Evrópskt efnahagssvæði

7. fundur
Þriðjudaginn 25. ágúst 1992, kl. 15:31:12 (41)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég þakka hæstv. utanrrh. hina yfirgripsmiklu framsöguræðu er hann flutti fyrir máli þessu sl. fimmtudag. Þar var kjarna EES-samningsins, sögu hans og áhrifum og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, lýst með prýðilegum hætti. Ég er sammála niðurstöðu ráðherrans um það hvernig samningsgerðin stóð við stjórnarskiptin 30. apríl 1991. Einnig tek ég undir afstöðu hans til hinna ólíku, lögfræðilegu viðhorfa sem komið hafa fram um það hvort samningurinn brjóti í bága við íslensku stjórnarskrána eða ekki.
    Hér er til umræðu frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið. Verði frv. samþykkt veitir Alþingi ríkisstjórninni heimild til að fullgilda samninginn um EES, sem er milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins, og einnig samninga milli EFTA-ríkjanna innbyrðis um að koma á fót eftirlitsstofnun EFTA og dómstóli EFTA og jafnframt fastanefnd EFTA-ríkjanna.
    Að mínu mati eru fjórar meginástæður fyrir því að Alþingi samþykki lagafrv. með það fyrir augum að EES-samningurinn geti tekið gildi 1. jan. 1993. Í fyrsta lagi er samþykkt samningsins í samræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnir Íslands hafa með þingmeirihluta að baki sér fylgt allt frá því um miðjan níunda áratuginn þegar umræður um nánara samstarf EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins hófust. Þá þegar voru teknar ákvarðanir um að efla þetta samstarf og í ársbyrjun 1989 setti Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar EB, fram tillögur um hvernig að því skyldi staðið. Var tekið jákvætt í þær af leiðtogum EFTA-ríkjanna á sögulegum fundi í Ósló í mars 1989 og það var upphaf þess starfs sem leiddi síðan til þess að ritað var undir EES-samninginn í Óportó í Portúgal 2. maí sl.
    Í öðru lagi næst með samningnum mikilvæg viðurkenning samningsaðilanna á sérstöðu Íslands, ekki síst að því er varðar sjávarútvegsmál. Með samningnum hefur þannig verið unnið að gæslu íslenskra sérhagsmuna. Ég er þeirrar skoðunar að samleið með EFTA-ríkjunum hafi verið nauðsynleg til að þessi niðurstaða fengist. Það yrði því fráleitt að rjúfa samstöðu með EFTA-ríkjunum nú og stofna að nýju til óvissu í samskiptum okkar við Evrópubandalagið með tilmælum um tvíhliða viðræður. Slík ákvörðun nú væri ekki aðeins tímaskekkja heldur stofnaði íslenskum hagsmunum í hættu.
    Í þriðja lagi er ekki gengið inn á valdsvið íslenskra stjórnvalda með samningnum á þann veg að það brjóti í bága við stjórnarskrána. Hér er stofnað til samnings um milliríkjaviðskipti og sett ákvæði um hvernig tekið skuli á álitaefnum er rísa af því að samningurinn er gerður. Nýtt réttarsvið verður til og jafnframt stofnanir til að gæta öryggis á því. Þetta öryggisatriði er einkum mikilvægt fyrir hinar smærri þjóðir sem eiga aðild að samstarfinu. Það eru vísvitandi rangfærslur eða ótrúlegt þekkingarleysi að halda því fram að í þessum samningi felist eitthvert allsherjarafsal á íslensku sjálfstæði eða verið sé að færa Íslandssöguna aftur til þess tíma þegar landið var hluti af Danmörku. Alþingi og önnur íslensk stjórnvöld hafa fjölmörg úrræði til að tryggja sérstöðu Íslands þar sem þess er talin sérstök þörf í samstarfinu svo sem varðandi eignarhald á náttúruperlum landsins.
    Í fjórða lagi er samningurinn æskilegur grunnur að sambandi okkar við aðildarríki Evrópubandalagsins og EFTA sem við hljótum að rækta áfram í sama anda og til þessa. Á miklum óvissu- og breytingatímum í alþjóðastjórnmálum og ekki síst í Evrópu er nauðsynlegt fyrir okkur eins og aðrar þjóðir að nota þau tækifæri sem gefast til að efla eigin hag með nánari samvinnu. Það gerum við með þessum samningi. Hann veitir okkur í senn þann kost að láta staðar numið eða halda áfram til nánara samstarfs.
