar að forsætisnefnd komi saman og fái að fjalla um dagskrá síðasta fundar þessa þings.