Evrópskt efnahagssvæði

7. fundur
Þriðjudaginn 25. ágúst 1992, kl. 16:07:52 (42)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað alveg augljóst mál að í framhaldi af ræðu hv. 3. þm. Reykv. er óhjákvæmilegt að mjög ítarleg umræða fari fram um þetta mál og allan aðdraganda þess. Það er auðvitað ljóst og liggur fyrir að það hefur orðið grundvallarbreyting á þessu máli í tíð núv. ríkisstjórnar. Fyrrv. ríkisstjórn samþykkti aldrei umboð til utanrrh. til þess að ganga frá samningum. Það var aldrei gert. Það var ekki gert fyrr en með sérstakri samþykkt núv. ríkisstjórnar 5. maí 1991 að núv. utanrrh. fengi umboð til að halda samningum áfram með þeim hætti sem hann svo gerði. Pólitískt bera því þeir stjórnarflokkar sem stóðu að fyrri ríkisstjórn enga ábyrgð á þeirri lendingu sem hæstv. utanrrh. hefur beitt sér fyrir.
    Hitt er einna athyglisverðast við ræðu hv. 3. þm. Reykv. þegar hann upplýst að hæstv. utanrrh. setti stjórnarskrármálið á dagskrá í mars 1991 í margnefndri skýrslu. Nú hefur hæstv. utanrrh. snúið við blaðinu eftir að hann gekk í vinnumannasveitina hjá hv. 3. þm. Reykv. og hæstv. forsrh. Hæstv. utanrrh. er nú ekki tilbúinn til þess að fjalla um stjórnarskrármálið með sama hætti og hann vildi í fyrrv. ríkisstjórn. Þessi ummæli og upplýsingar hv. 3. þm. Reykv. eru afhjúpandi fyrir þá niðurlægjandi vinnumennsku sem hæstv. utanrrh. gegnir í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.