Sveitarstjórnarlög

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 23:18:20 (8487)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég beindi spurningum til hæstv. félmrh. í 2. umr. um það hvort einhverjar undantekningar hefðu verið á þeim samningi sem við samþykktum um réttindi sveitarfélaga. Hæstv. félmrh. svaraði því ekki og ég leit svo á að með því að svara því ekki væri það staðfest að það hefðu engar undanþágur verið. Ég lít svo á að þær reglur sem nú eru í gildi um Jöfnunarsjóðinn standist ekki þær samþykktir sem þar voru gerðar og bið hæstv. félmrh. að lesa nú grannt það sem þar stendur.
    Ég tel að það sé ekkert óeðlilegt við það þó að það frv. sem hér er lagt fram verði samþykkt og heimilað verði að fara í þær atkvæðagreiðslur sem hér er verið að leggja til ef leikreglurnar væru ekki þær að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er notaður eins og verðlaunasjóður fyrir þá sem kjósa með sameiningu. Það er gjörsamlega óþolandi að þannig sé staðið að kosningum í þessu landi að ef menn kjósi ,,rétt`` þá sé samfélagið verðlaunað með fjármunum frá ríkinu. Slíkt kosningafyrirkomulag er fyrir neðan allar hellur. Það á að sjálfsögðu að breyta leikreglum Jöfnunarsjóðsins þannig að þær standist þá samninga sem við höfum gert.
    Þá vil ég lesa upp úr nefndaráliti. Þróun byggðar, atvinnulífs og stjórnkerfis, skýrsla byggðanefndar þingflokkanna, júlí 1986. Í örstuttu máli kemur þar kjarni þessa máls fram á bls. 35, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin telur að styrkja beri sveitarstjórnarstigið. Til þess eigi að stefna að sameiningu sveitarfélaga eftir því sem við verður komið, aukinni samvinnu þeirra og stofnun raunverulegs jöfnunarsjóðs er greiði ákveðin lögboðin útgjöld fámennustu sveitarfélaganna. Þá ber að auka sjálfsforræði sveitarfélaganna með tilfærslu verkefna og tekjustofna frá ríkinu að svo miklu leyti sem þau verða sem stjórnunareiningar talin fær um að taka að sér aukin verkefni. Mikilvægt er að áður eða jafnhliða verði fámennustu sveitarfélögin efld með framangreindum hætti eða þeim veittur fjárhagslegur stuðningur eins og fyrr segir.
    Á hinn bóginn er það niðurstaða nefndarinnar að verulegum árangri í valddreifingu og virkara lýðræði verði ekki náð með slíkum ráðstöfunum einum saman. Til þess að auka svo nokkru nemi völd og áhrif landsmanna allra, óháð búsetu þeirra, þurfi að koma til þriðja stjórnsýslustigið sem taki við umtalsverðum verkefnum og tekjum, fyrst og fremst frá ríkinu.`` Það seinasta er með breyttu letri.
    Ég tel mig ekki þurfa að taka það fram að þær hugmyndir um sameiningu byggðust á þeirri forskrift að það lægi fyrir að meiri hluti íbúanna vildi það, væri hlynntur sameiningunni.
    Ég vil aðeins segja einn hlut. Það raunalega við það mikla umstang sem nú er sett af stað er það að við munum ekki ná þeim árangri að flytja til sveitarfélaganna nema mjög óveruleg verkefni eins og þetta er sett upp. Til þess að hægt sé að flytja raunverulega stóra hluti til dreifbýlisins, til sjálfsstjórnar hjá dreifbýlinu, verður þriðja stjórnsýslustigið að koma til. Og þannig standa málin í aðalþéttbýli Íslands að ef þriðja stjórnsýslustigið verður ekki tekið upp á höfuðborgarsvæðinu, þá stefnir í skipulagslega vitleysu á þessu svæði, því miður. Það er jafnmikil nauðsyn hér að það sé einn aðili sem skipuleggi almenningssamgöngur yfir allt þetta svæði. Það er jafnmikil nauðsyn hér að það sé einn aðili sem gangi frá því með skipulegum hætti hvernig staðið verður að hraðbrautum í gegnum þetta svæði í framtíðinni. Vegir þurfa einfaldlega að ná saman á mörkum sveitarfélaga. Ég er líka sannfærður um það að til þess þarf að flytja löggæsluna til sveitarfélaganna sem er sjálfsagður hlutur og hvergi í heimi þætti eðlilegt að hafa alla löggæsluna hjá ríkinu, ( HG: Forseti. Væri hægt að fá hljóð í þingsal fyrir skvaldri í ráðherrunum. Það heyrist ekki mannsins mál hér.) þá hlyti það að sjálfsögðu að vera Stór-Reykjavíkurfylkið hér í Reykjavík sem sæi um þessa löggæslu. Ég er að nefna hér örfá dæmi. Ég tel eðlilegt að í framtíðinni verði staðið þannig að málum að sveitarstjórnarstigið sé með um 30% af tekjustofnum hins opinbera, fylkin verði með önnur 30% og ríkið verði með 40%. Í dag er staðið þannig að málum að sveitarstjórnirnar eru með um nálægt 20% og ríkið með afganginn. Þessi miðstýring er að mínu viti gjörsamlega óþolandi.
    Ég ætla ekki að tala lengi hér í kvöld. Ég tel að flestir séu orðnir heldur þreyttir og búnir að vera nokkuð lengi við. En ég vildi koma þessu á framfæri vegna þess að það er ekki heiðarlegt gagnvart hinum dreifðu byggðum landsins að halda því fram að það sem verið er að leggja til núna leysi einhvern stóran vanda. Það er mikill misskilningur.