Evrópskt efnahagssvæði

5. fundur
Fimmtudaginn 20. ágúst 1992, kl. 12:40:04 (25)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Eins og þingmönnum er kunnugt var í maí sl. gert samkomulag milli forustumanna flokkanna um að hefja umræður um samninga um Evrópskt efnahagssvæði í ágúst hér á Alþingi. Þetta samkomulag stendur af okkar hálfu og við erum tilbúin til umræðna um samninginn. Hins vegar er það álitamál hvort þetta samkomulag stendur af hálfu stjórnarflokka eins og við höfum þegar reifað í bréfi til forustumanna þeirra og bent á að það vanti enn tvíhliða fiskveiðisamning, það vanti fjölda frumvarpa sem ættu að fylgja samningnum og viðaukar séu enn að berast til þingmanna.
    Alvarlegast í þessu máli er þó stjórnarskrárþáttur þess en frá því í maí sl. hafa utanrmn. Alþingis borist þrjár álitsgerðir um stjórnarskrármálið. Tvær þessara álitsgerða telja ótvírætt að svo mikill vafi leiki á því að samningurinn standist stjórnarskrána að ekki sé réttlætanlegt að Alþingi samþykki samninginn án breytinga á stjórnarskránni. Alþingi, forseti þess og forsætisnefnd hljóta eðli málsins samkvæmt að láta það til sín taka með einum eða öðrum hætti þó að það hafi ekki enn verið gert.
    Ég vil vekja athygli þingmanna á þessum álitsgerðum sem lágu hér á borðum þeirra í morgun. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þeir kynni sér álitsgerðirnar áður en þær koma hér til umræðu. Ég vil

benda á að þessar álitsgerðir hljóta að koma til umræðu við 1. umr. um frv. um hið Evrópska efnahagssvæði vegna þess að með öðrum hætti getum við ekki tekið stjórnarskrármálið upp fyrr en þá í næstu viku. Efnisumræða um samninginn og stjórnarskrármálið hlýtur því með einum eða öðrum hætti að tengjast 1. umr. um það frv. sem hér liggur fyrir.
    Ég vil því taka undir þá ósk sem hér var sett fram af hálfu Alþb. að 1. umr. um þetta mál verði frestað eftir ræðu utanrrh. þannig að þingmenn sem koma til fundar eftir helgi séu inni í þeirri stjórnarskrárumræðu sem hlýtur eðli málsins samkvæmt að fara fram.