Evrópskt efnahagssvæði

7. fundur
Þriðjudaginn 25. ágúst 1992, kl. 13:34:05 (39)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (frh.) :
    Virðulegi forseti. Þegar ég gerði hlé á máli mínu í gær, þá var ég að tala um hinn flókna lagavef sem mun ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég ræddi m.a. um það hvernig íslensk stjórnvöld hygðust standa að lögtöku ýmissa gerða Efnahagsbandalagsins og sem að mínu mati er algerlega ófullnægjandi þar sem á að taka í lög með einni grein heilmiklar reglugerðir frá Efnahagsbandalaginu.
    Ég ræddi líka lítillega um réttaráhrif dóma EB-dómstólsins og mig langar til þess að fara örlítið

nánar út í þau mál hér. Menn hafa auglýst eftir þessum dómum og sagt að nauðsynlegt sé að þeir liggi fyrir í íslenskri þýðingu þar sem þeir munu hafa bein réttaráhrif hér á Íslandi ef Evrópska efnahagssvæðið verður að veruleika. Aðrir hafa haldið því fram að þessir dómar séu bara lögskýringargögn og þar af leiðandi dugi að hafa þau tiltæk á erlendum tungumálum. Ég vil hins vegar halda því fram að þessir dómar muni hafa bein réttaráhrif hér á landi, að einstaklingar muni geta sótt sinn rétt á grundvelli þeirra og ég ætla að rökstyðja það aðeins nánar.
    Í þessum umræðum, bæði í nefndum þingsins og hér á þingi, hefur mikið verið fjallað um hina svokölluðu bókun 35 og hún hefur m.a. komið fyrir í öllum þeim lögfræðilegu álitsgerðum sem við höfum séð. Í bókun 35 er stök grein sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.``
    Þetta orðalag er mjög óyggjandi, þ.e. þau skuldbinda sig til að setja lagaákvæði sem gefi EES-reglum forgang.
    Íslenska ríkisstjórnin hefur farið þá leið í frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið að lögtaka þetta í 3. gr. frv. með þessum hætti, með leyfi forseta:     ,,Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.``
    Þetta orðalag er alls ekki eins óyggjandi og bókun 35 og Guðmundur Alferðsson bendir einmitt á það í sinni álitsgerð að það sé varla stjórnarfarslega marktækt að gera þetta með þessum hætti. Ég er alveg sannfærð um það að ef af þessu verður einhver málarekstur, þá muni bókunin gilda gagnvart EFTA-dómstólnum. EFTA-dómstóllinn mun notast við bókunina þegar hann fjallar um þetta mál en ekki frumvarpsgreinina eins og hún hljómar hér á landi.
    Ég talaði um að EB-dómar hefðu bein réttaráhrif. Við skulum ímynda okkur að íslenskur einstaklingur telji á sér brotinn rétt og sæki sinn rétt byggðan á EES-reglum, þ.e. hann telji að íslensk stjórnvöld eða íslenskir aðilar fari ekki að eða hafi ekki lögtekið EES-reglur með einhverjum hætti eða fari ekki eftir þeim og hann sækir sinn rétt út frá þessum reglum og þessar reglur sem hann er að byggja sinn rétt á séu efnislega samhljóða reglum hjá Efnahagsbandalaginu, EB-reglum. Málið færi fyrir íslenskan dómstól og það er ákvæði um það og heimild til þess í samningnum að íslenskur dómstóll geti leitað eftir forúrskurði hjá EFTA-dómstólnum og það getur verið á báðum dómstigum. Það er auðvitað engin skylda að gera þetta en við skulum setja sem svo að dómstóllinn nýti sér þessa heimild til að leita eftir forúrskurði hjá EFTA-dómstólnum. Fái EFTA-dómstóllinn slíka beiðni um túlkun á efnisgrein EES-samningsins eða reglna sem af honum leiða og þessi efnisgrein sé samhljóða efnisgrein hjá Efnahagsbandalaginu, þá kannar EFTA-dómstóllinn náttúrlega dóma EB-dómstólsins, enda er 3. gr. samningsins um EFTA-dómstólinn á þá leið að honum beri að taka fullt tillit til dómsúrlausna EB-dómstólsins. Þar af leiðandi þegar hann fer að búa til sinn forúrskurð, þá leitar hann auðvitað til þess hvernig EB-dómstóllinn túlkar þessar tilteknu reglur. Forúrskurðurinn byggir því væntanlega á dómapraxís EB-dómstólsins. Hann getur varla gert annað.