    Ræður fulltrúa stjórnarandstöðunnar um þetta mál hér í gær og í dag gefa ekki miklar vonir um að víðtæk samstaða takist hér á Alþingi um afgreiðslu þess. Kvennalistinn hefur allt frá upphafi verið andvígur þátttöku Íslands í evrópsku samstarfi eins og það er mótað með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Þess vegna þarf afstaða fulltrúa þess flokks ekki að koma á óvart. Hitt hlýtur að vekja athygli og undrun að formenn Alþb. og Framsfl. flytja nú ræður um þetta mál sem skilja mætti á þann veg að þeir hefðu aldrei lagt því í einlægni lið sitt eða brotið það til mergjar. Ég segi að það hljóti að vekja undrun þar sem þessir tveir menn voru forsrh. og fjmrh. í þeirri ríkisstjórn sem lagði grunninn að samningsgerðinni og mótaði meginstefnuna í henni allt þar til í apríl á síðasta ári þegar segja má að aðeins frágangsatriði varðandi samninginn um Evrópska efnahagssvæðið væru eftir. Segir mér svo hugur að þegar fram líða stundir verði kollsteypa þessara tveggja flokksformanna í þessu mikilvæga máli talin til marks um ótrúlegan tvískinnung og pólitíska hentistefnu. Mun ég hér á eftir víkja frekar að málflutningi þeirra.

    Þótt flokkspólitískur ágreiningur sé um málið á hann ekki að tefja fyrir framgangi þess á Alþingi. Það er síður en svo nýlunda að ágreiningur sé um afdrifarík utanríkismál hér í þingsölunum. Margt í þeim ágreiningi sem nú er uppi minnir á fyrri væringar um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Hrakspár andstæðinga samninga Íslands við önnur ríki hafa sem betur fer ekki ræst til þessa og er ástæðulaust að ætla að þær rætist frekar í þessu tilviki en öðrum.
    Forustumenn stjórnmálaflokkanna fimm hafa gert með sér samkomulag um það hvernig að þinglegri afgreiðslu málsins skuli staðið og hafa þingnefndir starfað í samræmi við það. Hljóta þeir sem að samkomulaginu stóðu að leggja metnað sinn í að við það verði staðið og hefur ekkert það gerst sem hindrar að svo megi verða.
    Samkvæmt frv. sem hér liggur fyrir er ætlunin að lögfesta meginmál EES-samningsins. Hann fær þar með lagagildi hér á landi þannig að tryggt sé að íslenskir ríkisborgar geti byggt rétt sinn á honum. Jafnframt er lagt til að bókun 1 verði lögfest en hún fjallar um almenna aðlögun að þeirri löggjöf sem gilda skal innan EES-svæðisins. Loks er lagt til að þær mikilvægu undanþágur sem Íslandi eru veittar í tveimur viðaukum með samningnum um fiskveiðar og fiskvinnslu verði einnig lögfestar.
    Þessum aðalsamningi um Evrópska efnahagssvæðið fylgja síðan 22 viðaukar og 49 bókanir. Vísað er til um 1.400 reglugerða og tilskipana Evrópubandalagsins í viðaukunum og hafa þessir bálkar verið lagaðir að Evrópska efnahagssvæðinu. Þessa viðauka og bókanir á ekki að leiða í lög hér með sama hætti og aðalsamninginn. Hins vegar verður efni viðaukanna tekið upp í um 60 fylgifrumvörpum með samningnum sem hin einstöku ráðuneyti leggja fyrir Alþingi um margvíslega málaflokka sem undir þau heyra. Við upphaf þessa þings höfðu samtals 27 fylgifrumvörp verið send til meðferðar í þingnefndum en 28 voru væntanleg. Sú staðreynd að ætlunin sé að taka mið af 1.400 reglugerðum og tilskipunum Evrópubandalagsins lá fyrir þegar á árinu 1989 þegar samningaviðræðurnar hófust. Þær hófust á þeim grunni að lagður skyldi til grundvallar lagabálkur Evrópubandalagsins og það er hann sem menn vísa til þegar rætt er um þessar 1.400 reglugerðir og tilskipanir. Allt frá upphafi þess að lagt var af stað í þessa ferð lá það fyrir að á þessum grunni yrði byggt og á þeim grunni stöndum við enn þegar unnið er að því að laga íslenska löggjöf að samningnum og því sem honum fylgir. Fyrir utan þetta löggjafarstarf vegna EES-samningsins þarf atbeina Alþingis vegna fullgildingar á ýmsum samningum er tengjast EES-samningnum eða samningaviðræðunum með einum eða öðrum hætti. Má þar nefna samninga milli EFTA-ríkjanna sérstaklega, um stofnun eftirlitsnefndar og dómstóls og um fastanefnd EFTA en heimild um þessa fullgildingu er að finna í frv. sem hér er til umræðu.
