Afgreiðsla dagskrármála

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 23:04:37 (8484)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að það er afar dapurlegur svipur á þessum síðustu klukkustundum þinghaldsins sem að líkindum verða og það er algjörlega óhjákvæmilegt að mótmæla almennt talað þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð og það á nánast við allt það sem hér hefur gerst á síðustu tveimur til þremur klukkustundunum. Allt er það meira og minna á skjön við góðar samskiptahefðir og venjur í þinginu. Forseti veitti til að mynda þingmönnum umbeðinn ekki venjubundnar upplýsingar um meðferð mála á dagskrá næstu funda sem er afar óvenjulegur atburður. Tillögur eru teknar og þeim raðað upp með mjög óvenjulegum hætti á dagskrá. Atkvæðagreiðslur um tillögur slitnar í sundur o.s.frv. Allt er þetta ákaflega sérkennilegt en langmestu tíðindin eru þó auðvitað þau að það er upplýst á fundi með hæstv. forsrh. og hæstv. forseta þingsins að það sé ríkisstjórn Íslands, það sé ríkisstjórnin sjálf sem stoppi hér eitt mál, 16. dagskrármálið, stjórnarfrumvarp. Mér er til efs að slík tíðindi hafi oft áður orðið að ríkisstjórn sé svo illa komin, á slíkum flótta frá sjálfri sér að hún verði að leggjast í hernað til að stoppa sín eigin mál vegna þess að hún sé komin að því að springa út af ágreiningi um stjfrv. Slíkt eru auðvitað fáheyrð tíðindi, hæstv. forseti. Hér eiga í hlut þeir menn, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., sem öðrum mönnum fremur á undanförnum mánuðum hafa gengið fram fyrir skjöldu í því að ásaka stjórnarandstöðuna um ólíklegustu hluti --- hæstv. utanrrh. jafnvel á erlendri grund --- um málþóf, um skæruhernað og um hvers kyns ofbeldi í vinnubrögðum hefur minni hlutinn verið sakaður. En hvað er hér að gerast? Það sem hér er að gerast er auðvitað hrein valdníðsla hæstv. ríkisstjórnar, hæstv. forsrh., gagnvart þinginu og þingræðinu.
    Hv. 3. þm. Austurl., sem af einhverjum ástæðum er horfinn úr þingsalnum, ástæðum sem ég gæti vel ímyndað mér að ég vissi hverjar væru, hann taldi það ekkert vera annað en pólitískt ofbeldi ef sá meiri hluti sem liggur fyrir gagnvart 16. dagskrármálinu næði ekki fram að ganga. Þetta pólitíska ofbeldi er nú að birtast okkur í verki undir forustu hæstv. forsrh. Við hljótum að lýsa allri ábyrgð á hendur hæstv. forsrh., hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. forseta sem því miður er að láta nota sig til þessara verka. Ég harma þessa niðurstöðu, hæstv. forseti, ég mótmæli henni mjög harðlega.