    Þá geta menn auðvitað sagt að íslenskir dómstólar séu ekki bundnir af forúrskurði EFTA-dómstólsins og það er alveg rétt, þeir eru ekki bundnir, þeir eru ekki skyldugir til þess að fara eftir honum. En ef litið er á bókun 35 sem ég las hérna áðan, þá verður ekki séð hvernig þeir komast fram hjá því að fara eftir þessum forúrskurðum vegna þess að bókunin kveður skýrt á um það að EES-reglur eigi að gilda þar sem til árekstra komi.
    Að auki má benda á það að eitt af verkefnum hinnar sameiginlegu EES-nefndar á m.a. að vera að tryggja einsleitni í túlkun EB- og EES-reglna, þ.e. að þær séu ekki túlkaðar mismunandi, hjá Efnahagsbandalaginu og svo hjá EFTA-ríkjunum. Komi upp misræmi í túlkun t.d. dómstólanna, EB-dómstólsins og EFTA-dómstólsins, þá á sameiginlega EES-nefndin að hafa áhrif á þennan dómapraxís. Hún á að reyna að sjá til þess að ekki sé þarna mismunur á túlkun. Það sem hlýtur að leiða af þessu er að hún hafi áhrif á EFTA-dómstólinn, ekki EB-dómstólinn vegna þess að EB hefur gert skýra bókun um það í þessum samningi að niðurstaða sameiginlegu EES-nefndarinnar megi ekki hafa áhrif á fordæmisrétt EB-dómstólsins og þá stendur bara eftir EFTA-dómstóllinn. Og talandi um fordæmisrétt EB-dómstólsins, þá verðum við líka að hafa í huga að ef þetta á að notast hér á landi til að túlka lög og reglur sem leiða af samningnum, þá er EB-dómstóllinn það sem kallað er ,,prógressívur`` dómstóll, þ.e. hann dæmir út frá markmiðum Efnahagsbandalagsins og markmið Efnahagsbandalagsins er aukinn samruni.
    En af hverju er ég nú að rekja þetta hér? Ástæðan er sú að þegar þetta er allt lesið saman, greinar 105 og 111 í samningnum, bókanir Efnahagsbandalagsins vegna þessara greina, bókun 35, bókun um forúrskurði EFTA-dómstólsins, grein 3 í samningnum um EFTA-dómstólinn og 3. gr. frv., þegar þetta allt er lesið saman, þá er niðurstaðan sú að hér er á ferðinni mjög flókinn vefur sem hylur þá staðreynd að það er EB-dómstóllinn sem ræður för. Það eru hans dómar sem blífa. Og þeir hafa þar af leiðandi bein réttaráhrif.
    Það má hugsanlega færa fyrir því ákveðin rök að formsatriðum sé fullnægt, þ.e. að dómsvald sé formlega ekki flutt úr landi vegna þess að öllum formsatriðum sé til haga haldið eins og að íslenskir dómstólar séu ekki bundir af forúrskurðum o.s.frv. En efnislega er ákveðið dómsvald flutt úr landi og sömu sögu er að segja um löggjafarvaldið. Efnislega er löggjafarvald flutt úr landi á málasviði samningsins. Það

má segja að formlega séð þurfi Alþingi að samþykkja eða synja. En það er EB eitt sem getur haft frumkvæði að nýjum lögum sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu og við getum einungis samþykkt eða synjað.
