Evrópskt efnahagssvæði

6. fundur
Mánudaginn 24. ágúst 1992, kl. 13:40:29 (34)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegur forseti. Ég læt mig að vísu litlu skipta þótt meðlimir landbn. séu fjarverandi, mér skilst að þeir séu á útreiðartúr um Austfirði, en hitt þykir mér öllu lakara að hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur við þessa umræðu. Ég læt þess getið og vona að hann birtist fljótlega. Ég tel að hér séu mörg atriði sem við hann þurfi að ræða.
    Þetta frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið lætur ekki mikið yfir sér, það er ekki nema fimm greinar. Hins vegar þegar frv. er skoðað kemur fljótlega í ljós að á bak við það eru mörgum sinnum fimm greinar og reyndar fleiri þúsund blaðsíður. Kemur það strax fram í 1. gr. frv., sem ég ætla að leyfa mér að lesa hér, með leyfi forseta. Í 1. gr. frv. segir:
    ,,Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd:
    1. Samning um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn), þ.e. meginmál samningsins, bókanir við hann og viðauka, ásamt gerðum sem í viðaukunum er getið milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þessara bandalaga annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar, sem undirritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992;
    2. samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sem undirritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992;
    3. samning um fastanefnd EFTA-ríkjanna sem undirritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992.``
    Síðan segir í 2. gr.:
    ,,Meginmál EES-samningsins skal hafa lagagildi hér á landi. Sama gildir um ákvæði bókunar 1 við samninginn og ákvæði 9. tölul. VIII. viðauka g-liðar`` o.s.frv.
    ,,Ákvæði EES-samningsins, bókunarinnar og viðaukanna, sem vísað er til í 1. mgr., eru prentaðir sem fylgiskjöl 1--4 með lögum þessum.
    3. gr.: ,,Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.``
    4. gr. ,,Ráðherra, sem í hlut á, getur, ef sérstök nauðsyn krefur, sett reglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd EES-samningsins.``

    Þetta er sem sagt miklu meira en fimm greinar. Hér hefur komið áður fram í umræðunum að samtals eru þær blaðsíður sem að baki liggja, þótt ekki fái þær allar beinlínis lagagildi hér, líklega nálægt 10.000. Ég hef fengið í hendurnar eins og aðrir hér eitthvað um það bil 5.000 síður og ég skal viðurkenna að mér hefur ekki tekist að fara í gegnum það allt.
    En í raun er miklu fleira. Okkur ber skylda til að taka tillit til niðurstaða dómstóls EB og eins og fram kemur í samningnum skulu reglur EB og reglur þær, sem samþykktar eru hjá EES, ganga fyrir íslenskum lögum og reglum og ber okkur skylda til að sjá svo til þegar á reynir.
    Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að mér finnst satt að segja umhugsunarefni að frv. sem þetta skuli vera flutt hér sem frv. til laga en ekki frv. til stjórnarskipunarlaga, ekki síst eftir þá miklu umræðu sem hefur orðið hérlendis um frumvarpið og stjórnarskrána sem ég mun koma að síðar.
    Ég efa ekki að virðulegur forseti hefur skoðað mjög vandlega þessar umsagnir allar og hefur fallist á að þetta frv. skuli þannig flutt, en ekki sem frv. til stjórnarskipunarlaga. Engu að síður hlýt ég að geta þess hér í upphafi að mér finnst þetta mjög umhugsunarvert og spurning hvað er hægt að teygja og toga stjórnarskrána mikið.
    Ég ætla ekki í þessum orðum mínum að svara í raun miklu af því sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. Hæstv. utanrrh. hefur nú ferðast um heiminn í þrjú ár, sérstaklega Evrópu, og verið lengur með höfðingjum þar en hér heima hjá okkur, og ég hélt satt að segja að við mundum fá að heyra föðurlega ræðu hjá hæstv. ráðherra, svona ræðu eins og ,,statesmen`` flytja eins og kallað er erlendis. En svo var nú ekki. Hann kaus að fara heldur á því sem hann kallaði einu sinni ,,á rauðu ljósi`` og kastaði ýmsu fram sem vissulega verður einhvern tímann svarað en ég ætla að mestu leyti að leiða hjá mér.
    Ég tel rétt að rekja aðeins í upphafi aðdraganda þessa samnings og koma þá nokkuð inn á þann hlut sem við framsóknarmenn eigum í því að gengið var til þessarar gerðar. Ég vil minna á það að þótt lengi hafi verið rætt um nauðsynlega samninga á milli EFTA og EB komst það mál þó ekki á skrið fyrr en með ræðu Delors, framkvæmdastjóra Evrópubandalagsins, sem hann flutti í janúar 1989. Þar lýsti hann því yfir að Evrópubandalagið vildi standa að því að koma á samkomulagi sem byggðist á tveggja stoða lausn --- og ég bið menn að taka eftir því --- tveggja stoða lausn. Og hann skýrði það með því að þessar tvær stoðir ættu að vera jafnréttháar. Þær ættu að vera jafnsterkar enda sáu allir að það sem á þessu hlyti að hvíla gæti aldrei staðið á annarri stoðinni, það yrðu að vera tvær jafnsterkar stoðir. Það var þessi ræða sem við höfðum til meðferðar í ríkisstjórninni þegar ákveðið var að fara til viðræðna með leiðtogum EFTA-ríkjanna í Ósló í mars 1989.
    Ég flutti þar þau skilaboð frá ríkisstjórninni að við Íslendingar værum reiðubúnir til að taka þátt í þessum viðræðum en af ýmsum sérástæðum hér heima þá hlytum við að gera sérstaka fyrirvara sem hæstv. ráðherra kom reyndar réttilega inn á. Og eins og hæstv. utanrrh. sagði mótuðust þessir fyrirvarar síðan skýrar í allri vinnslu málsins á næstu mánuðum eftir þennan Óslóarfund. Í fáum orðum sagt má segja að þeir hafi verið þessir:
    1. Engar fjárfestingar erlendra aðila í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða.
    2. Engar fjárfestingar erlendra aðila í orkulindum.
    3. Eignarhald erlendra aðila á landi takmarkast við nauðsynlegt land vegna atvinnureksturs.
    4. Engar yfirþjóðlegar stofnanir aðrar en sameiginlegur dómstóll.
    5. Heimild til að takmarka fólksflutninga til landsins.
    Ég vil sérstaklega staldra við atriði nr. 4, sem hæstv. utanrrh. sleppti í síðari upptalningunni í ræðu sinni, þegar hann fór yfir það hvernig þessum fyrirvörum hefur verið fullnægt.
    Þetta var eitt meginatriðið í ræðu minni í Ósló, að við Íslendingar gætum ekki gengist undir vald yfirþjóðlegra stofnana. Hins vegar þegar málið hafði nokkuð verið unnið og fór að þróast þá urðum við sammála um það í síðustu ríkisstjórn að líklega væri það skárri kostur fyrir okkur en ekki að fallast á einn sameiginlegan dómstól en sem hefði mjög takmarkað svið.
    Ég verð að viðurkenna það nú eftir að ég hef fengið álitsgerðir sérfræðinganna, bæði fjórmenninga hæstv. utanrrh. og álitsgerðir annarra sérfræðinga, að líklega var þetta röng ákvörðun hjá okkur þá nema við hefðum orðið að breyta stjórnarskránni til að Alþingi gæti samþykkt og heimilað að jafnvel takmarkað svið færi undir sameiginlegan dómstól. Það verður að segjast bara eins og er að við vorum ekki komnir það langt að gera okkur grein fyrir því. En mér sýnist alveg ljóst núna að ef úr þessum sameiginlega dómstóli hefði orðið þá hefði orðið að breyta stjórnarskránni til að á það mætti fallast. Staðreyndin er vitanlega sú að hinar yfirþjóðlegu stofnanir eru orðnar miklu, miklu meiri en menn gerðu sér grein fyrir á þessum tíma.
    Það er rétt sem hæstv. utanrrh. leggur áherslu á, við stóðum að því að þessar viðræður hófust. Staðreyndin er sú að við framsóknarmenn teljum að við hljótum að taka virkan þátt í því alþjóðlega samstarfi sem nú fer vaxandi á milli þjóða. Okkur er ljóst að við lifum að sjálfsögðu ekki ein í þessum heimi, samstarfið verður stöðugt nánar og fleiri þau stóru verkefni sem þjóðirnar verða að taka á sameiginlega. Ég get nefnt nokkur, t.d. hafréttarsáttmálann sem við höfum beitt okkur fyrir að gerður var sameiginlega á milli þjóðanna, mannréttindamálin sem við hljótum að taka þátt í og viljum taka þátt í, umhverfismálin sem við leggjum mikla áherslu á að verði sameiginleg og verði tekið hart á, teljum nauðsyn ef bjarga á þessum hnetti sem við lifum á. Einnig er ljóst að við Íslendingar, sem erum mjög háðir erlendum viðskiptum, hljótum að búa eins og við getum í haginn fyrir þau viðskipti og að því var fyrst og fremst stefnt með þátttöku í þeim samningi sem hér er nú til umræðu.
