Evrópskt efnahagssvæði

7. fundur
Þriðjudaginn 25. ágúst 1992, kl. 16:26:39 (57)



     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Þetta samspil hæstv. forsrh. og Björns Bjarnasonar er nú greinilega skýringin á

því hvers vegna hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var settur af, að Sjálfstfl. þurfti á því að halda að einhver sem var greinilega svo nátengdur forsrh. að hann vissi hvaða skjöl forsrh. var með á borðinu fyrir framan sig eða í tösku sinni, gæti talað hér í umræðunum og reitt þetta fram með þessum hætti og verður auðvitað mjög gaman að fylgjast með þessu leikræna samspili hins nýja formanns utanrmn. og forsrh. á næstunni.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég tek lítið mark á þessum upplestri hæstv. forsrh. og óska eftir því að það sé rækilega lagt fram hvernig með þetta mál var farið í tíð síðustu ríkisstjórnar, hvenær það sé bókað að skýrslan hafi verið samþykkt í ríkisstjórninni, hvenær það hafi verið bókað að hún hafi verið lögð fram í nafni ríkisstjórnarinnar og annað í þeim dúr, hve langar umræðurnar voru, hvaða sjónarmið komu þar fram og annað þessu tengt. Ég óska jafnframt eftir því að það verði þá upplýst um leið fundargerð ríkisstjórnarinnar þar sem kom fram að ég og aðrir mótmæltu tillögum utanrrh. í desember, hvaða sjónarmið við settum fram í janúar, hvernig stóð á því að málið var aldrei afgreitt í ríkisstjórninni og hvers vegna hæstv. utanrrh. fagnaði því svo að á fyrsta fundi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar fékk hann loksins þetta umboð í ráðherrabústaðnum í byrjun maí Það væri æskilegt að sú fundargerð yrði einnig lögð fram. Ég vil þess vegna óska eftir því hér að allar fundargerðir ríkisstjórnarinnar frá og með desember 1990 þar sem EES-málin hafa verið til umræðu fram að deginum í dag verði lagðar fram. Það er formleg ósk mín hér og ég vona að forsrh. verði jafngóðfúslega við þeirri beiðni og þeirri ósk sem hér var sett fram áðan. Við höfum ekkert að fela í þeim efnum og ég fagna því að þær fundargerðir ríkisstjórnarinnar verði allar lagðar fram. ( ÖS: Hvað með sítrónublekið?)