    Ég vitnaði hér í gær í álit fjórmenninganna og ég ætla að gera það aftur vegna þess að það er orðið athyglisvert í dag í ljósi greinar sem birtist í Morgunblaðinu nú í dag eftir Lúðvík Ingvarsson, fyrrv. prófessor við Háskóla Íslands. Þetta tiltekna atriði sem ég vitnaði í í álitsgerð fjórmenninganna hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við teljum að vísu að færa megi nokkur rök gegn einstökum þáttum í því sem hér að framan er rakið,`` þ.e. í þeirra niðurstöðu, í þeirra álitsgerð, ,,en við teljum þó að niðurstöður okkar orki ekki tvímælis í þeim mæli að tilefni sé til að draga þá ályktun að samningarnir í heild leiði til þess að breyta þurfi stjórnarskránni ef þeir taka gildi.`` Og svo halda þeir áfram og segja: ,,Þá er hugsanlegt að reynslan leiði í ljós að það reynist ekki rétt sem við byggjum á um framkvæmdarvaldið og dómsvaldið.`` Og síðan segja þeir hvað það er, á hverju þeir byggja. Og áfram halda þeir: ,,Einnig er hugsanlegt að í samkeppnismálum komi til meiri afskipta en hér er reiknað með. Við teljum ólíklegt að forsendur okkar að þessu leyti reynist rangar.`` --- Þeir telja ólíklegt að þær reynist rangar, en þeir telja það ekki óyggjandi. --- ,,Við teljum jafnframt að engin nauðsyn sé til þess að ráðast nú í breytingar á stjórnarskránni vegna þessa möguleika. Ef fram kemur síðar að slíkra breytinga sé þörf, er Ísland að þjóðarétti skuldbundið til að gera þær.``
    Þessi tilvitnuðu orð fjórmenninganna verða mjög athyglisverð, eins og ég sagði, í ljósi þessarar greinar eftir Lúðvík Ingvarsson sem birtist í Morgunblaðinu í dag og það er kannski ástæða til þess að geta þess einmitt í sambandi við grein Lúðvíks að hann vitnar í Bjarna Benediktsson, fyrrum formann Sjálfstfl., en þegar Bjarni Benediktsson talaði hér á Alþingi sem formaður Sjálfstfl. og sem ráðherra, forsrh., dómsmrh., þá var það ekki aðeins sem stjórnlagaprófessor heldur sem stjórnmálamaður. Hann var ekki að gefa fræðilegt álit þegar hann stóð í þessum ræðustól og fjallaði um mál heldur að tala sem stjórnmálamaður og það kemur einmitt skýrt fram í grein Lúðvíks og hann rekur það svolítið.
    Það var dálítið athyglisvert að Lúðvík skyldi einmitt gera Bjarna Benediktsson að umtalsefni í þessari grein vegna þess að honum hefur kannski hvað mest verið hampað hér af utanrrh. í þessari umræðu allri um stjórnarskrármálið, um þjóðaratkvæðagreiðslu og annað slíkt. Hér er ítrekað vitnað til hans eins og einhvers leiðtoga Alþfl. í þessum málum og satt að segja hljómaði það dálítið sérkennilega.