    Hæstv. utanrrh. minntist nokkuð á það í ræðu sinni hvaða afstöðu menn hefðu haft til fríverslunarsamningsins á sínum tíma, árið 1970, og fór þar með upp úr nokkrum ræðum sem ég ætla ekki að tala um. Ég var fylgjandi þeim samningi þá og var að sumu leyti á öndverðum meiði við ýmsa af mínum flokksmönnum. Ég taldi rétt að ganga til þess samnings. Ég hef hins vegar oft velt því fyrir mér síðan hvað við höfum haft upp úr þeim samningi. Það væri gaman að heyra ef einhver gæti sagt mér það hér. Við höfum jú haft það upp úr þeim samningi að helmingurinn af íslenskum iðnaði er farinn úr landinu. Þegar iðnrekendur mættu hjá utanrmn. var í raun og veru það eina sem þeir sögðu eða a.m.k. það sem bar mest á að með því að ganga til samnings núna um hið Evrópska efnahagssvæði verði íslensk stjórnvöld neydd til að búa í haginn fyrir iðnaðinn eða búa iðnaðinum hér sömu starfsskilyrði og iðnaðurinn nýtur í okkar meginsamkeppnislöndum. Kannast einhver við þessi orð? Þetta er nákvæmlega það sama og forsvarsmenn iðnaðarins sögðu 1970. Að með því að ganga í EFTA þá neyddust íslensk stjórnvöld til þess að skapa iðnaðinum hér sömu skilyrði og enn á að gera það sama.
    Það var dálítið fróðlegt í utanrmn. þegar þar mætti maður sem er mjög vel að sér í þessum málum öllum, forstjóri Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, og sagði að það setti að sér óhug þegar hann sæi glýjuna í augum iðnrekenda við þessi orð, að með samningnum ættu þeir að fá sömu starfsskilyrði og iðnaður í Evrópu og þeir áttu reyndar að fá 1970 þau sömu starfsskilyrði. Hann nefndi nákvæmlega það sem ég nefndi áðan. Hvað hefur unnist? Helmingurinn af íslenskum iðnaði hefur farið úr landi og það hallar satt að segja því miður stöðugt undan.
    Nei, við höfum staðið okkur illa í því, það verður að viðurkennast, að skapa íslenskum iðnaði viðunandi skilyrði. Við höfum haldið hér ýmsum sköttum og álögum sem ekki þekkjast annars staðar eins og aðstöðugjaldi. Enn þá er karpað um það hvort eigi að afnema aðstöðugjaldið. Nú segir iðnaðurinn: Nú neyðist ríkisstjórnin til að afnema aðstöðugjaldið svo eitthvert dæmi sé nefnt. Kannski er það rétt. Vitanlega áttum við að hafa manndóm til að lagfæra slíka hluti áður. Ég tek það fram að ég er alveg eins í sök að þessu leyti eins og aðrir sem að stjórnmálum hafa komið þennan tíma. Staðreyndin er vitanlega sú að við getum án nokkurs samnings skapað þessi skilyrði öll fyrir iðnðinn hér.
    Það er að heyra á hæstv. utanrrh. að hann sjái bjargráðið núna helst og eitt í þessum samningi um hið Evrópska efnahagssvæði, bjargráðið fyrir íslenskt atvinnulíf þar sem stefnir í 6% atvinnuleysi. Þetta eru mikil mistök og hættuleg mistök. Í samningnum sem slíkum felst ekkert bjargráð, ekki neitt. Það felst í okkur sjálfum. Ég vil ráðleggja hæstv. ráðherrum að lesa Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, þau síðustu sem hafa birst, t.d. það sem birtist á sunnudaginn, þar sem er á kurteislegan máta varpað fram þeirri hugmynd hvort við séum ekki á rangri leið með thatcherismann og reaganismann sem hér eru reknir af hæstv. ríkisstjórn. Það segir beinlínis að hér á landi fylgi stjórnvöld stefnu Breta og Bandaríkjamanna og þar er rakið ítarlega hvernig náið samstarf ríkisvaldsins og atvinnulífsins í Þýskalandi, Frakklandi og Japan hefur gjörsamlega snúið dæminu við. Sérstaklega hafa Þýskaland og Japan brunað fram úr og eru löngu komin fram úr Bretum og bruna jafnvel fram úr Bandaríkjamönnum.
    Menn ættu að taka sig til og lesa bók, af því að Morgunblaðið vísar í margar fróðlegar bækur, bókina eftir dr. Thorow sem er forstjóri Sloan-stofnunarinnar frægu hjá MIT í Bandaríkjunum sem hann kallar á ensku ,,Head to head``. --- Ég veit ekki hvernig á að þýða það, ,,augliti til auglitis``, eða ,,haus í haus``, það er ekki góð þýðing. Þar talar hann um þá árekstra og átök sem eru og hafa verið á milli þeirra þjóða sem ég hef nú nefnt og rekur vandlega hvernig reaganisminn og thatcherisminn hafa farið með Bandaríkin.
    Nei, bjargráðið er ekki EES. Því fer víðs fjarri og það er hættulegt ef menn binda sig við það og telja að þar sé eitthvað sem bjargar íslensku þjóðfélagi. Nei. Ég ætla alls ekki að segja að utanrrh. sjálfur hafi fundið upp orðin ,,allt fyrir ekkert``. Hann notaði þau með ljóma í augum hér í fyrra. Það getur vel verið að einhver hafi komið þeim inn í hans háttvirta koll. En engu að síður finnst mér það oft liggja í orðunum að þarna fáist mikið fyrir lítið. Dettur mönnum það virkilega í hug að þarna fáist mikið fyrir lítið, svo ég taki nú kurteislega til orða?
    Það er rétt sem hæstv. utanrrh. sagði að það er gagnkvæmt að því leyti til að viðskiptafrelsi fæst á báða bóga að mestu leyti. Það eru að vísu margir annmarkar þar á, t.d. hefur EB neitað að taka skipaiðnaðinn í þetta samkomulag sem er eitt af því mikilvægasta fyrir okkur. Það á að halda áfram að styrkja hann. Það á að halda áfram að styrkja sjávarútveginn. Það er kannski þess vegna sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið þann kostinn nú að styrkja íslenskan sjávarútveg sem er allt annað mál og satt að segja afar hættulegt og alvarlegt mál.
    Það er hins vegar alls ekki hægt að segja að þetta sé gagnkvæmt á öllum sviðum. Ég held að allir geti t.d. viðurkennt að hið örsmáa íslenska þjóðfélag er í gífurlega miklu meiri hættu fyrir ýmiss konar yfirtöku en hin risastóru þjóðfélög Evrópu. Ég held það óttist ekki nokkur maður að jafnvel stærstu íslensku fyrirtækin leggi undir sig einhvern atvinnurekstur í Evrópu, ég held það óttist enginn og kemur sjálfsagt aldrei til greina. En jafnvel þótt Hagkaup og Bónus sameinist þá munar stóru hringana í Evrópu ekkert um að gleypa þá á einni nóttu og þurfa jafnvel ekki nóttina til, þeir geta gert það með kvöldverðinum.

    Hvað halda menn t.d. að stóru þýsku bankana muni um það að yfirtaka íslensku bankana? Hvað halda menn að þá muni um það? Ég veit það dettur engum í hug að íslenskur banki geti náð slíkum tökum í Evrópu að hann verði þar ráðandi. Menn verða að hafa opin augu fyrir þessu og vernda hið örsmáa íslenska þjóðfélag fyrir slíku eins og frekast er kostur. Ég kem að því síðar að mér finnst það ekki hafa verið gert eins og vera ber á ýmsum sviðum. Það er því hættulegur misskilningur að halda að þetta sé gert í jafnræði. Þetta er alls ekki jafnræði. Það getur aldrei verið jafnræði á milli ofurrisans og hinnar ofurlitlu þjóðar. Það getur aldrei verið þegar allt er opnað upp á gátt. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir að ég heyrði hann ekki nefna það í sinni ræðu að 18% kratanna, að mig minnir, samþykktu það á flokksþinginu að ganga í EB og það þykir mér meira en nóg. Hann nefndi það ekki í sinni ræðu en fyrir þá sem þannig hugsa skiptir kannski ekki máli hvenær við verðum yfirteknir af risaveldunum í Evrópu.
    Eitt er það atriði enn sem mér finnst vert að minnast á af því ég minntist á bókina áðan. Mér finnst menn ekki gera sér grein fyrir því til hvaða leiks við erum að ganga. Við erum að gerast þátttakendur í þessum átökum, eins og dr. Thorow kallar það, á milli Evrópu, Þýskalands, Japans og Bandaríkjanna, og við ætlum að ganga inn í raðir Evrópu, að vísu með EES óbeint en inn í markaðinn þar og þá væntalega að okkar litla leyti styrkja þá í baráttunni við hin efnahagsrisaveldin. Þau átök munu verða ráðandi hér á næstu áratugum. Á því er ekki nokkur minnsti vafi og alls ekki séð fyrir endann á því hvernig fer.
