Evrópskt efnahagssvæði

5. fundur
Fimmtudaginn 20. ágúst 1992, kl. 12:36:59 (24)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Áður en umræða hefst um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði vil ég láta eftirfarandi koma fram af hálfu Alþb.:
    Í fyrsta lagi hefur að ósk okkar verið dreift í dag til allra þingmanna tveimur álitsgerðum um stjórnarskrána og EES-samninginn. Önnur þeirra er frá prófessor í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands, Birni Þ. Guðmundssyni, og hin er frá dr. Guðmundi Alfreðssyni. Þessar álitsgerðir hafa borist utanrmn. Alþingis og í þeim er kveðið mjög afdráttarlaust á um það að að dómi þessara færu fræðimanna stangist samningurinn á við stjórnarskrána og ekki sé hægt að afgreiða hann án breytinga á stjórnarskrá.
    Það er einnig nauðsynlegt að það komi fram að báðir þessir sérfræðingar setja fram sínar greinargerðir eftir að fjórmenningar utanrrh. skiluðu áliti. Í báðum þessum greinargerðum, sem nú liggja á borðum alþingismanna, kemur fram efnismikil og afdráttarlaus gagnrýni á þau rök sem fjórmenningar utanrrh. settu fram og þau jafnvel kölluð ævintýramennska í lögfræði.
    Þess vegna er það nauðsynlegt að hér fari fram sem fyrst umræða um stjórnarskrárþátt EES-málsins áður en haldið er áfram á þeirri löngu leið sem er efnisleg umfjöllun um samninginn. Við fögnum því að í næstu viku fer fram umræða um stjórnarskrárfrumvarp sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa ákveðið að flytja og þökkum forseta þingsins og forsætisnefnd fyrir þá ákvörðun að í næstu viku verði tekið fyrir frv. okkar um breytingu á stjórnarskránni og rætt áður en 1. umr. um EES-samninginn lýkur.
    Ég vil einnig geta þess að þingflokkur Alþb. sendi forseta þingsins, Salome Þorkelsdóttur, og forsætisnefnd sérstakt bréf um stjórnarskrána og EES-samninginn í dag og það var kynnt á þessum fundi.
    Ég vil enn fremur setja þá ósk fram frá okkur að þessar tvær greinargerðir sem borist hafa utanrmn. frá prófessor Birni Þ. Guðmundssyni og Guðmundi Alfreðssyni verði prentaðar sérstaklega á vegum Alþingis næstu daga þannig að allur almenningur geti haft aðgang að þeim en ekki bara þingmenn. Álit sérfræðinganefndar utanrrh. var birt í heild sinni í víðlesnasta dagblaði landsins og það er eðlileg lýðræðisleg krafa að almenningur fái líka aðgang að álitsgerðum Björns Þ. Guðmundssonar og Guðmundar Alfreðssonar.
    Enn fremur er það ljóst að fjölmargt annað í undirbúningi málsins liggur ekki fyrir en um það getum við rætt nánar síðar. Þessi sjónarmið vildi ég að hér kæmu fram.