    En ég ætla að lesa hérna nokkur atriði úr grein Lúðvíks. Hann fjallar um mannréttindasáttmálann sem menn hafa ekki verið á eitt sáttir um hvort stæðist stjórnarskrá eða ekki. Og hann vitnar hér m.a. í Bjarna Benediktsson sem var dómsmrh. þegar samningurinn var samþykktur hér á Alþingi, reyndar bara með þingsályktun, og talaði Bjarni Benediktsson fyrir málinu. Lúðvík segir að með samningsgerðinni, þ.e. þegar Íslendingar gerðust aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu, hafi verið á tvennan hátt brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hann segir:
    ,,Í sáttmálanum er erlendum dómstóli veitt æðsta dómsvald um íslensk málefni á tilteknu sviði, þar sem Hæstiréttur Íslands var áður æðsta dómstig.``
    Síðan vitnar hann til þess að Alþingi hafi samþykkt gildistöku mannréttindasáttmálans með þingsályktun en í 59. gr. stjórnarskrárinnar segir:
    ,,Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum.``
    Það hefur sem sagt ekki staðist að samþykkja samninginn með einfaldri þingsályktun og þá hafi það heldur ekki staðist að samþykkja það dómsvald sem Mannréttindasáttmálinn felur í sér að óbreyttri stjórnarskrá. Síðan segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Frá upphafi bar Mannréttindasáttmáli Evrópu það með sér,`` --- hann segir frá upphafi --- ,,að í honum fólst afsal ríkisvalds, þ.e. dómsvalds á því réttarsviði sem hann fjallar um. Má t.d. um þetta benda á 49., 52. og 53. gr. sáttmálans. Hann geymir reyndar líka ákvæði sem fela í sér að erlent stjórnvald er að nokkru leyti sett yfir íslenska handhafa löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, sbr. 32. gr.`` Og svo segir hann:
    ,,Í hæstaréttardóminum, sem vitnað er til fyrr í þessari grein, segja dómendur að af ræðu dómsmálaráðherrans [þ.e. Bjarna Benediktssonar] verði ráðið að ríkisstjórnin hafi talið að Mannréttindasáttmáli Evrópuráðsins hafi verið í samræmi við íslensk lög þegar hann var gerður, en eftir það hafi mörg ákvæði hans verið nánar skýrð við meðferð kærumála.`` --- Sem sagt sama og gæti gerst með þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði. Ýmis ákvæði yrðu nánar skýrð og þá yrði það lýðum ljóst að þarna væri um brot á stjórnarskrá að ræða. En hann heldur því hins vegar fram að þetta hafi í rauninni blasað við í upphafi rétt eins og gerist með samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Og svo segir hann:
    ,,Dómsmálaráðherrann hefir ekki veitt því athygli að ákvæði sáttmálans gátu rekist á lögboðna meðferð opinberra mála í héraði . . .  `` Og áfram heldur hann:
    ,,Mörgum mun finnast að aðild að Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins hafi hingað til aðeins leitt gott af sér fyrir Íslendinga þrátt fyrir það að aðildin hafi aldrei verið samþykkt á Alþingi með löglegum hætti. Af þessu mega þeir, sem þykir aðildin góð, ekki draga þá ályktun að allir milliríkjasamningar, sem samþykktir verða með ólöglegum hætti á Alþingi, muni aðeins leiða til góðs.`` Og hann segir:
    ,,Mistökin, sem urðu við samþykkt aðildarinnar að sáttmálanum, eiga að vera öllum en þó einkum handhöfum löggjafarvaldsins, alþingismönnum og forseta Íslands, alvarleg áminning um að viðhafa alla

gát þegar gerðir eru milliríkjasamningar sem e.t.v. stríða gegn stjórnarskránni.``
    Þetta eru sem sagt orð Lúðvíks Ingvarssonar og hann boðar í lok þessarar greinar aðra grein þar sem hann segist ætla að ræða um eiðfestan trúnað handhafa löggjafarvalds við stjórnarskrána og það verður fróðlegt að sjá að hvaða niðurstöðu hann kemst í því máli.
    Ég hef fjallað um þennan flókna lagavef sem er á Evrópska efnahagssvæðinu og ég hef haldið því fram að hann dragi úr réttaröryggi eins og hann blasir við. Við vitum að íslenskir lögfræðingar kvarta mjög undan því og ég man eftir því að síðast sá ég það held ég í einhverri grein eftir Davíð Þór Björgvinsson, sem reyndar er einn af þeim sem hefur gefið álit á stjórnarskrárþætti málsins, að hann kvartaði undan því hvað íslenskur almenningur þekki illa rétt sinn. Ef svo er, ef íslenskur almenningur þekkir illa rétt sinn, þá hlýtur maður að spyrja hvernig það verði þegar Evrópska efnahagssvæðið verður að veruleika. Hversu vel mun fólk þá þekkja sinn rétt? Ég er hrædd um að það muni þekkja hann ansi illa.