    Hæstv. utanrrh. talaði mikið um GATT og ég er honum að öllu leyti sammála. GATT eru athyglisverð samtök en GATT er alls ekki í anda þessara samtaka. Svo ég vitni aftur í þennan prófessor við Sloan-stofnunina þá telur hann að þegar þessar markaðseiningar eru mótaðar verði GATT gleymt því það hentar t.d. alls ekki Evrópu að standa að víðtækum GATT-samningum enda hefur hæstv. utanrrh. við þau tækifæri, þegar um GATT hefur verið rætt hér á hinu háa Alþingi, kallað EB þríhöfða þurs. Er það ekki rétt? Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra. Þetta eru einhver hin mestu eiginhagsmunasamtök sem til eru og miða bara þráðbeint að því að verða hið risastóra efnahagsveldi heimsins. Þau ætla að verða það með því að ná yfir Evrópu. Þau gleypa fljótlega Tékkóslóvakíu, Pólland, Ungverjaland o.s.frv. og þá er það orðinn markaður upp á --- ekki 380 millj. eins og nú, heldur 400--500 millj., og þegar Rússland er komið inn verða þetta 600--800 millj. og þá fær fátt við þá ráðið.
    Ég held nefnilega að við þurfum að hafa þessa mynd mjög í huga þegar við ákveðum hvar við ætlum að standa í þeirri heimsmynd sem er að koma upp. Ameríkumarkaðurinn er okkur enn afar mikilvægur og við þurfum að halda honum og Japansmarkaður er stöðugt vaxandi. Ég er því þeirrar skoðunar að um leið og við göngum til samstarfs við EB á einhvern máta, með þessum samningi endurbættum eða tvíhliða samningi, þá þurfum við að gæta þess afar vel að hafa fullt frelsi til samskipta við önnur markaðssvæði. Ég er ekki eins sannfærður um það, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, að þar höfum við fullt frelsi. Það er skýrt tekið fram að gera má samninga en þó er samningurinn um EES alltaf æðri og aðrir samningar sem við gerum mega aldrei ganga neitt á skjön við samninginn við EES. Og hver dæmir? Þeir sem dæma eru dómstólarnir í Evrópu en ekki við, ef slíkur samningur er gerður.
    Ég ætla svo að fara í nokkur atriði þessa samnings. Ég ætla fyrst að fara yfir ályktun sem gerð var á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins 3. maí sl. Sumir hafa minnst á það, og ég hef oft verið að því spurður, af hverju Framsfl. sé ekki reiðubúinn að gera upp hug sinn í þessu máli. Ég svara því til að við viljum sjá öll kortin, fá öll spilin á borðið. Við teljum vissulega, þar sem við stóðum að því að koma þessum samningum af stað, að okkur beri skylda til að skoða hann í heild sinni og töldum ekki fært þess vegna að taka endanlega afstöðu þegar þessi fundur var haldinn í maí. Með leyfi forseta, segir svo:
    ,,Miðstjórnarfundur Framsfl. ályktar að stuðningur við aðild Íslendinga að hinu Evrópska efnahagssvæði komi ekki til greina nema eftirgreindum skilyrðum sé fullnægt:
    1. Samningurinn standist ákvæði stjórnarskrárinnar.
    2. Í stað þeirra fyrirvara sem ekki fengust viðurkenndir verði hagsmunir landsins tryggðir með einhliða lagasetningu á Alþingi.
    3. Tvíhliða samningur um fiskveiðar reynist ásættanlegur enda sé eftirlit með veiðum erlendra aðila fullnægjandi sem og önnur ákvæði hans.
    4. Tryggt verði að Íslendingar hafi fullar heimildir til þess að leggja jöfnunargjald á innfluttar landbúnaðarafurðir.
    5. Formlega verði viðhorf Evrópubandalagsins kannað til breytinga á samningi um Evrópskt efnahagssvæði í tvíhliða samningi Íslendinga og Evrópubandalagsins ef og þegar önnur EFTA-ríki hafa gerst aðilar að EB. Að slíkri breytingu verði stefnt.``
    Síðan segir: ,,Verði ofangreindum skilyrðum fullnægt hafa Íslendingar tryggt sér það sem þeim er mikilvægt í samskiptum við þjóðir Vestur-Evrópu, sérstaklega frjálsan aðgang fyrir framleiðslu Íslendinga á markaði þar. Þess er jafnframt vænst að öllum verði þá ljóst að aðild að Evrópubandalaginu kemur ekki til greina.``
    Eins og kemur fram í þessari ályktun teljum við framsóknarmenn afar mikilvægt að undirstrika það og fá það samþykkt og viðurkennt af hæstv. ríkisstjórn að aðild að Evrópubandalaginu kemur ekki til greina. Þess vegna töldum við afar mikilvægt að fá markaða þá stefnu strax að þessi samningur breyttist í tvíhliða samning þegar önnur EFTA-ríki hafa fengið aðild að Evrópubandalaginu.

    Þá er þess að geta að 8. maí var gert samkomulag milli flokkanna um meðferð þessa máls og þarf ég ekki að lesa það, svo oft hefur verið farið yfir það. Í því fólst í fáum orðum að þing átti að koma saman aftur 17. ágúst, eins og varð en fyrir þann tíma áttum við að fá í okkar hendur samkvæmt skrá þau fylgifrumvörp og fylgiskjöl sem nauðsynleg eru til að geta gert sér grein fyrir þessum samningi. Ég er ekki að segja að lofað hafi verið sjávarútvegssamningi, það væri ekki rétt, en ég hygg að allir hafi gert sér vonir um að hann lægi fyrir og enginn getur deilt um að það er mikilvægt að hafa þann samning áður en endanlega er gengið frá þessu máli.
    Hvernig hefur þá verið við þetta staðið? Því miður vantar mikið á að ýmis þau frumvörp sem áttu að vera komin fram séu komin. Í minnisblaði frá nefndadeild Alþingis 19. ágúst sl. er t.d. getið nokkurra frv. sem ég tel að varpi ljósi á það að við framsóknarmenn a.m.k. teljum afar erfitt að taka endanlega afstöðu til efnisþátta samningsins fyrr en þau liggja fyrir. Þau eru:
    1. Frv. til laga um breytingu á lögum um skipun opinberra framkvæmda og lögum um opinber innkaup. Verður tilbúið í haust, von var á því 15. júní.
    2. Frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Verður tilbúið í haust, von var á því 15. júní.
    3. Frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Tilbúið í haust, von var á því 15. júní.
    4. Frv. til laga um aðrar lánastofnanir. Tilbúið í haust, von var á því 15. júní.
    5. Frv. til laga um samvinnufélög. Tilbúið 1. sept.
    6. Frv. til laga um breytingu á lögum um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri. Tilbúið 15. okt.
    6. Frv. til laga um hlutafélög. Tilbúið 15. okt.
    8. Frv. til laga um breytingu á lögum um bókhald. Tilbúið 1. janúar 1993.
    Hér eru ýmist mikilvæg frv. sem verða ekki tilbúin fyrr en nokkuð er liðið á þinghaldið í vetur og hér eru mörg mikilvæg frv. sem áttu að koma fram í júní en eru ekki komin fram enn. Þetta voru frv. sem áttu að fara til efh.- og viðskn.
    Iðnn. segir að von sé á þremur málum til viðbótar í haust:
    1. Frv. til laga um eignarrétt á auðlindum neðan yfirborðs jarðar. Var væntanlegt 15. júní. Ég hygg að það hafi komið einhver drög að þessu frv. en hafi verið send til baka til heimahúsa.
    2. Frv. til laga um virkjunarrétt fallvatna. Var væntanlegt 15. júní.
    3. Frv. til laga um höfundarrétt á iðnhönnun. Tilbúið 15. ágúst.
    Í landbn. eru mjög mikilvæg mál. Frv. til laga um breytingu á jarðalögum og e.t.v. á ábúðarlögum sem enn þá hefur ekki neina dagsetningu en er sagt að sé væntanlegt um 15. okt. Það varðar væntanlega það sem hæstv. utanrrh. rakti ítarlega í sinni ræðu um ýmiss konar varnagla og girðingar sem unnt er að setja fyrir eignarhaldi útlendinga á jörðum. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá upptalningu. Hann nefndi þar fjölmörg atriði, miklu fleiri en t.d. sérfræðingarnir þrír nefndu, sem skrifuðu litlu bláu bókina um þetta mál. Þar kom mér ýmislegt á óvart því þar mátti skilja svo að erfitt verði að ganga lengra en þegar er gengið í dag.
    Ég fagna því sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. og treysti hans orðum um að ýmislegt af því sem hann taldi upp verði í því frv. sem hér verður lagt fram.
    Af þessu má ljóst vera að þingmenn hafa alls ekki verið í þeirri stöðu sem þeir gerðu sér vonir um þegar samningurinn var gerður 8. maí til að geta rætt þetta mál í grunninn nú. Auk þess mun ekki vera búið að þýða, eins og hér hefur verið upplýst, nema um það bil helmling af þeim skjölum sem þurfa að fylgja þessu máli, hvað þá dómsúrskurði og margt fleira sem er kannski inni í því falið.
