Evrópskt efnahagssvæði

7. fundur
Þriðjudaginn 25. ágúst 1992, kl. 16:29:03 (58)


     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. EES-samningnum hefur verið lýst sem umfangsmesta og mikilvægasta milliríkjasamningi sem við höfum gert og markmið hans að efla viðskipti og styrkja efnahagstengsl samningsríkjanna kemur strax fram í 1. gr. hans. Um EES-samninginn hefur þegar orðið mikill ágreiningur, umræðan heit og tilfinningaþrungin og ljóst af þeirri umfjöllun sem nú hefur farið fram hér á Alþingi að afgreiðsla þessa máls getur orðið átakasöm. Stundum finnst mér umræðan á þann veg að ætla mætti að við værum að ræða aðild að EB með því valdaframsali sem óumdeilt felst í að ganga í Evrópubandalagið en ekki þann þjóðréttarsamning 19 ríkja sem EES-samningurinn er, samning sem gert er ráð fyrir að hægt sé að segja upp með eins árs fyrirvara. --- Forseti, ég óska að endurtaka þessa setningu: Samning sem gert er ráð fyrir að hægt sé að segja upp með eins árs fyrirvara.
    Það hefur verið bent á þá staðreynd að ef Alþingi samþykkir EES-samninginn þá verður hann hluti íslenskra laga og fær lagagildi á Íslandi sem og í hinum ríkjunum 18. Þar með geta einstaklingar og fyrirtæki leitað réttar síns fyrir íslenskum dómstólum í málum sem eru innan íslenskrar lögsögu og á valdi innlendra dómstóla. Og Íslendingar leita þess réttar sem þeir fá samkvæmt samningnum fyrir dómstólum í ríkjunum 18.
    Ég veit ekki hvort þeir sem fylgjast með þessari umræðu gera sér grein fyrir að umræðan um valdaframsal beinist ekki síst að eftirlitsstofnun og dómstól EFTA. Þær stofnanir sjá um að farið sé að samkomulagi milli þjóða um viðskiptareglur sem samið er um, alþjóðlegar reglur eða alþjóðalögsögu. Séríslenskar reglur og það sem varðar íslensk lög fer fyrir íslenska dómstóla. En markmið samkeppnisreglna er að ná til fjölþjóðafyrirtækja á markaði. Þær ná ekki til fyrirtækja nema markaðshlutdeild fyrirtækis á svæðinu sé yfir 5% og velta þess 15 milljarðar króna. Sá möguleiki er því eingöngu fræðilegur en vart raunverulegur að íslensk fyrirtæki gætu náð slíkri markaðshlutdeild eða veltu.
    Þeir lögfræðingar sem utanrrh. fékk til að leggja mat á hvort EES-samningurinn ásamt fylgisamningum bryti á einhvern hátt í bága við íslensk stjórnskipunarlög, komust að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Þeir telja hvorki að einstök ákvæði, skoðuð hvert fyrir sig, né sameiginleg áhrif samninganna geti falið í sér óheimilt valdaframsal.
    Lögfræðingafélag Íslands stóð fyrir fjölmennum fundi í sumar þar sem sett voru fram andstæð sjónarmið um EES og stjórnarskrána. Mjög hefur verið vitnað í viðhorf annars framsögumannanna, Guðmundar Alfreðssonar, sem telur EES-samning ekki samrýmast stjórnarskrá, en minna hefur farið fyrir því að vísa til sjónarmiða Davíðs Þórs Björgvinssonar sem telur að lögfræðileg rök standi ekki til þess að það sé nauðsynlegt að breyta stjórnarskrá vegna EES-samningsins. Það var ekki hægt að skilja annað en sú væri einnig skoðun síðustu ríkisstjórnar sem hún setti fram fyrir rúmu ári en formenn Alþb. og Framsfl. hafa reyndar hafnað aðild að skýrslu utanrrh. hér í umræðunni nú. Já, það var nefnilega í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar sem lagður var grunnur að okkar Evrópusamstarfi, að það yrði gegnum þátttöku í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þess vegna vakti það vonir um mikla samstöðu stóru flokkanna á Alþingi í þessu mikilvæga máli þegar samkomulag varð um óbreytta stefnu varðandi EES eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum. En það er því miður bara í útlöndum sem flokkar hafa sömu skoðun í stjórn og stjórnarandstöðu og vísa ég í því efni til frænda okkar í Svíþjóð.