    Ég hef í ræðu minni nær eingöngu dvalið við meginlínur samningsins en ekki farið út í einstaka þætti hans fyrir utan stofnanaþáttinn. Þegar samningurinn er lesinn vakna hins vegar auðvitað ótal spurningar sem enn hafa engin svör fengist við jafnvel þó maður hafi haft tækifæri til að bera spurningarnar upp. Því svo virðist nefnilega sem flest það sem vitað er um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði hafi verið sett á prent og þess vegna fást fá skýr svör við öllum þeim spurningum sem vakna þegar hinn prentaði texti er lesinn. Þar er öll vitneskjan saman komin. Ég skal nefna nokkur dæmi um spurningar sem varpað hefur verið fram en ekki fengist viðhlítandi svör við.
    Í fyrsta lagi hefur sú spurning verið borin upp, bæði í utanrmn. og að því er ég held í efh.- og viðskn., hvort Íslendingum sé heimilt samkvæmt samningnum að viðhalda núverandi skipulagi í sölu- og markaðsmálum í sjávarútvegi. Hvort það standist samninginn að enginn geti selt eða flutt úr landi saltsíld nema hljóta til þess löggildingu síldarútvegsnefndar. Hvort Sölusamtök íslenskra fiskframleiðenda, þ.e. SÍF standist ákvæði þessa samnings. Svörin hafa vísað til beggja átta. Þau hafa bæði verið já og nei.
    Ástæðan fyrir því að um þetta er spurt er 4. gr. í bókun 9, en það er sjávarútvegsbókunin og sameiginleg yfirlýsing samningsaðila um túlkun þessarar sjávarútvegsbókunar. 2. tölul. í þessari 4. gr. sjávarútvegsbókunarinnar hljóðar svo:
    ,,Löggjöf varðandi markaðsskipulag sjávarútvegs skal breytt þannig að hún raski ekki samkeppni.``
    Þetta er í rauninni nokkuð opið en síðan er til sameiginleg yfirlýsing um samþykkta túlkun á 1. og 2. mgr. 4. gr. bókunar 9 um viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir. Og þetta er kannski dálítið dæmigert fyrir hvernig maður þarf að lesa sig í gegnum þennan samning. Þetta er eins og ,,babúska``, það er alltaf eitt inni í öðru og erfitt að komast að kjarnanum. Þar er sem sagt til ákveðin túlkun og hún er svona:
    ,,Enda þótt EFTA-ríkin taki ekki upp réttarreglur bandalagsins varðandi sjávarútvegsstefnuna er litið svo á, þar sem vísað er til löggjafar um markaðsskipulag, að röskun á samkeppni sem rekja má til slíkrar löggjafar verði metin í tengslum við meginreglur í réttarreglum bandalagsins varðandi sameiginlegt markaðsskipulag.``
    Ég verð að játa það að ég þarf eiginlega að fá lesleiðbeiningar við þennan texta því hann er ekki gegnsær og ekki auðvelt að skilja nákvæmlega hvað þarna er átt við. En sú spurning hlýtur að vakna, og ég óska eftir því að fá skýr svör um það frá utanrrh. --- og ég veit að það er ekki bara á mínum vörum --- hvort heimilt sé að viðhalda þessu skipulagi eða ekki. Það hlýtur bara að vera annaðhvort já eða nei.
    Í öðru lagi hafa menn ekki verið á eitt sáttir um það hvernig túlka beri 9. gr. bókunar 3 um landbúnaðarvörur. Bókun 3 er um landbúnaðarvörur. Bændasamtökin óttast að vegna orðanna hljóðan í bókuninni og viðbætis við hana verði ekki heimilt að leggja breytileg jöfnunargjöld á innfluttar mjólkurvörur, fyrst og fremst jógúrt. Ástæðan fyrir þessum ótta bændastéttarinnar er sú að það er tekið fram í undanþáguákvæði varðandi Ísland að upphæð aðflutningsgjalda sem lögð eru á við landamæri skuli aldrei vera hærri en það sem Ísland leggur á innflutning frá nokkrum samningsaðila árið 1991. Og málið er það að innflutningur á mjólkurvörum hefur hingað til verið bannaður og þar af leiðandi hafa Íslendingar eins og gefur að skilja ekki lagt nein aðflutningsgjöld á þessar vörur. Og hvernig á þá að fara að ef miða á við aðflutningsgjöldin eins og þau voru 1991?