    Eitt af því stóra sem hefur gerst í meðferð málsins er að yfirlit frá nefnd þeirri sem hæstv. utanrrh. skipaði í stjórnarskrármálið kom á nokkurn veginn tilsettum tíma og ber að fagna því. Þessi nefnd hefur verið kölluð fjórmenningar hæstv. utanrrh. svo menn viti við hvað ég á. Jafnframt hefur komið fram álit annarra virtra lögfræðinga, prófessors Björns Þ. Guðmundssonar, prófessors í stjórnlagarétti, og dr. Guðmundar Alfreðssonar þjóðréttarfræðings. Því verður ekki neitað að þessar skýrslur hafa varpað mjög svo nýju ljósi og skýrara ljósi á stjórnarskrárþátt málsins. Mér sýnist, eftir að þetta er komið fram, að það verði að ræða þetta mál frá tveimur hliðum. Annars vegar er það sem ég vildi gjarnan kalla hina tæknilegu hlið. Leyfir stjórnarskráin að svona þjóðréttarsamningur sé gerður að landslögunum? Leyfir hún það framsal valds sem í honum felst? Hinn þátturinn er svo efnishlið samningsins að sjálfsögðu en vitanlega getur svo farið að jafnvel þótt menn séu sáttir við efnishlið samningsins treysti þingmenn, sem hafa svarið eiðstaf að stjórnarskránni, sér ekki til að standa að þessum samningi ef þeir telja að stjórnarskrárþætti hans sé ábótavant. Því er ekki að neita að strax og ég las skýrslu fjórmenninganefndarinnar sannfærðist ég um að þar væri mörgu ábótavant.
    Við höfum hér nokkur flutt sérstakt frv. til stjórnskipunarlaga sem á að taka af allar efasemdir í þessum málum og veita heimild til þess að framselja vald ef það er samþykkt með þremur fjórðu hlutum atkvæða hér á hinu háa Alþingi en um það mál ræði ég að sjálfsögðu síðar og skal ekki fara út í það. Ég tel þó rétt að taka fram að það er almennt frv. því okkur er ljóst að mjög líklega þurfum við Íslendingar að framselja eitthvert vald, t.d. ef við staðfestum mannréttindasamning Evrópuráðsins eða umhverfismálunum verði þannig hagað að eitthvert yfirþjóðlegt vald komi þar til sem ég held að verði að gerast ef

koma á skikkan á þau mál. Engu að síður verðum við að skoða þennan samning núna með tilliti til stjórnarskrárinnar eins og hún er.
    Eins og ég sagði áðan brá mér þegar ég las skýrslu fjórmenninganna. Það er best að segja fyrst að allir sem hafa fjallað um þetta mál staðfesta að í stjórnarskránni er ekkert sem beinlínis heimilar framsal valds. Hins vegar komast fjórmenningarnir að þeirri niðurstöðu að þar sé heldur ekkert, og það er rétt, sem bannar framsal valds og því megi framselja það. Hins vegar vöknuðu strax hjá mér miklar efasemdir við ýmsar setningar í þessari skýrslu eins og þegar látið er að því liggja að í 2. gr. stjórnarskrárinnar, sem fjallar um skiptingu ríkisvaldsins, megi jafnvel láta sér detta í hug að þar sé ekki verið að fjalla eingöngu um íslenskt framkvæmdarvald eða íslenskt dómsvald. Mér brá þegar ég las þetta. Ég verð að taka undir með Birni Þ. Guðmundssyni sem vísar þessu alfarið á bug og spyr: Hvernig dettur mönnum í hug að þeim, sem sömdu stjórnarskrána, hafi komið til hugar að skipta ætti valdi út til erlendra valdhafa? Ég held að það komi ekki til mála, ég held að það sé hrein fjarstæða. Sömuleiðis finnst mér afar erfitt að fóta mig á þeirri meginniðurstöðu að þetta sé í lagi vegna þess að það vald sem er framselt sé vel afmarkað á takmörkuðu sviði og ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila. Hver ætlar að dæma í hverju tilfelli? Hvar eru mörkin? Því miður höfum við ekki stjórnlagadómstól hér og væri þörf á að hafa hann. En hver ætlar við þær aðstæður sem hér eru að dæma um þetta? Ætlar einfaldur meiri hluti Alþingis að taka að sér að meta það hvenær það er verulega íþyngjandi, vel afmarkað o.s.frv.? Fyrirtæki sem fengi sekt upp á einhverja tugi milljóna kann að vera lítið á alþjóðlegan mælikvarða og lítið fyrir íslenskt þjóðarbú í heild en það gæti verið íþyngjandi fyrir þetta einstaka fyrirtæki eða einstakling sem fengi á sig dóm. Ég held því að hér verði að draga skýr mörk. Ég verð að segja það með mikilli virðingu fyrir þeim ágæta manni dr. Bjarna Benediktssyni, sem utanrrh. vísaði mikið til, að mér fannst ekki farið með þær tilvísanir á réttan máta. Ég les þær svo að þar komi fram mjög mikil virðing fyrir stjórnarskránni. Hann segir að vísu í einni tilvitnuninni að það sé stjórnmálaleg ákvörðun þegar stjórnarskránni er breytt. Það er rétt. Það er stjórnmálaleg ákvörðun þegar stjórnarskránni er breytt. Þá gera menn það vitanlega vitandi vits, stjórnmálalega. Hvað vilja stjórnmálaforingjar í landinu heimila mikið með stjórnarskránni? En ég skil aldrei ummæli hans svo að hann sé að mæla því bót að stjórnarskráin sé teygð og toguð eins og mér finnst gert í þessu áliti fjórmenninganna.
    Það er æðimargt í ályktunum Björns Þ. Guðmundssonar og Guðmundar Alfreðssonar sem vert væri að fara hér í. Ég vil ekki hafa þetta mál mitt allt of langt en ætla þó að stikla á nokkrum atriðum. Eitt atriði finnst mér afar ótrúlegt. Það er þegar svo lærðir og ágætir menn, eins og þeir sem í fjórmenninganefndinni sátu, segja beinlínis að það kunni svo að fara að meira vald sé framselt og með alvarlegri afleiðingingum en þeir geri sér á þessu stigi grein fyrir. Það verði bara að sjá til hvað Hæstiréttur gerir í þessu sambandi og reyndar hef ég heyrt þau orð falla hjá fleiri stuðningsmönnum samningsins. Björn Þ. Guðmundsson segir, með leyfi forseta:
    ,,Að mínu viti dugar ekki lögfræðilega að reyna að sýna fram á að formlega sé í lagi að lögfesta EES-samninginn en ef hins vegar komi síðar í ljós að ákvæði hans brjóti í bága vð stjórnarskrána sé unnt að bregðast við því samkvæmt ákvæðum hennar sjálfrar.``
    Sem sagt að þá sé hægt að koma með stjórnarskrárbreytingu og gera þetta í lagi gagnvart stjórnarskránni. Hafa menn hugleitt það hvernig ástandið yrði hér eftir 3--4 ár þegar þetta fjórfrelsi er allt saman komið til framkvæmda ef Hæstiréttur úrskurðaði þá að eitthvert atriði samningsins stæðist ekki stjórnarskrána? Það mundi náttúrlega þýða að sú gerð, sem ríkisstjórnin stefnir nú Alþingi í að gera, yrði ólögmæt. Hvað um alla þá gjörninga sem væru byggðir á þessum samningi, á frelsi um viðskipti, frelsi um fjármagnsflutninga, frelsi um fólksflutninga, frelsi um þjónustu? Hvað yrði um þá alla ef Hæstiréttur úrskurðaði að þeir væru ólöglegir? Dettur mönnum virkilega í hug að þá gæti Alþingi hlaupið saman og breytt stjórnarskránni, haft svo kosningar og samþykkt breytinguna á ný og þar með væri allt það sem gerst hefði á undanförnum árum komið í lag? Ég held að jafnvel verkfræðingur eins og ég hljóti að sjá að það gengi aldrei nokkurn tíma upp, hvað þá lögfræðingur eins og hæstv. forsrh. Ég er sannfærður um að hann veit að þetta gengi aldrei upp því að vitanlega væri þá það sem menn hefðu gert í góðri trú á fjórum árum allt hin mesta lögleysa. Mér fannst ótrúlegt að þessir lærðu lögfræðingar skyldu leyfa sér að leggja þetta fyrir okkur.
    Síðan eru nefnd ýmis fordæmi í nefndinni og þar er nú eitt sem mér finnst dálítið erfitt að kyngja. Líklega er það hárrétt að Alþingi hefur iðulega gengið lengra en rétt er við að framselja vald innan lands. Ég geri hins vegar mjög mikinn greinarmun á því að framselja vald innan lands eða til erlendra aðila og eins og prófessor Björn segir, með leyfi forseta:
    ,,Við röksemdafærslu má það ekki vera leiðandi sjónarmið að eitthvað sem áður hafi verið gert, hvort heldur er með lagasetningu, stjórnsýsluákvörðunum eða dómum, og talið hefur verið vafasamt að hefði nægilega stoð í stjórnarskránni, réttlæti það í þessu máli að slaka megi á kröfum um stjórnskipulegt gildi laga.``
    Þetta er vitanlega alveg hárrétt. Þótt einhver glæpur hafi áður verið framinn réttlætir hann ekki glæpinn að nýju. Ef einhverju hefur verið stolið má ekki stela að nýju af því að einhver gerði það í gær eða fyrradag. Það liggur náttúrlega í hlutarins eðli og hlýtur hver heilvita maður að sjá að svona röksemdafærsla gengur ekki. Við eigum vitanlega að bæta okkur og reyna að koma í veg fyrir slíkt framsal

valds.