    Í tengslum við EES-samninginn hefur verið unnið að lausn á óútkljáðu deilumáli milli Evrópubandalagsins og Íslands varðandi samstarf í sjávarútvegsmálum. Hófust umræður um það skömmu eftir að samningar tókust um lausn fiskveiðideilunnar vegna 200 mílnanna. Hefur þeim verið haldið áfram í mislöngum lotum í um 15 ár eða svo. Á árinu 1981 lágu fyrir drög að sjávarútvegssamningi milli aðilanna en þá eins og endranær strandaði á kröfu Evrópubandalagsins um aðgang að íslenskri fiskveiðilögsögu fyrir tollaívilnanir fyrir íslenskan fisk á EB-mörkuðum.
    Í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar á árunum 1988--1991 fóru fram viðræður við EB um gagnkvæm fiskveiðiréttindi svo sem frægt varð í hörðum orðasennum sjútvrh. og utanrrh. þeirrar ríkisstjórnar fyrir síðustu þingkosningar. Voru þessar viðræður liður í tilraunum til að ná samkomulagi um sjávarútvegssamning milli Íslands og Evrópubandalagsins og héldu þær áfram eftir stjórnarskiptin samhliða því sem unnið var að því að ljúka EES-samningnum. Helstu efnisþættir um hin gagnkvæmu fiskveiðiréttindi eru nú kunnir og hafa verið ræddir oftar en einu sinni í utanrmn. Alþingis. Samningaviðræðunum sjálfum er hins vegar ekki lokið, sem kunnugt er, en frá þessum samningi verður ekki gengið án atbeina Alþingis.
    Við 1. umr. um það frv. sem hér liggur fyrir tel ég ekki ástæðu til að rekja einstök atriði í EES-samningnum. Hins vegar vil ég víkja nokkrum orðum að þeim þætti málsins sem stjórnarandstæðingar hafa kosið að gera að meginþætti þess, það er spurningunni um það hvort gerð samningsins brjóti í bága við stjórnarskrána.
    Stjórnarskrár eru misjafnlega úr garði gerðar. Sagan segir okkur að í þeim ríkjum þar sem þær hafa verið ítarlegastar og háfleygastar hefur stundum verið minnst eftir þeim farið. Einræðisherrar hafa jafnan reynt að blekkja þegna sína og umheiminn með því að efna til mikillar áróðursherferðar í kringum setningu nýrrar stjórnarskrár sem átti að tryggja öllum allt. Plaggið hefur reynst því marklausara eftir því sem áróðurinn hefur verið meiri í þessum ríkjum. Þar sem ekki er rituð stjórnarskrá hins vegar er auðvelt að laga hana að breyttum aðstæðum og hafa lýðræðislegir stjórnarhættir og virðing fyrir mannréttindum oft dafnað best í þeim löndum þar sem ekki eru ritaðar stjórnarskrár eða ekki eins fastbundnar og við eigum t.d. að venjast hér í okkar landi og auðveldara að breyta þeim heldur en á landi. ( ÓÞÞ: Er það ekki Bretland eitt af Vesturlöndum?)
    Ágreiningur um aðferðir við að túlka stjórnarskrárákvæði hefur löngum verið uppi meðal lögfræðinga. Hann verður ætíð fyrir hendi og getur birst í ólíkum myndum. Í Morgunblaðinu í morgun mátti t.d. lesa í grein eftir fyrrv. lagaprófessor að Alþing hefði tvíbrotið stjórnarskrána með því að samþykkja fullgildingu á Mannréttindasáttmála Evrópu með þingsályktun. Þessi niðurstaða hlýtur að koma þeim í opna skjöldu sem sótt hafa mál fyrir þessum dómstóli til að tryggja rétt sinn gagnvart íslenska ríkisvaldinu.