    Þegar Svíar ákváðu að leggja inn umsókn um aðild að Evrópubandalaginu komst Ingvar Carlsson svo að orði í ræðu sem sjónvarpað var beint að fjórir stærstu flokkarnir á sænska þinginu hefðu komið sér saman um að Svíþjóð sækti um aðild að Evrópubandalaginu. Þegar svo stjórnarskipti höfðu orðið sl. haust var Carl Bildt forsætisráðherra spurður hvort búast mætti við breyttum áherslum í Evrópumálunum. Hann

svaraði því til að varðandi Evrópumálin skipti það engu hvort forsætisráðherrann héti Carl Bildt eða Ingvar Carlsson því í þessu mikilvæga máli hefðu þeir sett fram sameiginlega afstöðu.
    Það voru vonbrigði að Alþb. ákvað að breyta um afstöðu til EES.
    Hin stóra pólitíska staða í dag er sú höfuðáhersla sem lögð er á breytingu á stjórnarskránni og þar með að knýja fram kosningar. Eins og umræðan er mætti ætla að tekist væri á um málið af tveim fylkingum sem skiptust í ættjarðarsinna annars vegar og hálfgert landsölufólk hins vegar. Þá sem vildu standa vörð um menningararfinn og sjálfstæði okkar annars vegar og þá sem létu sig þá mikilvægu þætti engu varða hins vegar. Þessi mynd er alröng. Við erum að leita bestu færra leiða í samskiptum okkar við næstu nágrannaþjóðir til hagsbóta fyrir þjóðina og með batnandi hag í framtíðinni að leiðarljósi. Þeir sem vilja standa að því að við gerumst aðilar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði telja það hagsmuni okkar Íslendinga að eiga slík samskipti við önnur lönd. Hér er ekki um að ræða óafturkræft afsal á landinu okkar. Við gerumst aðilar að samstarfi sem við getum sagt okkur frá með eins árs fyrirvara ef okkur svo býður.
    Vissulega er samningurinn umfangsmikill og mikilvægur en menn tala eins og hér sé stórbylting fram undan. Ekki vöknum við 1. janúar og sjáum Evrópufánann á Alþingishúsinu. Við verðum áfram fullvalda sjálfstæð þjóð en með tengsl okkar við grannþjóðir í föstum skorðum á þann hátt að við eigum greiðan aðgang í viðskiptum hver við aðra og njótum gagnkvæmra réttinda. Við fáum með samningnum innkomu á innri markað EB án aðildar að EB sem ég tel mikið afrek. Og þótt stundum mætti halda annað þá erum við alls ekki með þeirri umræðu sem hér fer fram að ræða aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu eða fjalla um Maastricht-samkomulagið.
    Varðandi það að við eigum aðra möguleika, svo sem kost á tvíhliða samningi, þá er það mín skoðun að hafi einhvern tímann verið flötur á tvíhliða samningi milli Íslands og EB þá sé hæpið að reikna með slíkum möguleika að þessum samningi felldum ef slíkt yrði raunin. En EES-samningur getur hins vegar þróast í tvíhliða samning síðar ef önnur EFTA-lönd fara öll í EB.
    Það er enn og aftur ástæða til að benda á að með sínum samningi fá Færeyingar lakari tollaívilnanir fyrir sjávarafurðir á EB-markaði en Íslendingar fá með EES-samningnum og Færeyingar þurfa samt að láta af hendi miklar veiðiheimildir að auki.
    Að mörgu leyti fellur bein umfjöllun um hvað séu hagsmunir okkar í skuggann af umræðunni um önnur en tengd atriði, en þjóðin á rétt á að við ræðum þessi mál efnislega. Ég tel það óumdeilt hve þessi samningur er okkur mikilvægur varðandi viðskipti og framleiðslu, almennt varðandi atvinnumál og þar með efnahagslega fyrir þjóðina alla.