    Prófessor Björn leggur á það ríka áherslu að miklu víðtækari rannsókn þurfi að fara fram á því um hvaða framsal valds hefur verið að ræða. Hann rekur nokkuð hvernig vald hefur verið framselt, t.d. hér innan lands þegar ráðherra framselur vald til síns embættismanns og er ábyrgur fyrir hans gerðum. Hann nefnir presta sem látið hafa af störfum í þjóðkirkjunni, þeim hefur með lögum verið veitt heimild til þess að gefa saman hjón en vel að merkja í umboði viðkomandi þjóðkirkjuprests. Það er kannski gott, táknrænt að gefa saman hjón. Ég vil ekki telja að hæstv. utanrrh. hafi verið gefið vald til þess að gefa okkur og hin Evrópuríkin saman. Ég held að því fari víðs fjarri. Svo segir hann:
    ,,Þess eru hins vegar engin dæmi að íslenskt framkvæmdarvald hafi í þessum skilningi verið framselt til erlends stjórnvalds. Þau þrjú dæmi sem fjórmenninganefndin tekur úr samningnum á sviði norrænnar samvinnu, til styrktar niðurstöðum sínum, falla ekki undir slíkt valdframsal í skilningi stjórnskipunar og stjórnsýsluréttar.``
    Um þetta fjallar reyndar Guðmundur Alfreðsson einnig ítarlega og vekur athygli á því að í þessum samningum eru það Íslendingar erlendis sem gerst hafa brotlegir á einhverju sviði og þar með gengið undir vald dómstóla þar sem þeir eru. Hins vegar ef Íslendingur brýtur hér á Íslandi gagnvart einhverju af Norðurlöndunum, þá getur dómstóll á Norðurlöndunum ekki dæmt hann þar sem hann er búsettur hér á landi. Þarna er vitanlega reginmunur á. EFTA-dómstóllinn og eftirlitsstofnunin dæma menn búsetta hér fyrir brot á þessum sameiginlega samningi fyrir allt svæðið. Það er engin heimild til að skjóta þeim dómi undir íslenska dómstóla eins og nú er hægt í langflestum tilfellum. Auk þess er þetta norræna dæmi gagnkvæmt, þ.e. að við Íslendingar dæmum þá Norðurlandabúa sem eru hér á Íslandi samkvæmt samningi um gagnkvæm atvinnuréttindi. Ef einhver gerist brotlegur hér, þá dæmum við hann fyrir íslenskum dómstólum. Þetta er allt annað. Við höfum engan rétt til að dæma slíkt í þessum EES-samningi.
    Björn Þ. Guðmundsson fjallar líka um innlenda eða erlenda stjórnvaldshafa og segir: ,,Það er alveg ljóst samkvæmt stjórnskipunarrétti að með stjórnvöldum í 2. gr. stjórnarskrárinnar er einungis átt við innlenda stjórnvaldshafa en ekki erlenda og ekki heldur þjóðréttarlegar stofnanir.`` Þetta hélt ég satt að segja að hverjum hugsandi manni hlyti að vera augljóst, eins og ég nefndi áðan. Það er ekki í 2. gr. verið að gefa neitt til kynna á milli lína að það megi afsala valdi til erlendra stofnana. Slíkt kæmi vitanlega ekki til greina.
    Mér þótti athyglisvert að sjá að efasemdir prófessorsins vöknuðu á nákvæmlega sama stað og mínar. Prófessorinn segir hér: ,,Lögfræðinganefnd utanrrh. kemst í grófum dráttum að þeirri niðurstöðu að um heimilt framsal framkvæmdarvalds sé að ræða vegna þess að reglurnar um vald stofnana EFTA séu vel afmarkaðar og feli ekki í sér verulegt valdframsal sem talið verði íþyngjandi í ríkum mæli, enda varði það milliríkjaviðskipti. Einmitt hér vakna efasemdir mínar sem ég mun reyna að rökstyðja nánar,`` og mér þótti gott að sjá að prófessorinn hafði sett spurningarmerki við þessar setningar.
    Hann fjallar um þær heimildir sem þessar stofnanir hafa. Hann segir: ,,M.a. hefur eftirlitsnefndin heimild til að ákvarða sektir og févíti sem verða beint aðfararhæfar hér á landi. Þessar ákvarðanir, og raunar margar fleiri, verða ekkk bornar undir íslenska dómstóla heldur einungis undir EFTA-dómstólinn til endanlegrar úrlausnar eða þá EB-dómstólinn.`` Þessu verða menn að taka eftir. Íslenskur ríkisborgari búsettur hér á landi sem fær á sig dóm EFTA-dómstólsins eða neikvæða niðurstöðu EFTA-eftirlitsnefndarinnar getur ekki skotið málinu undir íslenskan dómstól. Hann er bundinn af þessu, þetta er endanlegt og meira að segja aðfararhæft hér á landi. Og áfram segir prófessorinn:
    ,,Þetta felur með öðrum orðum í sér að ákveðinn hluti íslensks refsivalds er framseldur til þjóðréttarlegra stofnana, þ.e. vald sem nú er í höndum þar til bærra innlendra stofnana. Verður að leggja áherslu á að hér er um sjálfa ákvörðanatökuna að ræða, sem lýtur beint að einstaklingum og fyrirtækjum hér á landi á bindandi hátt og þeir aðilar geta ekki borið lögmæti ákvarðananna undir íslensk stjórnvöld eða dómstóla. Þetta er í mínum huga aðalatriðið. Þar við bætist að þessar ákvarðanir verða beint aðfararhæfar hér á landi gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum.``
    Ég held að flestum hljóti að vera ljóst að hér er um afar alvarlegt og umhugsunarvert atriði að ræða. Ég fæ ekki séð að þetta sé á svo takmörkuðu sviði o.s.frv., eins og nefndin hefur rakið og oft hefur verið vísað til, þ.e. ekki um verulegt valdaframsal að ræða, ekki íþyngjandi og svo afmarkað, að við getum látið það eins og vind um eyru þjóta. Þetta er á sviði fjórfrelsisins og það er ekki mjög takmarkað svið; viðskiptamál, fjármál, fólksflutningar og þjónustuviðskipti. Þetta eru satt að segja ekki svo afmörkuð svið og æðimargt sem getur fallið þar undir. Prófessorinn rekur það svo hvernig þetta er á allt annan máta hér. Hann rekur það m.a. að hér á landi eru dómstólarnir sjálfir og dómararnir undir vissri gagnrýni. Þá ber að velja samkvæmt mjög ákveðnum reglum sem við höfum ekki nokkur tök á að tryggja að verði hjá þessum erlendu alþjóðlegu stofnunum. Dómarar þurfa að hafa ákveðna menntun o.s.frv. sem aldrei verður tryggt. Svo segir hann: ,, . . .  og síðast en ekki síst getur hann [þ.e. hinn íslenski þegn] borið mál sitt undir dómstóla.`` Þ.e. ef Íslendingur verður fyrir einhverju aðkasti hér heima, t.d. ef sýslumaður dæmir hann eða undirréttur þá getur hann farið með málið til Hæstaréttar. Íslendingur getur ætíð skotið ákvörðun stjórnvalda sem hann er óánægður með undir íslenska dómstóla. --- ,,Með EES-samningnum hefur íslenskur þegn afsalað sér þessu öllu til stofnana EFTA og EB,`` að sjálfsögðu á þessum takmörkuðu sviðum. Prófessorinn kemst að þeirri niðurstöðu að ,, . . . við erum því að framselja hluta ríkisvalds okkar til þjóðréttarlegs aðila

sem engin reynsla er fengin af hvernig starfar.``
    Nú er það út af fyrir sig ekki umdeilt að við erum að framselja vald, meira að segja sérfræðingar utanrrh. staðfesta það. En hér er velt upp ýmsum fleiri atriðum, t.d. þeim að við höfum enga reynslu af þessum dómstólum og getum ekkert metið þá fyrir fram.
    Prófessorinn, sem er prófessor í stjórnlagarétti, dregur þetta svo saman í sínum niðurstöðum og leggur aftur áherslu á það. Varla hvarflaði að nokkrum Íslendingi, segir hann, þá, þ.e. þegar stjórnarskráin var samið, að við mundum framselja ríkisvald til erlendra aðila eða þjóðréttarlegra stofnana og fullyrðir að það sé óþekkt að vald sé framselt til útlanda.
