Frestun á fundum Alþingis

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 22:00:40 (8476)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er leitað eftir samþykki til frestunar á fundum Alþingis samkvæmt 1. mgr. 23. gr. stjórnarskrárinnar. Þann tíma sem ég hef setið á þingi hefur samþykkt þessarar tillögu ávallt verið síðasta mál, það er og hefðin. Væri svo ekki er það rétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. að hæstv. forsrh. gæti látið flytja þessa tillögu þegar þing kæmi saman í janúar og haft hana svo uppi í erminni allan veturinn, þ.e. hann hefði þingrofsvald í reynd hér. Það er ekki hugsun stjórnarskrárinnar og liggur ljóst fyrir að hér er verið að samþykkja lokamál þessa þings.
    Mér er ljós þingræðislegur réttur meiri hlutans til að gera þetta. Það segir dálítið um andrúmsloftið á stjórnarheimilinu og það er alveg skýrt að stjórnarandstaðan hefur ekki óskað eftir því að hlaupa frá atkvæðagreiðslu þeirra mála sem hér hafa verið. En ég undirstrika það að vegna þeirrar hefðar sem er í þessum efnum, þá teldi ég mjög hættulegt að rjúfa þær hefðir. Það væri í reynd hlutur sem ekki gengi upp þannig að ég lít svo á að hér sé verið að afgreiða seinasta mál þingsins.
    Herra forseti. Ég segi nei við þessari tillögu.