Spyrja má hvort íslenska ríkið hefði átt að nota þá málsástæðu í vörn sinni fyrir mannréttindadómstólnum að aðild Íslands að honum væri stjórnarskrárbrot, ekki einfalt heldur tvöfalt stjórnarskrárbrot. Lögfræðilegar rökræður taka þannig á sig ýmsar myndir en þær eru nauðsynlegar til að unnt sé að glöggva sig á álitaefnum sem uppi eru.
    Að mínu mati gefur það t.d. sérstakt gildi þátttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu að nauðsynlegt er að fara yfir ýmsa mikilvæga íslenska lagabálka og sníða þá að evrópskum kröfum. Þetta er síður en svo nýnæmi í íslenskum rétti því að hann hefur frá alda öðli byggst á erlendum fyrirmyndum, einkum norrænum. Nú má segja að evrópska stoðin verði öflugri en hin norræna í þessu efni. Það er fráleitt að láta eins og það sé einhver umbylting í íslenskri lagasmíð að leitað sé erlendra fyrirmynda eða tekið mið af því sem gerist í lagasetningu erlendis. Þetta hefur alls ekki leitt til þess að frumkvæði Alþingis hafi verið hafnað og svo verður ekki heldur með EES-samningnum.
    Í þeim umræðum sem fram hafa farið um stjórnarskrána vegna EES-samningsins hefur því verið haldið á loft að Alþingi geti ekki fullgilt hann af því að höfundar stjórnarskrárinnar sáu samninginn ekki fyrir. Með slíkri túlkun á stjórnarskránni er ekki litið á hana sem undirstöðu til að standa á við töku mikilvægra pólitískra ákvarðana heldur sem þröngan og ósveigjanlegan ramma sem setji pólitísku starfi og framvindu þjóðfélagsins þröngar skorður. Ég hallast að því að stjórnarskráin sé traustur grunnur til að standa á en það eigi ekki að líta á hana sem haft sem útiloki íslenska ríkið í eðlilegri samvinnu við aðrar þjóðir. EES-samningurinn mótar rammann um slíka eðlilega samvinnu Íslands við aðrar þjóðir.
    Á borð þingmanna hafa verið lagðar fjórar lögfræðilegar álitsgerðir um stjórnarskrána og EES. Í fyrsta lagi álitsgerð hinna virtu fjögurra lögfræðinga er utanrrh. fól að kanna málið og komust að þeirri niðurstöðu að aðild að samningnum bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Í öðru lagi greinargerð frá Davíð Þór Björgvinssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem hann telur að aðild að samningnum sé ekki stjórnarskrárbrot. Í þriðja lagi greinargerð frá Birni Þ. Guðmundssyni, prófessor í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem hann telur vafa á því að samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrána og vill þess vegna að henni sé breytt. ( ÓÞÞ: Er hann ekki virtur líka?) Og í fjórða lagi greinargerð frá Guðmundi Alfreðssyni, lögfræðingi hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf, sem telur að stjórnarskráin yrði brotin ef Alþingi samþykkti EES-samninginn. ( ÓÞÞ: Nýtur hann ekki virðingar?) Væri hér um fjölskipaðan dóm að ræða þyrfti enginn að efast um niðurstöðuna. Fimm dómarar telja ekki um stjórnarskrárbrot að ræða, einn er í vafa og hinn sjöundi telur að brotið sé gegn stjórnarskránni. Er umhugsunarvert að þessi niðurstaða í hinum skriflegu lögfræðilegu gögnum sem fyrir þingmenn hafa verið lögð skuli vekja jafnsterk viðbrögð og raun ber vitni um hjá stjórnarandstöðunni. Hefur hún nú lagt fram frv. til breytingar á stjórnarskránni af þessu tilefni.
    Á það hefur verið bent að samhliða því sem þingmenn taki mið af fræðilegum ábendingum um stjórnarskrána og efni hennar hafi þeir axlað þá skyldu að taka pólitískar ákvarðanir. Ég leyfi mér að fullyrða að það er pólitík en ekki lögfræði sem ræður því að stjórnarandstaðan leggur eins mikla áherslu á stjórnarskrárþátt þessa máls og við höfum kynnst hér í þingsalnum. Vil ég nú víkja aðeins að þeim ræðum sem hér voru fluttar í gær af formönnum Framsfl. og Alþb.