    Prófessorinn segir að lokum hér: ,,Með því framsali ríkisvalds, sem hér er til umræðu, er ekki einasta þjóðréttarlegum stofnunum falið bindandi ákvörðunarvald á tilteknum sviðum gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum á Íslandi, heldur afsala sömu aðilar sér þeirri réttarvernd sem þeir njóta samkvæmt íslenskum lögum og m.a. er fólgin í því að mega bera athafnir stjórnvalda undir umboðsmann Alþingis, undir æðra stjórnvald og að lokum dómstóla.``
    Ég hef nú hlaupið nokkuð hratt yfir þessa greinargerð prófessors Björns en ég kemst ekki hjá því einnig að fara nokkrum orðum um það sem dr. Guðmundur Alfreðsson segir. Rétt er að vekja athygli á þjóðréttarsamningum og landslögum þar sem ég er ekki viss um að allir hafi gert sér grein fyrir því. Menn segja: Við höfum gert fjöldann allan af þjóðréttarlegum samningum, og vitanlega er það rétt, en hér er um það að ræða að gera þjóðréttarlegan samning að landslögum. Dr. Guðmundur leggur áherslu á það að ætíð þegar um þjóðréttarlegan samning er að ræða sem ekki hefur verið gerður að landslögum, þá ráða landslög. Jafnvel þó við semjum um einhvern hlut við aðra þjóð og gerumst við skulum segja brotlegir gagnvart þeim samningi, þá er það íslenskur dómstóll sem verður að dæma það samkvæmt íslenskum lögum. Þjóðréttarsamningurinn sem slíkur er ekki þar með orðinn að landslögum. Það er stóri gerningurinn sem liggur í þessum fimm greinum hæstv. utanrrh. að gera þennan fleiri þúsund síðna samning að landslögum. Dr. Guðmundur leggur áherslu á að það verði að fara mjög varlega í samanburð á alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur þegar gengist undir og þeim yfirþjóðlegu skuldbindingum sem felast í EES-samningnum. Og vitanlega er það alveg ljóst sem þjóðréttarfræðingurinn segir að í 21. gr. stjórnarskrárinnar felst ekki sjálfstæð og sérstök heimild til að gera þjóðréttarsamninga sem breyta stjórnarskránni. 21. gr. heimilar forseta Íslands að gera þjóðréttarsamninga en það er útilokað að túlka þá grein þannig að forseta heimilist t.d. að gera þjóðréttarsamning sem breyti stjórnarskránni og stjórnarháttum hér á landi.
    Ég ætla að grípa niður á nokkrum stöðum. Lögfræðingurinn fjallar um þetta mjög skipulega, fyrst löggjafarvaldið, og vekur t.d. athygli á því sem er nokkuð umhugsunarvert að undirbúningur lagafrumvarpa flyst frá íslenskum stjórnvöldum, þ.e. ríkisstjórn og þingmönnum, til erlendra aðila, til sérfræðinga hjá EB fyrst og fremst, þ.e. ef breyta þarf samningnum þá á það uppruna sinn þar. Okkur er sagt að vísu og kemur nú fram í frægri skýrslu hollenska formanns samninganefndar EB, Van der Pas, þar kemur að vísu fram að þetta er bara til málamynda, segir hann, svona til að leyfa okkur að vera með. Við höfum þar ekki neinn atkvæðisrétt og ekki neinn ákvörðunarrétt. Þetta er atriði sem mér finnst algjörlega hafa farið fram hjá mönnum. Frumkvæðið er þar. Og meira að segja eins og hér er rakið, eftir að þetta er nú gengið í gegnum EFTA-ráðið og komið til Íslands, þá hefur Alþingi Íslendinga ekki rétt til að breyta einum stafkróki í þessum samningi. Engu. Sem sagt, það er annaðhvort að segja já eða nei. Og þannig eru Alþingi og íslensk stjórnvöld vitanlega svipt mjög mikilvægum frumkvæðisrétti og þó Alþingi hafi formlegt neitunarvald, þá er efni laganna ráðið annars staðar.
    Guðmundur rekur síðan vandlega þau fordæmi sem hér hafa verið nefnd og nefnir t.d. að það er vitanlega allt annað að flytja vald á milli innlendra aðila en til yfirþjóðlegra erlendra stofnana. Og hann fjallar síðan um yfirtöku á dómum og úrskurðum EB-dómstólsins og segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Dómarnir eru ekki eingöngu lögskýringar- eða túlkunargögn`` eins og mátti skilja á nefnd hæstv. utanrrh. ,,Þeir eru nauðsynlegur hluti lagasamræmingarinnar og óumflýjanlegur hluti hins nýja EES-réttar. Þeir geta í reynd haft bein réttaráhrif, þar sem eftirlitsstofnun og dómstóll EFTA eiga að beita þeim í ákvörðunum, sem mundu koma til fullnustu á Íslandi.``
    Það er vitanlega rétt að dómarnir eru ekki lögteknir en af því sem ég hef getað lesið mig til um dómana sýnist mér aftur og aftur í raun þetta koma fram í sjálfum samningnum og fylgiskjölum hans. Dómarnir eru langtum meira en túlkunargögn. Þeir geta verið ráðandi um lagasamræmingu.
    ,,Viðeigandi dómar EB-dómstólsins``, segir hér jafnframt, ,,t.d. um samkeppnisreglurnar, eru hins vegar ekki skráðir í EES-samningnum. Það er bara almenn tilvísun til þeirra og þeir ekki tilgreindir.`` Þegar ég las þetta fór ég að hugleiða hvort þetta gæti virkilega verið rétt og ég sé að þetta er rétt. Það er náttúrlega hreint ótrúlegt að okkur er ætlað hér að samþykkja þennan samning með tilvísun í lagabókstaf sem á að fá gildi að landsrétti án þess að viðkomandi gögn séu lögð fram í frumvarpsformi. Reyndar sé ég það á þeim frumvörpum sem eru að koma fram núna, t.d. eitt sem við sáum í morgun, að þar er í raun og veru bara örstutt grein sem segir: Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð gildi ákveðinna hluta hjá EFTA og EB. Síðan eru felld úr gildi fjöldamörg önnur frumvörp. Ég trúi því nú satt að segja ekki að hv. þm. láti það yfir sig ganga að samþykkja slíka opna heimild til ráðherra án þess að hafa séð allt það sem að baki liggur.
    Að sjálfsögðu er það einnig mikilvægt sem lofað er með tilvísun í lagasamræmingu á EES-svæðinu að EFTA-ríkin muni tryggja með lögum að EES-reglur gangi framar öðrum landslögum.
    Um eftirlitsstofnunina segir lögfræðingurinn:
    ,,Í 2. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að forseti og önnur stjórnvöld fari með framkvæmdarvaldið. Í 13. gr. segir að forsetinn láti ráðherra framkvæma þetta vald. Samkvæmt 14. gr. bera ráðherrar ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum. Það er enginn vafi á því að stjórnarskráin á hér við íslenska ráðherra og íslensk stjórnvöld.`` Þarna þykir Guðmundi eflaust nauðsynlegt að árétta þetta vegna þeirra efasemda sem komu fram hjá sérfræðingum utanrrh. ,,Það er engin undantekning gerð í þessum greinum um framsal á framkvæmdarvaldi út úr landinu og það hefur aldrei verið gert með þessum hætti þannig að engin eru fordæmin.`` Hann fjallar síðan um fordæmin.
    ,,Samkvæmt EES-samningnum, greinum 108--110 mun eftirlitsstofnunin fá víðtækt vald til að hafa eftirlit með framkvæmd lögfestra samningsskuldbindinga. Hið sama getur gilt um framkvæmdastjórn EB í þeim tilfellum þegar ákvarðanir falla undir hana samkvæmt ákvæðum samninganna. Sérfræðinganefndin telur réttilega upp eftirfarandi ákvarðanir sem eftirlitsstofnunin hefði heimild til að taka og sem snúa að íslenskum einstaklingum og fyrirtækjum,`` og svo hefst upptalningin: ,,bindandi yfirlýsingar um brot, bindandi fyrirmæli um skyldubundin viðbrögð, tímabundnar bindandi bráðabirgðaráðstafanir, rannsóknaraðgerðir á vettvangi (t.d. bókhaldsrannsóknir), og aðfararhæfar sektir og févíti.``
    Mér varð að orði þegar ég sá þessa upptalningu hvort menn teldu virkilega að hér væri um afmarkaða og lítt íþyngjandi svið að ræða, hvernig mönnum geti dottið það í hug? Og maður spyr sjálfan sig þegar maður les slíka skilgreiningu: Hvar eru mörkin? Væri t.d. unnt á þessari skilgreiningu að setja okkur Íslendinga inn í Evrópubandalagið?
    Allmikið hefur verið talað um fordæmi og um fordæmi að þessu leyti sem varða framkvæmdarvaldið fjallar Guðmundur og segir um það sem upp er talið af fjórmenningunum sem ég ætla að lesa hér, með leyfi forseta:
    ,,Strax í upphafi orða sinna um framkvæmdarvaldið telur sérfræðinganefnd utanrrh. upp tilfelli þess að Ísland hafi ,,fullgilt marga alþjóðasamninga sem leggja ríkinu umfangsmiklar skyldur á herðar``. Þeir nefna sáttmála Sameinuðu þjóðanna, Norður-Atlantshafssamninginn og stofnskrá og mannréttindasamning Evrópuráðsins og sérstaklega lög um lagagildi samningsins um réttindi Sameinuðu þjóðanna, lög um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðsins og lög um lagagildi varnarsamningsins, sem gerður var á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins. Allt er þetta gott og blessað, en kemur bara málinu ekki við``, segir doktorinn.
    ,,Þessi fordæmi eru í eðli sínu engan veginn sambærileg við það sem mundi gerast samkvæmt EES-samningnum. Í engu áðurnefndra tilfella hefur framkvæmdarvald, og ekki heldur löggjafar- eða dómsvald, verið flutt út úr landinu. Í öllum tilfellunum er um þjóðréttarlegar skuldbindingar að ræða og í þeim tilvikum, sem þær hafa verið lögfestar, hvílir lokaákvörðunarvaldið yfir íslenskum þegnum hjá íslenskum aðilum samkvæmt íslenskum landsrétti og samkvæmt íslenskum túlkunum á þjóðaréttinum í samræmi við landslög.`` Vitanlega hlýtur hver einasti maður í raun að sjá þetta. Við getum nefnt t.d. varnarsáttmálann. Oft hafa ýmis atriði hans vegna komið fyrir íslenska dómstóla.