    Margir óttast að samningurinn opni á að fjöldi fólks haldi hingað í atvinnuleit sökum atvinnuleysis í Evrópu og taki þá vinnu sem hér er að hafa frá Íslendingum. Þjóðfélagsgerð okkar er þannig að eftirlit og öll umræða gerir það auðvelt að fylgjast mjög vel með framvindu. Við röskun á vinnumarkaði má beita svokölluðu öryggisákvæði og ég minni á rétt atvinnurekenda til að gera kröfu um íslenskukunnáttu vegna starfs en það telst ekki mismunun.
    Við skulum líta til þess að þrátt fyrir 15 ára aðild Dana að EB er aðeins rúmt hálft prósent íbúa landsins ríkisborgarar annarra EB-ríkja þrátt fyrir nálægð þeirra landfræðilega við önnur lönd EB. Við verðum að sjálfsögðu á varðbergi í þessum efnum, en ótti af þessu tagi má ekki verða til þess að við höfnum samningnum.
    Það er líka ótti í umræðunni um landbúnað, en varðandi tollavernd hefur það komið fram að heimilt er að beita jöfnunargjöldum í sama mæli og tollum áður. Ísland fékk reyndar svo til fullar undanþágur fyrir landbúnaðinn. Samið var um innflutning nokkurra tegunda grænmetis og afskorinna blóma á ákveðnum tíma árs og afurða sem ekki eru framleiddar hér á landi.
    Það er hins vegar varðandi fasteigna- og landakaup sem þarf að setja sérstök ákvæði í lög svo við tryggjum að bújarðir og landareignir verði á forræði okkar Íslendinga í framtíðinni. Um þetta mál erum við sammála og ljóst að heimilt er að setja ýmis varnarákvæði í lög sem eru okkur vörn þó í raun geri ákvæðið sem slíkt ekki upp á milli Íslendinga og íbúa innan EES-svæðisins. Ákvæði um búsetu eiganda á bújörð hefur t.d. gengið vel á Írlandi og í Danmörku mega þeir einir sem eru búsettir í landinu eiga sumarbústaði.
    En ég hlýt að spyrja: Hvað líður frv. um þetta mál? Sú töf sem orðið hefur á því að frv. um þetta efni komi fram gerir það eitt að vekja tortryggni og ástæðulausan ótta fólks.
    Í lokakafla skýrslu OECD um Ísland frá í sumar segir að á síðasta ári hafi ríkt bjartsýni um að þáttaskil væru fram undan í íslenskum efnahagsmálum og að efnahagsbati væri í fyrsta sinn fram undan síðan 1987. En þessar vonir rættust ekki og hagvöxtur var lítill 1991 og horfur eru á áframhaldandi kyrrstöðu á næstu missirum. Má rekja þessa öfugþróun að mestu til versnandi ytri skilyrða. Þorsk- og loðnuafli drógust saman þrátt fyrir hagstæð skilyrði í sjónum. Enn fremur segir í skýrslunni að efnahagshorfur til skamms tíma mótist öðru fremur af væntanlegum fiskafla og þróun fiskverðs og að horfur í þessum efnum séu ekki uppörvandi. Heimsmarkaðsverð á fiski var hátt á sl. ári og búist er við að fiskverð lækki á næstu árum, en hækki ekki.
    Þó fjallað sé um aðra þætti í skýrslunni ætla ég að láta mér nægja þessar tilvísanir í markaðsspá varðandi fiskinn, svona í framhaldi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um aflasamdráttinn og ástand

þorskstofnsins. Þetta er það efnahagsumhverfi sem blasir við.