    Því hefur verið haldið fram af utanrrh. og aðalsamningamanni Íslendinga, Hannesi Hafstein, að hefð sé fyrir því í alþjóðlegum samningum að túlka innflutningsbann eins og toll eða aðflutningsgjöld ,,ad infinitum``, eins og þeir hafa sagt, þ.e. að bannið sé ótakmarkaður tollur, ótakmörkuð innflutningsgjöld. Ef svo er, og þetta er nú allt saman í sómanum, þá hlýtur sú spurning að vakna hvernig á því standi að Finnar og Norðmenn hafa farið fram á sérstakar undanþágur vegna innflutningsbanns sem verið hefur á tilteknum vörutegundum og þar af leiðandi tollfrelsi, eins og segir orðrétt á bls. 89 í greinargerð með þessu frumvarpi. Þeir hafa beðið um undanþágur vegna innflutningsbanns sem verið hefur á tilteknum vörutegundum og þar af leiðandi tollfrelsi. Hvernig er hægt í einum og sama samningnum að túlka ýmist innflutningsbann sem toll ,,ad infinitum`` eða sem tollfrelsi? Hvernig er það hægt í einum og sama samningnum? Hvor skilningurinn er réttur? Hvort er þetta tollfrelsi eða tollur ,,ad infinitum``?
    Í þriðja lagi hafa margir haft áhyggjur af jarðakaupum erlendra aðila hér á landi. Og það hefur komið upp í umræðunni hér á undanförnum dögum. Þær áhyggjur sitja mjög djúpt í þjóðarsálinni sem eðlilegt er enda hefur land alltaf verið talið ein af mikilvægustu auðlindum jarðar og eignarhald á landi er rótgróið tákn um sjálfstæði einstaklinga og sjálfstæði þjóða. Ég held því að sá ótti sitji mjög djúpt í þjóðarsálinni hvað sem mönnum finnst um hann að öðru leyti.
    Því hefur ævinlega verið haldið fram af íslenskum ráðamönnum að ekkert vandamál sé að setja girðingar í jarða- og ábúðarlög sem í raun mismuni útlendingum þó að það sé bannað samkvæmt samningnum. Það er markmiðið auðvitað með þessum girðingum, sem verið er að tala um, að mismuna útlendingum þó það sé í rauninni bannað. Það sé hægt að fara einhverjar fjallabaksleiðir í því máli og utanrrh. hefur nefnt nokkrar slíkar í sinni framsögu. Mér virðist hins vegar af lestri álitsgerðar sem samin var að beiðni dóms- og kirkjumrh. og landbrh. um fasteignamálin að það sé ekki svo einfalt mál að setja slíkar reglur. Mér sýnist að það verði tæplega gert nema með því að skerða um leið verulega rétt Íslendinga sjálfra í eigin landi.
    Það er hægt að setja í lög ákvæði þess efnis að rétt til að kaupa sumarbústað eða jarðnæði til frístundaiðkunar skuli þeir einir hafa sem búsettir hafa verið tiltekinn tíma á Íslandi. Það er í sjálfu sér ekki vandamálið. Slíkt er hægt að setja í lög. En vandamálið er hinn svokallaði staðfesturéttur, þ.e. rétturinn til að stofna og starfrækja fyrirtæki hér á landi og kaupa fasteignir til rekstursins. Þessi réttur á að vera tryggður á hinu Evrópska efnahagssvæði. Hann hafa allir íbúar og lögaðilar innan Evrópska efnahagssvæðisins hvar sem er á svæðinu. Þannig getur hvaða fyrirtæki og einstaklingur sem er af þessu svæði keypt íslenskt jarðnæði sem ekki er lengur nýtt til landbúnaðar og sett þar upp ferðamannaþjónustu af einhverju tagi í krafti staðfesturéttarins. Við það eignast þessi aðili öll náttúruleg hlunnindi sem jörðinni fylgja og réttinn til að nýta þau, hvaða hlunnindi sem það nú eru.
