Framleiðsla og sala á búvörum

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 23:34:25 (8492)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Afstaða hv. síðasta ræðumanns er vissulega fullkomlega eðlileg. Hann segir hér rétt frá um það að hann undirritaði nál. ásamt félaga sínum, Guðna Ágústssyni, og var vinna þeirra fullkomlega trúverðug við afgreiðslu málsins í landbn. Það er náttúrlega m.a. af þeirri ástæðu að ég hafði ekki talið mig hafa neinn rétt til þess þó að ég hefði haft vilja til þess, sem ég reyndar hafði ekki heldur, að stýra þessu máli fram hjá afgreiðslu í Alþingi. Ég var auðvitað m.a. bundinn af afstöðu þessara tveggja hv. þm. sem studdu þetta mál og afstaða þeirra var afar mikilvæg. Ég hygg að það þurfi hins vegar ekki að fara um það mörgum orðum að ég stýri ekki þessum þingfundi. Það er forsetans að ákveða framvindu þessa máls og í þeim efnum get ég ekki haft önnur áhrif en þegar liggja fyrir og þingið hefur orðið vitni að að þetta mál yrði afgreitt.
    Ég fagna því vissulega hvað þetta mál á mikinn stuðning í þinginu og m.a. frá þeim stjórnmálaflokkum eða stjórnmálaflokki og samtökum sem undirrituðu nál. og síðar urðu miklir stuðningsmenn þess á Alþingi. Ég met það afar mikils. Það liggur hins vegar ljóst fyrir, eins og ég sagði áðan, að það er forsetinn sem stýrir þessum fundi og ræður því hvaða mál það eru sem koma til afgreiðslu. Ég hefði vissulega kosið aðra niðurstöðu heldur en hér hefur fengist en a.m.k. fyrir okkur --- og þá segi ég nú okkur sem kalla má íhaldssöm í breytingum í landbúnaði og viljum aðlaga þróun hans með lengri tíma fyrir augum --- þá er það náttúrlega mikilvægt að búvörulögin, sem hafa reynst okkur býsna vel, verða og eru í gildi þar til breytingar verða gerðar á þeim. Mér er fullljóst að t.d. blómabændur sem nutu þess í aprílmánuði sl. að ekki var búið að breyta þessum lögum eru mér sammála. Við höfum að þessu leyti síður en svo veikt stöðu okkar og náttúrlega tryggt það vegna þeirra mistaka sem hafa orðið í ríkisstjórninni um afgreiðslu þessa máls að við höfum margfalt betra vald á því þegar við hittumst næst. Og ég vona og reyndar veit að þá mun landbn. og annað heiðursfólk hér á Alþingi styðja framgang þessara breytinga til betri árangurs heldur en þess sem við hefðum náð, jafnvel með brtt. okkar meiri hluta landbn.
    Ég vona að þessi afstaða sé alveg skýr og ég endurtek þakklæti mitt til Alþingis og til samstarfsmanna minna og þá sérstaklega til þeirra sem undirrituðu nál.