    En það er líka fróðlegt sem kemur fram í sérfræðinganefndinni. Ég ætla að lesa hér áfram:
    ,,Sérfræðinganefndin telur líka upp dæmi þess að íslenskir dómstólar geti beitt erlendum réttarreglum um viðskiptamál og fjölskyldurétt og hún blandar alþjóðlegum einkamálarétti eða lagaskilarétti inn í þá umræðu. Þeir bæta því að vísu við að slík beiting erlendra reglna ,,varðar ekki beint það álitaefni, sem hér er til umfjöllunar, þar sem ekki er samkvæmt lagaskilarétti um að ræða að erlendum stjórnvöldum sé fengið vald til að gefa fyrirmæli sem gilda eiga hérlendis.````
    Og vitanlega má segja að þetta sé kjarni málsins. Það er ekki verið að fela erlendum stjórnvöldum það vald sem hér er um að ræða í þessu tilfelli.
    ,,Útlend stjórnvöld eða dómstólar fá samkvæmt Norðurlandasamningunum [sem ég gat um áðan] aldrei lögsögu yfir íslenskum einstaklingum eða fyrirtækjum, nema þeir hafi sjálfir með gerðum sínum komist undir vald erlendrar lögsögu.`` Yfir þetta fór ég áðan.
    Hér er einnig fjallað ítarlega um dómstólana og skal ég stytta það eins og ég get en hann vekur athygli á því að dómarnir verða endanlegir gagnvart íslenskum einstaklingum og fyrirtækjum. Þeir eru aðfararhæfir að landsrétti o.s.frv. Um þetta hef ég reyndar þegar fjallað og ætla ekki að lengja mál mitt með því að nefna það aftur og sama á við um eftirlitsstofnunina.
    Guðmundur Alfreðsson fjallar einnig verulega um þessi orð nefndarinnar: ,,afmarka, takmarka, ekki verulega íþyngjandi valdaframsal``. Nú hef ég þegar lýst minni undrun á þeim orðum og skal ekki endurtaka það hér.
    Með öðrum orðum, virðulegi forseti, þetta er önnur hlið þessa stóra máls. Er okkur Íslendingum, jafnvel þótt við séum sáttir við efnisatriði samningsins, fært að gera þennan þjóðréttarsamning að íslenskum lögum eins og stjórnarskráin stendur nú? Ég segi nei. Mér sýnist tvímælalaust að til þess vanti í stjórnarskrána heimild. Ég vek athygli á því að önnur Norðurlönd hafa áttað sig á þessu fyrir alllöngu. Mig minnir að Norðmenn hafi breytt sinni stjórnarskrá líklega 1968 eða 1969 og a.m.k. Svíar og Danir hafa sett í sína stjórnarskrá ákvæði sem heimilar þrátt fyrir önnur atriði stjórnarskrárinnar að aukinn meiri hluti á þingi geti samþykkt að framselja vald til erlendra yfirþjóðlegra stofnana. Þeir áttuðu sig sem sagt á því hvaða breytingar eru að verða í heiminum og þetta kynni að verða nauðsynlegt. Því miður höfum við Íslendingar ekki gert það þrátt fyrir áratuga langa skoðun á stjórnarskránni. Eins og stjórnarskráin stendur er þetta því að mínu mati alls ekki hægt og það er þess vegna sem við höfum nokkur lagt fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni, reyndar ekki bara út af þessum samningi, en sem mundi gera það kleift fyrir þá sem það vilja að samþykkja hann en einnig út af öðrum alþjóðlegum skuldbindingum sem við göngumst undir.
    En hvað er þá um hina efnislegu hlið samningsins? Ég ætla aðeins að fara yfir þau atriði. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að við sáum um þetta með erlendu fjárfestinguna og breyttum lögunum og það er formlega staðfest í samningnum og ekki vefengt og því fögnum við að sjálfsögðu. Að vísu fannst mér hæstv. utanrrh. láta að því liggja að þessum ákvæðum ætti að breyta og maður hefur heyrt það frá hæstv. fjmrh. og bíð ég spenntur að sjá þá breytingu. Ég vona bara að hún feli ekki í sér undanhald að þessu leyti sem því miður heyrist krafist hjá nokkrum hagsmunaaðilum í vandræðum. En þarna held ég að við verðum að standa afar vel á bremsunum og koma í veg fyrir að við missum tökin á erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi.
    En það er fleira sem við nefndum. Ég nefni í öðru lagi eignarrétt á landi umfram það sem þarf til atvinnureksturs. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. að í skýrslu sem hann lagði fyrir fyrri ríkisstjórn, mig minnir að það hafi verið fyrir lok október 1990, kemur fram frá aðalsamningamanni að ekki muni fást sá fyrirvari að takmarka megi jarðakaup. Þá var sú ríkisstjórn fullkomlega sammála um að það yrði þá að tryggja þetta eftir öðrum leiðum. Og þar voru nefndar nokkrar leiðir, t.d. að áskilja ákveðna búsetu í landinu áður en kaupa megi nytjajarðir eða landareign umfram það sem þarf til atvinnureksturs. Það er hins vegar hárrétt að í þeirri ríkisstjórn voru menn ekki á eitt sáttir hvort bæri að fara þá leið eða einhverja aðra eða jafnvel hvort halda ætti þessum fyrirvara lengur til streitu. Sú ríkisstjórn sem nú er hefur setið nokkuð á annað ár og enn höfum við ekki séð neitt frv. sem á að tryggja þennan rétt en séð heldur, fannst mér nú, neikvæða skýrslu lögfræðinga um þessi mál þar sem má skilja að þetta sé nægilega tryggt í dag með þeim forkaupsrétti sem sveitarfélög hafa.
    Við framsóknarmenn erum þessu algerlega ósammála. Við teljum að búa þurfi miklu, miklu betur um hnútana og ég endurtek að ég fagna því sem hæstv. utanrrh. taldi upp í þessu sambandi, en þetta höfum við hins vegar því miður ekki séð og það er slæmt að fá ekki að sjá það frv. fyrr en í október, ef ég man rétt eftir upptalningunni. Þetta mun ráða mjög miklu um efnislega afstöðu okkar til samningsins.
    Þeir eru til sem óttast ekki slík kaup erlendra aðila og meira að segja hitti ég einn sem sagði: Hverju máli skiptir hver á landið? En ég held að það sé ekki nokkur einasti maður hér inni sem þannig hugsar, sem betur fer. Ég vil bara leggja áherslu á það að þeir munu margir verða í þrengslum, mengun og óhreinindunum erlendis sem vilja eignast íslenskt land jafnvel þótt hér rigni og blási stundum dálítið nístingur af norðri. Þeir munu verða margir. Þeir munu verða margir sem vilja eignast hér ekki endilega eins og oft hefur verið nefnt laxveiðiár, heldur bara útivistarsvæði, þar sem þeir geta gengið um sæmilega frjálsir án þess að vera með grímu fyrir andlitinu.
    Ég legg á þetta mjög ríka áherslu og ég treysti því að hæstv. utanrrh. sjái til þess að það frv. sem hér verði flutt verði mjög ítarlega úr garði gert. Hinu fæ ég svo ekki neitað að þegar maður sér að Danir fengu inn í Maastricht-samkomulagið sjálft vissan fyrirvara um jarðakaup Þjóðverja í Danmörku spyr maður sjálfan sig: Var þessu haldið nóg til streitu? Gáfust menn ekki upp of snemma? Var ekki hægt að fá þetta viðurkennt vegna fámennis landsins? Eflaust er of seint um þetta að tala, en mér sýnist nú að þarna hafi Danir staðið að sumu leyti betur að máli. Þeir vöknuðu upp við þann ljóta draum að Þjóðverjar voru að leggja undir sig strendurnar á Jótlandi og það land sem æskilegast og girnilegast þótti og fengu þá inn jafnvel á seinasta stigi samningsins ákvæði sem veitir þeim vissa undanþágu. ( HG: Og felldu svo málið.) Og felldu þó málið, það er alveg hárrétt hjá hv. þm., þrátt fyrir þetta. Og nú virðast fleiri ætla að fella þetta mál kannski.
