Evrópskt efnahagssvæði

5. fundur
Fimmtudaginn 20. ágúst 1992, kl. 12:42:24 (26)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Í vor gerðum við samkomulag um meðferð EES-málsins, þ.e. við ákváðum að koma hér saman til að ræða það hinn 17. ágúst og við þá samþykkt viljum við standa. Ýmislegt hefur að vísu gerst síðan og frá hendi ríkisstjórnarinnar hefur ekki verið staðið við öll þau fyrirheit sem þar voru gefin. Það eru ókomin fram veigamikil frv. sem tengjast þessu máli og hljóta að þurfa að koma til umfjöllunar áður en hægt er að ganga frá málinu til nefndar. Tvíhliða samningur um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir hefur ekki verið gerður enn þá en búist var við því í vor að hann lægi fyrir þegar við kæmum til þingfundar 17. ágúst. Og síðast en ekki síst þá hafa komið fram ný gögn og mjög veigamikil varðandi stjórnarskrárþátt málsins. Hann liggur því miklu ljósar fyrir nú en hann gerði þá. Ég var t.d. ekki sannfærður um að samningurinn bryti formlega í bága við stjórnarskrána þegar við gengum frá samkomulaginu í vor.
    Þetta stjórnarskrármál er óháð hinni efnislegu afstöðu sem menn kunna að taka til EES-samningsins og það ætti raunar engum að vera meira kappsmál en ríkisstjórninni sjálfri að ganga formlega frá þeim þætti þannig að ekki léki vafi á og augljóst væri að samningurinn bryti ekki í bága við íslensku stjórnarskrána. Þjóðréttarsamningur sem brýtur í bága við stjórnarskrá er ógildur og vafalaust vill ríkisstjórnin gera gildan samning, ekki ógildan. Það ætti að vera fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að beita sér fyrir nauðsynlegri stjórnarskrárbreytingu ef hún vill lögfesta þennan samning.
    Við höfum leitað eftir samstarfi við ríkisstjórnina um þann þátt málsins. Það hafa orðið hæg viðbrögð úr þeim herbúðum og við munum leggja fram frv. til breytingar á stjórnarskránni innan örstutts tíma. Ég fagna því að forsætisnefnd hefur (Forseti hringir.) --- frú forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu --- ákveðið að verða við ósk okkar um það að ljúka ekki 1. umr. um EES-samninginn fyrr en 1. umr. hefur farið fram um stjórnarskrárfrv. sem við munum flytja.
    Varðandi lokaafgreiðslu EES-málsins vil ég að það komi fram að stjórnarskrármálið verður að vera útkljáð áður en hægt er að lögfesta þennan samning eða ganga til lokaafgreiðslu hans á Alþingi.