Framleiðsla og sala á búvörum

177. fundur
Sunnudaginn 09. maí 1993, kl. 00:07:23 (8496)

     Jóhann Ársælsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég undrast þetta mjög, ég verð að segja það alveg eins og er. Ég held að það sé hvergi nokkurs staðar tíðkað á fundum, t.d. sveitarstjórna eða hvar sem er þar sem fer fram lýðræðislegt starf, félagsmálastarf, að meiri hluti fundarmanna megi ekki koma fram í máli og að sá sem stjórnar þeim fundum nýti sér einhvers konar rétt, ímyndaðan, til þess að koma í veg fyrir það að meiri hluti fái að koma fram í máli. Mér finnst þetta svo fráleitt að Alþingi Íslendinga geti verið undir reglum þar sem meiri hlutinn á ekki að fá að ráða. Hefur okkur ekki verið kennt það undanfarið að meiri hlutinn eigi að ráða og við eigum að hlíta því? Við erum ekkert að fara fram á annað heldur en að fá að sjá hver sá meiri hluti er. Ég tel að það sé mjög óeðlilegt og niðurlægjandi fyrir embætti forseta Alþingis, ef hann tekur það hlutverk að sér að koma í veg fyrir að meiri hluti fái að sýna sig í máli sem krafist er atkvæðagreiðslu um hér í þinginu. Ég ætla satt að segja að vona það að við eigum ekki eftir að upplifa það á þessum fundi að þannig fari það.