    Á það hefur verið bent að setja megi í lög skýrari ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga og jafnvel ríkisins á öllu jarðnæði þess vegna. En hætt er við að það stæðist ekki dóm EFTA-dómstólsins ef þessum forkaupsréttarákvæðum væri beitt til þess eins að koma í veg fyrir eignaraðild erlendra ríkisborgara, enda væri það mismunun. Og þetta kemur fram í álitsgerð þremenninganna, sem tóku saman álitsgerð um fasteignir fyrir dómsmrh. og landbrh., að það mætti ekki beita því eingöngu til að koma í veg fyrir eignaraðild útlendinga því það væri hrein og klár mismunun samkvæmt samningnum.
    Það er hægt að hafa ýmsar skoðanir á þeim álitamálum sem ég hef nefnt hér varðandi einkarétt til fiskútflutnings og menn geta haft þá skoðun að það sé bara ágætt að brjóta niður þann einkarétt, hann eigi engan rétt á sér lengur. Menn geta líka verið þeirrar skoðunar að það sé ágætt að koma í veg fyrir verðjöfnunargjöld á jógúrt og opna íslenskan fasteignamarkað fyrir útlendingum, allt sé þetta hið besta mál. Menn geta haft þá skoðun. En þá eiga þeir líka að segja það fullum fetum og stíga meðvituð skref í þær áttir en þröngva ekki slíkum breytingum upp á þjóðina eftir einhverjum bakdyraleiðum, eftir þessum samningi og síðan stöndum við andspænis einhverju sem er gerður hlutur.
    Varðandi sjávarútvegssamninginn þá hefur verið á það bent hér að hann er ófrágenginn enn þá. Niðurstaða hans skiptir auðvitað verulegu máli fyrir sjálfan samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Enda er það yfirlýst af hálfu EB að tvíhliða samningar um fiskveiðar --- ég vitna beint í samninginn: ,,séu hluti af heildarniðurstöðu samningaviðræðnanna og grundvallarþáttur í samþykki þess á EES-samningnum.`` Það er grundvallarþáttur í samþykki Efnahagsbandalagsins á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Þannig ætti sjávarútvegssamningurinn líka að horfa við íslenskum þingmönnum. Enda er það eins og að skrifa undir óútfylltan víxil að samþykkja hér á Alþingi frv. um hið Evrópska efnahagssvæði án þess að sjávarútvegssamningurinn sé frágenginn. Nú veit ég ekki hvort það verður utanrrh. eða sjútvrh. sem mun bera slíkan samning hér upp, það yrði líklega utanrrh., en hvernig hyggjast þeir ganga frá því máli hér á þingi? Hyggjast þeir bera hann sérstaklega upp sem þjóðréttarsamning eða hvernig yrði farið með það mál? Eða mundu þeir bara einfaldlega ganga frá sjávarútvegssamningnum að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði samþykktum og gera það bara innan vébanda ríkisstjórnarinnar? Við þessu hafa ekki fengist viðhlítandi svör enn þá.
    Virðulegur forseti. Undir lok ræðu sinnar sl. fimmtudag vék hæstv. utanrrh. aðeins að hugmyndinni um að bera aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu undir dóm kjósenda. Innan tíðar mun væntanlega gefast tækifæri til að ræða það mál ítarlega hér á þingi þar sem komin er fram þáltill. um þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. Ég get hins vegar ekki á mér setið að svara hér lítillega léttvægum rökum utanrrh. gegn því að þjóðin fái að segja sitt álit. Meginrök hans voru þau, svo vitnað sé beint, ,,að slíkt valdaafsal þingsins væri hvorki sjálfsagt né eðlilegt`` og að hann vildi ekki ,,stuðla að því að umbylta því stjórnarfyrirkomulagi sem var ákveðið í stjórnarskrá árið 1944 og hefur ríkt góð sátt um allan lýðveldistímann`` eins og hann sagði. Að auki taldi hann landsmenn ekki í stakk búna til að taka afstöðu til samningsins. ( Gripið fram í: Hannibal var ekki hrifinn af þessu.) Nei, hann vitnaði heldur aldrei til gamalla krata í ræðu sinni.