    Við höfum verið að flytja út óunninn fisk í gámum í stórum stíl, en það hefur aftur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fiskvinnsluna og atvinnu fiskvinnslufólks. Samningurinn um EES skiptir sköpum fyrir sjávarútveginn að mínu mati og þar með er hann mjög mikilvægur fyrir þau byggðarlög úti um land sem byggja sitt á afkomu í sjávarútvegi. Þarna opnast okkur 380 milljón manna markaður því niðurfellingar á tollum gera okkur mögulegt að flytja út betur og meira unninn fisk en það skapar vinnu hér heima. Þarna erum við að tala um fersk flök, saltfisk og almennt unnar fiskafurðir. Það hefur borgað sig að flytja út óunninn ferskan fisk af því að það hefur verið tollur á flökum og unnum fiskafurðum. Með EES-samningnum fá Íslendingar tollfrjálsan aðgang að EB-markaði fyrir 96% af fiskafurðum sínum.
    Atvinnuleysi er nú meira en verið hefur áður hérlendis. Atvinnuleysi er eitthvert það mesta böl sem yfir þjóð gengur því það að vera nýtur þegn og hafa verk að vinna skiptir miklu máli fyrir hvern einstakling og sjálfstæði hans sem manneskju. Við erum að upplifa breytta tíma hvað þennan þátt varðar og við getum ekki einfaldað þann vanda sem við stöndum frammi fyrir ef ekki tekst að snúa stöðu atvinnumála við. Þjóð sem byggir að stórum hlut á fiski og gat áður fyrr mokað upp fiski svo lengi sem vinnufúsar hendur voru til staðar, verður að bregðast við þeim vanda þegar þessi undirstöðuatvinnugrein er að bresta.
    Þá ber okkur skylda til að skila þessum þjóðarauði okkar áfram á verðmætasta hátt. EES-samningurinn er m.a. leið til þess að skapa meiri verðmæti úr sjávarauðlind okkar. Nýlega kom fram að íslensk fyrirtæki leiða nú rannsóknarverkefni um notkun vélmenna, eða róbota, í fiskvinnslu. Sú nýbreytni mun eins og önnur bætt tækni skapa ný og léttari störf í fiskvinnslu. Þetta merka verkefni er unnið fyrir rannsóknarstyrk frá Evrópubandalaginu. Það er afar mikilvægt að við fáum aðgang að rannsóknar- og þróunarverkefnum því alþjóðleg samvinna er þýðingarmikil í að leysa þau rannsóknarverkefni og önnur þau vandamál sem upp koma og liggja þvert á öll landamæri. Það er dýrt fyrir hverja þjóð að fást við verkefni ein og sér og eins er það oft nauðsynlegt að alþjóðleg samvinna eigi sér stað um verkefnið. Má þar nefna bæði umhverfisþætti, nýtingu á auðlindum hafsins, auk allra þeirra þátta sem snerta atvinnulíf og tækniþróun og alþjóðlega samkeppnisstöðu. Með EES-samningnum fá EFTA-löndin fulla aðild að rannsóknarverkefnum sem spanna vítt svið. Fyrir okkur er þetta ómetanlegt, skapar atvinnu fyrir það unga fólk sem við höfum verið að kosta til skólagöngu og er grunnforsenda þess að okkur takist að halda ungu fólki með sérþekkingu í landinu, en missum það ekki í hendur annarra þjóða þar sem betri tækifæri bjóðast. Aðgangur okkar að rannsóknar- og þróunarsjóðum Evrópubandalagsins er tryggður með samningnum án þess að við þurfum að gerast aðilar að EB.
    Við Íslendingar höfum ávallt verið jákvæð gagnvart öllu samstarfi á alþjóðavettvangi og oft getið okkur orðstír langt út fyrir þau mörk sem ætla mætti að smæð okkar sem þjóð setti okkur. Við höfum líka ástundað að starfa í samfloti með öðrum á alþjóðavettvangi og ber þar að nefna Norðurlandasamstarfið helst. Í því samstarfi höfum við notið fulls jafnræðis í samskiptum og uppskorið í hlutfallinu þjóð á móti þjóð þó í tilkostnaði væri ekki krafist framlags af okkar hálfu nema í minna mæli.