    Eins og ég sagði áður, þegar litið er á pólitískar umræður hér annars vegar og framvinduna í samningaviðræðunum um EES hins vegar kemur á óvart svo ekki sé meira sagt að þeir menn sem gegndu ráðherrastörfum í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar skuli telja ákvæðin um dómstól og eftirlitsstofnun EFTA brjóta í bága við stjórnarskrána og eina helstu ástæðuna fyrir því að þeir geti ekki samþykkt EES-samninginn eða hafi efasemdir um hann. Hæstv. utanrrh. hefur bent á að í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, þar sem Jón Baldvin Hannibalsson var einnig utanrrh., hefði ríkisstjórn Íslands verið tilbúin að fallast á strangari ákvæði um valdsvið dómstóls og eftirlitsstofnunar á Evrópska efnahagssvæðinu sem mælt er fyrir um í endanlegri gerð samningsins, eða eins og hæstv. utanrrh. sagði í framsögu sinni, með leyfi forseta:
    ,,Þannig er ljóst að það sem hefur breyst í EES-samningnum hvað dómsvald varðar frá því í tíð síðustu ríkisstjórnar er að staða dómstólsins er veikari en hún áður var og enn tryggara en áður að dómsvald innlendra aðila verður ekki selt úr landi.``
    Þetta sagði hæstv. utanrrh. um dómstólinn. Hann minnti einnig á þá staðreynd að í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar var samþykkt að koma á fót EFTA-stofnun sem hefði samsvarandi umboð og hlutverk og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins. Síðan gerðist það að í síðustu skýrslu sem utanrrh. ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar gaf Alþingi um stöðu EES-málsins fyrir kosningar í apríl 1991 segir, með leyfi forseta:
    ,,Telja verður að þær stofnanir sem varða valdsvið sameiginlegra stofnana á Evrópska efnahagssvæðinu falli innan ramma stjórnarskrárinnar eins og hún hefur verið túlkuð fram að þessu.``
    Það er fráleitt að ætla að ráðherrum í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafi ekki öllum verið kunnugt um að efasemdir væru uppi um það hvort ýmis ákvæði EES-samningsins stæðust kröfur stjórnarskrárinnar. Einn af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, vakti t.d. máls á þessu atriði séráliti sem fylgdi áliti Evrópustefnunefndar vorið 1990 þar sem hann taldi að vafasamt væri að EES-samningurinn stæðist ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Í ræðu sem hv. 7. þm. Reykn., Steingrímur Hermannsson, flutti á Alþingi hin 17. des. sl. í umræðum utan dagskrár um úrskurð Evrópudómstólsins og EES sagði hann m.a. með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég fyrir mitt leyti og við í síðustu ríkisstjórn féllumst á það að samþykkja EES-dómstól, þótt sannarlega megi færa að því rök að sé yfirþjóðleg stofnun, vegna þess að við töldum að þar hefðum við aðgang að aðila sem gæti kveðið upp úrskurð í deilumálum okkar við EB og það væri betra fyrir smáþjóð, eins og oft hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh., að hafa aðgang að slíkum aðila en hafa aðgang að engum.``
    Hvað hefur breyst að þessu leyti síðan í desember 1991? Svarið við þessari spurningu er einfalt. Hið yfirþjóðlega vald EFTA-dómstólsins hefur minnkað. Er þess vegna ástæða til þess að ætla að frekar sé nú verið að brjóta gegn stjórnarskránni en þegar hv. þm. Steingrímur Hermannsson var forsrh.? Ég held að allir, sem líta hlutlægt á málið, telji að svo sé alls ekki.
    Mér finnst eðlilegt að sú ósk sé sett hér fram við ríkisstjórnina, sem nú situr, að með öllum tiltækum ráðum verði leitast við að fá úr því skorið hvernig ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar stóð að þeirri skýrslu sem utanrrh. lagði fram á Alþingi fyrir hennar hönd í mars 1991. Ótvíræðar upplýsingar um þetta munu auðvelda mat á því hvort það eru pólitísk viðhorf eða tillit til fræðilegrar niðurstöðu varðandi stjórnarskrárþátt málsins sem ráða ferðinni hjá þeim flokkum er áttu fulltrúa í síðustu ríkisstjórn en eru nú í stjórnarandstöðu. ( SvG: Hvort ræður ferðinni hjá þér?)