    En skelfing finnst mér þetta nú vera hallærisleg rök frá jafnaðarmanninum Jóni Baldvini. (Gripið fram í.) Mér finnst þetta hallærisleg rök frá jafnaðarmanninum Jóni Baldvini, manninum sem stærir sig gjarnan af því í tímaritsviðtölum að vera ekki bundinn af hefðum eða viðjum vanans. Nú er hann svo bundinn af viðjum vanans að hann vill alls ekki stuðla að því að umbylta stjórnarfyrirkomulaginu sem var komið á árið 1944. Eigi hann í brösum með hefðirnar má benda honum á að í raun er hið pólitíska vald hjá þjóðinni. Hið pólitíska vald er hjá þjóðinni. Hún hefur aftur framselt það til fulltrúa sinna, m.a. á þingi. Og þegar þessir fulltrúar leita svo eftir áliti þjóðarinnar með ráðgefandi atkvæðagreiðslu eru þeir að styrkja umboð sitt en ekki afsala sér því. Þeir eru að stunda samráð og ákvörðunin er eftir sem áður þeirra. Honum til huggunar má líka segja það að með þessu er ekki verið að bylta neinu stjórnarfyrirkomulagi frá 1944, því við ætlum ekki að afnema lýðveldið. Það stendur ekki til. Íslenskt stjórnarfyrirkomulag var í rauninni ákveðið með fullveldinu 1918 og stjórnarskránni 1920 en ekki 1944. Og ef með er talin þjóðaratkvæðagreiðslan um afstöðuna til dansk-íslensku sambandslaganna árið 1918 hefur fjórum sinnum farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla hér á landi síðan þessu stjórnarfyrirkomulagi var komið á. Fjórum sinnum.
    Það er oft löng leið frá kjósanda til fulltrúa hans á þingi. Í almennum kosningum er kosið um fjölmörg mál í einu og þær segja í raun harla lítið um afstöðu kjósenda í einstöku tilteknu máli. Og ég held að það eigi við um þingmenn allra flokka að þeir viti harla lítið um afstöðu umbjóðenda sinna til samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er líka alls ekki gefið að sú afstaða fari eftir flokkspólitískum línum. Hún gæti alveg farið eftir einhverjum byggðapólitískum línum eins og flokkspólitískum. Það er ekkert gefið í þeim efnum.
    Utanrrh. gerði orð Jóns Sigurðssonar forseta, í Nýjum félagsritum, að sínum lokaorðum hér á fimmtudaginn. Og það var út af fyrir sig vel til fundið. Mér finnst að hann ætti að festa þessi orð sér vel í minni og brýna það sérstaklega fyrir samráðherra sínum og nafna forsetans, sem virðist sjá samninginn í hillingum, a.m.k. ef marka má málflutning hans á ýmsum fundum, að hafa hugföst þau orð forsetans, Jóns forseta, að engum sé ,,að vænta að steiktar krásir fljúgi í munn honum sofanda þótt verslunin verði látin laus. Atorku, sparsemi og kunnáttu þarf alls staðar og á öllum tímum``.
    Örlög þessarar þjóðar þau ráðast nefnilega innan lands og það eru engar ,,patentlausnir`` til á vandamálum okkar. Við getum sem hægast klúðrað okkar málum öllum hvort heldur sem er innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins eða Efnahagsbandalagsins. Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eða Efnahagsbandalaginu er ekki upphaf alls, ekki rök í öllum málum og leysir ekki allt.