    Nefna má samvinnu norrænna sjóða og Alþjóðabankans, til dæmis fiskveiðiverkefni í Malaví og samning við Slippstöðina á Akureyri um skipasmíðar í kjölfar hans, sem og mikilvæga samninga sem íslensk ráðgjafarfyrirtæki hafa fengið í kjölfar verkefna sem þessir aðilar hafa veitt fjármagni til.
    Halldór Ásgrímsson fjallaði í blaðagrein um norrænt samstarf og þróunina í Evrópu. Með leyfi forseta, vil ég grípa niður í þessa grein á þremur stöðum. Hann segir:
    ,,Ef við verðum aðilar að EES mun staða okkar á næstu árum verða svipuð og hinna Norðurlandanna. Ef við stöndum einir utan við EES er líklegt að við munum verða einangraðir á ýmsum sviðum í norrænu samstarfi.``
    Enn fremur segir hann:
    ,,Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að EES verði að veruleika. Það hefur oft verið ástæða til svartsýni, en mér þykir ólíklegt að þróunin verði stöðvuð úr því sem komið er. Ég geng út frá að Íslendingar muni taka þátt í því starfi og verða aðilar að samningnum eins og upphaflega var stofnað til. Þótt ýmis atriði samningsins valdi óánægju geri ég ráð fyrir að heildaráhrif hans séu með þeim hætti að það sé mjög erfitt fyrir Íslendinga að standa utan við hann.``
    Og síðasta tilvitnun í grein Halldórs er þessi, með leyfi forseta:
    ,,Ég tel að þátttaka okkar í norrænu samstarfi styðji aðild okkar að EES ef hagstæð niðurstaða fæst að öðru leyti. Ég tel jafnframt að aðild okkar að EES krefjist öflugs samstarfs Norðurlandanna og því verðum við að leggja áherslu á að efla það og treysta. Þetta á ekki síður við ef nágrannaþjóðir okkar verða allar aðilar að EB.``
    Ég tek undir þessi orð og þá áherslu sem lögð er á samflot sem og gott og öflugt Norðurlandasamstarf okkar. Í samfloti Norðurlandanna höfum við átt þátttökumöguleika í ýmsu alþjóðasamstarfi, samstarfi á fullkomnum jafnréttisgrundvelli með réttindi umfram aðrar smáþjóðir. Þannig hefur það verið styrkur okkar að aðrar þjóðir standa með okkur og bakka okkur upp í okkar samningaumleitunum þannig að við náum stöðu með stuðningi þeirra sem við hefðum vart náð fram ein og sér. Þannig höfum við ótrúlega mikil áhrif í alþjóðasamstarfi sem hluti heildar.
    Þegar við stöndum frammi fyrir vandasömu vali, þegar efinn hefur verið kveiktur um það sem fyrir liggur, er oft einfaldast að segja sem svo: Við vitum hvað við höfum, en við vitum ekki nægilega vel

hvað við fáum. Þess vegna skulum við hafa vaðið fyrir neðan okkur og segja nei.
    Málið er bara ekki svona einfalt. Við vitum ekki hvað við munum hafa, hvaða stöðu við verðum í ef við höfnum samningi eins og þeim sem við stöndum nú frammi fyrir að afgreiða.
    Ég talaði áðan um hve samningur Færeyinga við EB skilaði þeim litlu og sama má segja um þær þjóðir Austur-Evrópu sem leitað hafa beinna samninga. Það getur falist meiri ábyrgð í því að segja nei, ef við með því komum til með að standa utan við alþjóðasamstarf sem t.d. hin Norðurlöndin eiga hlut að. Að segja nei er ekki að velja óbreytt ástand. Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja mun þá ekki standa í stað heldur versna vegna betri aðgangs keppinauta að Evrópumarkaði. Það getur haft bein áhrif á atvinnustigið í landinu og á lífskjör fólks hér. Og ávinningar okkar vegna Norðurlandasamstarfs geta líka gengið okkur úr greipum.
    Ég trúi að með þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu leggjum við grunn að betra efnahagslegu umhverfi fyrir okkar þjóð sem nú þarf svo mjög á að halda að okkur takist að snúa stöðnun í sókn.