    Ég tel að öll lögfræðileg viðhorf er snerta stjórnarskrána og EES-samninginn séu komin fram. Frekari umræður um málið meðal fræðimanna og lögfræðinga eiga ekki eftir að leiða neitt nýtt í ljós. Nú er það hins vegar hlutverk okkar alþingismanna að taka af skarið í þessu efni eins og öðrum er varða EES-samninginn. Ég ítreka það sem ég sagði hér áður að það er fráleitt að draga þær ályktanir af þessum samningi að með honum séum við að afsala okkur þeim víðtæku réttindum sem menn láta að liggja í ræðum sínum í þinginu og það sé rétt mat og byggt á samningnum sjálfum og efnisákvæðum hans, sem segir í skýrslu hinna virtu lögfræðinga er utanrrh. fól að kanna þetta mál, að hér er um afmarkað og skýrt tilvik að ræða varðandi það hvar eftirlitsstofnun EFTA og dómstóll EFTA geta haft afskipti af íslenskum málefnum.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson lét að því liggja í ræðu sinni í gær að það gæti orðið íþyngjandi fyrir lítil íslensk fyrirtæki og einstaklinga hér á landi að þessu eftirliti yrði komið á fót og að dómstóllinn starfaði. Þetta er byggt á miklum misskilningi og það er ljóst að því aðeins geta þessar stofnanir látið að sér kveða hér á landi, eins og segir, að heimild eftirlitsstofnunarinnar sé bundin við að um sé að ræða fyrirtæki sem eru af tiltekinni stærð og sem hafa meira en 5% markaðshlutdeild á þeim markaði sem um er að ræða og heildarveltu upp á 200 millj. ECU eða 15 milljarða íslenskra króna og þurfa bæði þessi skilyrði að vera uppfyllt. Aðeins í slíkum tilvikum getur eftirlitsstofnunin og dómstóllinn haft afskipti af starfsemi fyrirtækjanna. Það er því með öllu rangt að halda því fram í þessum ræðustóli að þessi samningur geti með einhverjum hætti orðið íþyngjandi fyrir einstaklinga og lítil íslensk fyrirtæki eins og það var orðað. En í sjálfu sér væri það æskilegt að einstaklingar hér á landi og íslensk fyrirtæki yrðu það öflug að það þyrfti að veita þeim aðhald með þessum hætti en því miður virðist það eiga langt í land.
    Það eru þessi ákvæði sem menn verða að hafa í huga, þessi atriði í samningnum sem menn verða að hafa í huga þegar þeir líta á þær niðurstöður sérfræðinganna fjögurra þar sem sagt er að samningurinn snerti sérgreind, vel afmörkuð atriði. Hér er um milliríkjasamning að ræða, það er um milliríkjaviðskipti að ræða, það er um það að ræða að skapað er nýtt réttarsvið og á því réttarsviði gilda þessar reglur og geta þessar stofnanir látið að sér kveða. Það er með öllu ástæðulaust að gera því skóna að þær geti farið að hlutast hér til um innanlandsmál. Íslensk fyrirtæki sem starfa á íslenskum markaði verða að uppfylla þau skilyrði sem hér voru nefnd og ýmis fleiri sem menn geta kynnt sér ef þeir lesa þær skýrslur og greinargerðir sem fyrir okkur hafa verið lagðar. Eins og segir í greinargerð hinna virtu fjögurra lögfræðinga sem utanrrh. hvatti til, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eftir standa aðeins samkeppnisreglur samninganna. Þær varða samkeppni í viðskiptum milli samningsaðila, það er milliríkjaviðskipti. Eins og nánar er rakið hér að framan teljum við eftirtalin atriði ráða niðurstöðunni:
    1. Það er íslensk réttarregla að við sérstakar aðstæður beri að beita erlendum réttarreglum hér á landi,
    2. dæmi eru til þess, að ákvarðanir erlendra stjórnvalda gildi hér á landi og þær séu aðfararhæfar,
    3. dæmi eru til þess, að erlenda dóma megi framkvæma hér á landi,
    4. vald það, sem alþjóðastofnunum er ætlað með samningnum, sem hér er fjallað um, er vel afmarkað,
    5. þetta vald er á takmörkuðu sviði,
    6. það er ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila.