    Þá eru það að sjálfsögðu fleiri atriði sem við höfum nefnt. Það er í fyrsta lagi eignarhald á orkulindum landsins og ég er sammála því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að líklega er þetta í lagi í sambandi við vatnsföllin því þar hefur ríkið í dag einkarétt til að virkja. En ég vek athygli á því að í hvítu bók ríkisstjórnarinnar er fram tekið að einkavæða eigi orkufyrirtækin og þá er ekki hægt að einkavæða orkufyrirtækin og meina erlendum aðilum innan EES að taka þátt í þeirri einkavæðingu. Ég hef reyndar spurt um það hér aftur og aftur hvort þetta ákvæði hvítu bókarinnar standi enn, hvort menn séu ekki reiðubúnir að afskrifa það í ljósi þeirra upplýsinga sem komnar eru fram í sambandi við EES-samninginn. Svo þarna virðist ríkisstjórnin taka heldur létt á þessu máli ef trúa má hvítu bókinni. Ég legg að vísu ekki mikið upp úr henni en sumir kunna að gera það. Um jarðhitann gildir hins vegar öðru máli. Þar hefur ríkisvaldið ekki einkarétt til að virkja og hæstv. iðnrh. hefur boðað frv. um það efni. Ég vona að það komi. Það má tryggja með ýmsu móti. Rætt hefur verið um að ríkið öðlist eignarrétt af orku fyrir neðan ákveðið dýpi. Það þarf ekki einu sinni að vera þannig, ríkið getur öðlast einkarétt til að virkja ákveðið afl, 3.000 kílóvött eða eitthvað svoleiðis. Ef ég man rétt þá er það þannig með vatnsvirkjun. Því eru margar leiðir til þessa sem alls ekki þurfa að íþyngja einstaklingunum í raun og sem munu halda gagnvart þessum samningi.
    Okkur er ljóst að ekki hafa fengist fullnægjandi möguleikar til þess að takmarka fólksflutninga en við höfum hins vegar ekki gert það að skilyrði. Við treystum því að 118. gr., ef ég man rétt, veiti okkur þann fyrirvara sem getur gert okkur kleift að stöðva of mikla fólksflutninga til landsins. Ef hér verður orðið 6% atvinnuleysi fljótlega eins og spáð er verða kannski fáir sem hingað sækja en ekki er ég þó að mæla með þeirri vörn.
    Við höfum líka nefnt það að tryggja þurfi að við höfum heimild til að leggja jöfnunargjald á innfluttar landbúnaðarafurðir. Hæstv. utanrrh. fór mörgum orðum um það og taldi að bændum hefði verið vel sinnt í þessum samningi og taldi reyndar að þar sannaðist að sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Ég er ekki sammála hæstv. utanrrh. Mér sýnist að í 5. gr. viðauka við bókun 3 séu mörg spurningarmerki því að í 2. tölul. þeirrar greinar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Að því er Ísland varðar skal það hámark verðjöfnunarfjárhæða sem lagðar eru á við innflutning og gert er ráð fyrir 9. gr. bókunarinnar ekki gilda um Ísland vegna vara . . .  `` --- og svo eru þær taldar upp. Síðan segir:
    ,,Upphæð aðflutningsgjalda sem lögð eru á við landamærin skal þó aldrei vera hærri en það sem Ísland leggur á innflutning frá nokkrum samningsaðila árið 1991.``
    Það vekur í fyrsta lagi vissa spurningu af hverju þarna er miðað við 1991 en við önnur ríki janúar 1992. En svo er sú staðreynd að þessar vörur hafa fæstar verið fluttar til landsins og engin gjöld voru því á þær lagðar. Og hvað þýðir það? Ég veit að utanrrn. hefur verið spurt en svörin hafa verið afar óljós. Jafnvel hafa svörin verið þau að það þýði ótakmarkað verðjöfnunargjald. Fróðlegt væri að heyra frá hæstv. viðskrh. hvort það getur staðist. Ég veit að leitað hefur verið eftir svari frá Brussel, en menn brosa þar bara út í annað og vilja ekkert svara slíkum kjánalegum spurningum. Þetta verðum við vitanlega að fá miklu nánar upplýst: Hvað má Ísland leggja á þessar innfluttu landbúnaðarafurðir?
    Síðan kemur það atriði sem ég segi ekki síst stórt í þessu sambandi, vitanlega eru þau öll stór, og það er sú ályktun okkar framsóknarmanna að strax beri að undirbúa breytingu á þessum samningi í tvíhliða samning þegar hin EFTA-ríkin hafa gengið í Evrópubandalagið. Mér hefur ekki tekist að fá svar frá hæstv. utanrrh. við þessari tillögu. Ég hef spurt að því hér í ræðustól hvort ekki mætti ganga til þess verks og fengið afar óljós svör. Að vísu fengum við miklu ljósari svör frá aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópubandalagsins, Andriessen, sem sagði ítarlega aðspurður í sjónvarpi að það ætti ekkert að vera þessu til fyrirstöðu, ef íslensk stjórnvöld leituðu eftir því, og skýrði vel í hverju það fælist. Hann taldi að að sjálfsögðu yrði að breyta greinunum um hinar sameiginlegu stofnanir og eftirlitið og dómstólana o.s.frv. og þetta liggur alveg í hlutarins eðli. Nú væri fróðlegt að vita hvort hæstv. utanrrh. hefur ekki hugleitt þetta mál og væri fróðlegt að vita hvort hann er ekki tilbúinn að beita sér fyrir því að formlega verði farið fram á þetta.
    Ég er sannfærður um að þetta mundi hjálpa æðimörgum Íslendingum til að fóta sig á þessum samningi þegar til framtíðar er litið og gæti jafnvel orðið til þess að auka eitthvað stuðning við hann.
    Efnislega er því mörgu ábótavant, mjög mörgu ábótavant við samninginn og ég skal ekki segja hvort tekst að bæta úr því með einhliða lagasetningu hér heima fyrir. Við bíðum eftir því að fá að sjá slíkt og bíðum eftir svörum við nokkrum spurningum. Hinu er svo ekki að neita að hin hlið málsins, það sem ég kalla tæknilega hlið málsins, er öllu verri. Ég hef áður sagt það hér að mér þykir ljóst, og ljósara með hverjum degi og þegar ég les samninginn oftar og álit lögfræðinganna, að ekki er hægt að gera þennan samning að óbreyttri stjórnarskrá. Það er ekki hægt. Því er vitanlega afar mikilvægt að fá að vita hvort ríkisstjórnin vill stuðla að því að þeim, sem geta fylgt samningnum efnislega að uppfylltum ýmsum skilyrðum, sé gert það kleift með því þá að breyta stjórnarskránni. Við höfum flutt hér á hinu háa Alþingi frv. til stjórnlagabreytinga þar sem heimild yrði veitt til slíks.
    Ég get því miður ekki óskað hæstv. utanrrh. til hamingju með þennan samning, hann hefur barist í þessu ötullega og baki brotnu í þrjú ár og ég vorkenni honum allt það streð. Mér finnst ekki hafa fengist úr þessum samningi það sem við gerðum okkur vonir um þegar af stað var farið. Mér finnst að við höfum orðið að undirgangast miklu, miklu meira en við gerðum okkur grein fyrir 1989 þegar farið var af stað í þessa svokölluðu tveggja stoða lausn á samkomulagi EFTA og EB. Þetta er ekki tveggja stoða lausn. Hún er það alls ekki. Þetta er ein stoð og ein hækja. Það er ekki hægt að kalla þetta meira og hækjan er því miður við.
    Nú er mér ljóst að við litlir Íslendingar eigum ekki alls kostar við stórveldin og getum ekki skrifað okkar samning þótt sumir hafi tekið að sér að gera það að vísu, við getum ekki gert það, en það er ágætt að gera drög og sjá hvernig á það reynir. Við hljótum að verða að undirgangast ýmislegt. Staðreyndin er hins vegar sú að einmitt vegna okkar smæðar er okkur afar mikilvægt að vanda allan þann gjörning sem við gerum og alla þá samninga sem við gerum við alþjóðlegar stofnanir og samtök. Og við skulum aldrei láta okkur detta í hug að þessar ágætu þjóðir sem við erum að semja við séu að gera okkur Íslendingum einhvern greiða. Mér finnst það stundum liggja í orðunum eins og verið sé að gera okkur greiða, að þeir vilji gjarnan hafa okkur með og hafi gaman af því. Menn segja jafnvel að það sé engin hætta að þeir seilist í þennan litla markað hér.
    Nýlega var mér sagt eftir einum forsvarsmanni stórs bresks fyrirtækis sem var spurður þeirrar spurningar hvort þeim dytti í hug að fara að opna markaði hér á Íslandi. Já, vitanlega, sagði hann. Íslendingurinn sem spurði, hváði og sagði: Hvað hafið þið að gera í þennan 260 þúsund manna markað? --- Þá sagði hann: Staðreyndin er vitanlega sú að þessir 260 þúsund Íslendingar versla jafnmikið og milljón Bretar. Það er líklega mikið til í þessu. Íslendingar versla afar mikið og ég yrði ekkert undrandi þótt það litla sem við höfum séð sé aðeins brot af því sem á eftir að koma. Menn munu seilast hingað til þess að ná

þessum markaði og menn verða einnig að gæta þess að menn munu ekki bara gera það til að ná markaðnum heldur til að ná hér meiri áhrifum.
    Við Íslendingar höfum kynnst því hvernig er að vera undir erlendu kaupmannsvaldi. Okkar feður og forfeður brutust undan því valdi. Þjóðin sameinaðist í því að brjótast undan því, gerði það með samtakamætti og var þá þó fátæk þjóð. Ég er hræddur um að okkur gengi verr að brjótast undan alþjóðlegu peninga- og kaupmannavaldi í dag. Því vil ég ljúka þessum orðum mínum með því að biðja hæstv. utanrrh., sem ég veit að er góður og gegn Íslendingur, að gæta sín mjög á því sem gert er og búa svo um hnútana að ekki þurfi að verða stórslys.