    Við erum þeirrar skoðunar, að þessi atriði tekin saman leiði til þess, að það sé heimilt að fela áðurnefndum alþjóðastofnunum það vald á sviði samkeppnisreglna, sem um ræðir í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og fylgisamningum hans. Í 2. gr. stjórnarskrárinnar felst meginregla, sem margar og mikilvægar undantekningar eru frá að því er varðar valdmörk innlendra aðila. Nokkrar undantekningar frá henni eru einnig í gildandi íslenskum lögum að því er varðar erlenda valdhafa. Þess er sérstaklega að geta

að því er dómsvaldið varðar, að ákvæði um svonefnda forúrskurði leggja ekki bindandi skyldur á íslenska aðila og skipta hér ekki máli.``
    Þetta eru að mínu mati rétt rök og menn verða að hafa það meginatriði í huga þegar þeir ræða um samninginn að hann gildir um afmarkað svið, gildir varðandi milliríkjaviðskipti og gildir fyrir fyrirtæki sem eru af ákveðinni stærð og geta þannig haft markaðsáhrif á öllu samningssvæðinu.
    Það atriði sem nú er einnig komið fram og kom fram hér í gær, þ.e. hugmynd stjórnarandstöðunnar um að breyta stjórnarskránni, finnst mér --- ég ætla ekki að lengja mál mitt mjög, virðulegi forseti --- nauðsynlegt að ræða í þessu samhengi. Eins og kunnugt er þá liggur hér fyrir frv. um að stjórnarskránni skuli breytt á þann veg að það þurfi aukinn meiri hluta Alþingis til þess að samþykkja, eins og segir í frv., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða á hvers konar fullveldisrétti í íslenskri lögsögu, framsal einhvers hluta ríkisvalds til fjölþjóðlegrar stofnunar eða samtaka eða ef þeir horfa að öðru leyti til breytinga á stjórnhögum ríkisins nema samþykki Alþingis komi til. Slíkt þingmál telst því aðeins samþykkt að þrír fjórðu alþingismanna greiði því atkvæði.``
    Ég lít þannig á í ljósi þeirra umræðna sem voru í síðustu ríkisstjórn varðandi stjórnarskrárþátt þessa máls að með þessu sé stjórnarandstaðan í raun og veru að búa sig undir frekari ákvarðanir um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi en hér um ræðir. Ég byggi það á skýrslunni sem utanrrh. lagði fram í nafni ríkisstjórnarinnar í mars 1991 þar sem tekið er af skarið um það að ekki sé um stjórnarskrárbrot að ræða þótt EES-samningurinn sé staðfestur. Síðan segir í lok skýrslu utanrrh. og það eru lokaorðin í skýrslunni áður en kemur að kafla sem heitir Öryggisákvæði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í þessu sambandi má hins vegar benda á að ef litið er til þróunar alþjóðamála almennt má vænta aukinnar þátttöku Íslands í samvinnu þjóða á fjölmörgum sviðum efnahagsmála, menningarmála, mannréttindamála og ekki síst umhverfismála. Í ljósi þessarar þróunar er full ástæða til að kanna þörf á nýju ákvæði í stjórnarskrána sem kvæði skýrt á um heimildir til þátttöku í alþjóðasamstarfi.``
    Ég held að það verði að skoða breytingahugmyndir, sem stjórnarandstaðan hefur kynnt hér, þannig að hún sé að velta fyrir sér frekara samstarfi og fyrrverandi stjórnarflokkarnir tveir, Alþb. og Framsfl., séu næsta samstiga í því mati sem kemur fram í þessari skýrslu sem var lögð fram í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar að frekara alþjóðasamstarf þurfi hugsanlega ríkari meiri hluta á Alþingi en nú er mælt fyrir um í stjórnarskránni. Mér finnst að það kunni að mega túlka þetta eins og margir þessara ágætu þingmanna hafa verið iðnir við að túlka orð og ummæli andstæðinga sinna sem hugmyndir um aðild að Evrópubandalaginu. Ég held að það sé auðvelt að túlka þetta á þann veg að þeir séu að búa sig undir umræðurnar um aðild að Evrópubandalaginu og vilji að þetta mál beri að með þeim hætti eins og frv. þeirra um breytingu á stjórnarskránni gerir ráð fyrir og þurfi þennan aukna meiri hluta á Alþingi til að samþykkja slíka ráðstöfun. Það er í beinu samhengi við þessa skýrslu sem hæstv. utanrrh lagði fram og ég tel að það eigi að skoða þetta mál í því ljósi og ræða á þeim forsendum.
    Það var furðulegt að heyra hér æfingar hv. 8. þm. Reykn. þegar hann var að reyna að útskýra hina nýju stefnu Alþb. varðandi afstöðuna til Evrópubandalagsins. Ég held að þeirri stefnu hafi verið best lýst í grein sem fyrrv. aðstoðarmaður hv. þm. ritaði í Pressuna 2. júlí sl. þegar hann fjallaði um þessa nýju stefnumótun Alþb. í Evrópumálunum, þ.e. Mörður Árnason sem var aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar í fjármálaráðherratíð hans. Hann sagði í þessari grein, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Niðurstaða Alþb. í málinu verðskuldar sinn sess í stjórnmálaskólum framtíðarinnar og verður sjálfsagt skoðuð vandlega í dæmatímum í pólitískri algebru. Hún er í stuttu máli sú að sega bæði nei og já, nei við EES-samningnum en já við megininnihaldi hans öllu. Við eigum ekki að gera EES-samninginn með EFTA-ríkjunum. Hins vegar eigum við að gera EES-samninginn einir og sér.`` Og virðulegur greinarhöfundur og aðstoðarmaður hæstv. þáv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar segir einnig, með leyfi hæstv. forseta: ,,Aðeins eitt gleymdist og það var sjálft viðfangsefnið, EES-samningurinn eins og hann liggur fyrir með kostum og göllum. Ávinningur Íslendinga af þessum samningi, áhættan sem honum fylgir og ekki síður áhættan við að hafna honum, samningsstaðan í framhaldinu. Það gerðist sem sé eins og oft áður í pólitískri umfjöllun á Íslandi að dæmið reiknaði sig sjálft en málið sem um átti að véla varð út undan vegna þess að það skorti hugrekki til að ræðast við í hreinskilni og takast á um málefnin án bellibragða.``
    Þetta er hin glögga lýsing á ástandinu innan Alþb. sem lyktaði með þessari furðulegu niðurstöðu sem hv. formaður þess reyndi að gera grein fyrir hér í gær og fáir botna í og átta sig á til hvers er gert annars en að reyna að ná samstöðu innan flokksins um einhverja stefnu í Evrópumálunum úr því að flokkurinn þorir ekki að standa við þá stefnu sem hann fylgdi meðan hann lagði grunninn að þeim samningum sem við erum nú að fjalla um þegar hann átti sæti í ríkisstjórn og hv. formaður flokksins gegndi embætti fjmrh. Ég tel, hæstv. forseti, að það hafi verið sýnt fram á og liggi alveg ljóst fyrir að fyrir þeim mönnum sem nú hafa talað hér af hálfu stjórnarandstöðunnar, sérstaklega formönnum Framsfl. og Alþb., sé það eitt verkefni þeirra og viðfangsefni að þeirra mati í þessu máli að gera þennan samning tortryggilegan af pólitískum ástæðum án þess að fyrir liggi nokkur grundvallarbreyting frá því að þeir sjálfir stóðu fyrir því sem forustumenn í ríkisstjórn Íslands að þessi samningur yrði gerður. Ég held að það liggi einnig ljóst fyrir að þær hugmyndir, sem hér hafa verið reifaðar af stjórnarandstæðingum um þá miklu hættu sem

stjórnkerfi Íslands sé búin vegna þessa eða um það sé að ræða að verið sé að brjóta í bága við stjórnarskrána, fá ekki staðist. Meðal þeirra lögfræðinga sem um málið hafa fjallað, ef menn vilja taka mið af þeim, er aðeins einn af sjö, sem hafa lagt fram skriflegar álitsgerðir, sem telur að verið sé að brjóta í bága við stjórnarskrána. Það er okkar hlutverk hér að taka af skarið. Það er okkar hlutverk að taka hina pólitísku ákvörðun. Við hljótum að byggja hana á eigin sannfæringu. Ég vona að menn hafi þrek til þess en byggi hana ekki á misskilningi og rangtúlkunum.