Stjórnarskipunarlög

8. fundur
Miðvikudaginn 26. ágúst 1992, kl. 15:01:18 (75)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Við höfum heyrt að hæstv. ráðherra, sem hér talaði síðast, er fljótur að gera muninn á réttu og röngu. Nefnd utanrrh., sem skilaði áliti í öndverðum júlímánuði, hafði varla komið því til ríkisstjórnar þegar ráðherrann kvað upp úr með það að nú þyrfti ekki lengur vitnanna við. Nú væri dómurinn fallinn og ég vitna orðrétt í flokksblaðið, Alþýðublaðið, 8. júlí, orð ráðherrans voru þessi: ,,Nú er ekkert því til fyrirstöðu að Alþingi geti lögfest EES-samninginn samkvæmt þeirri áætlun sem ríkisstjórnin náði samkomulagi um við stjórnarandstöðuna í vor. Stjórnarandstæðingar sumir hverjir hafa reynt að víkja sér undan umræðunni um efnisþætti EES-samningsins og ekki síst hafa þeir drepið á dreif augljósum jákvæðum áhrifum hans á íslenskt efnahagslíf með fullyrðingum um að hann samræmist ekki stjórnarskránni. Nú komast þeir ekki lengur upp með það.`` --- Og í lokin segir blaðið: ,,Jón sagði að nauðsynlegt hefði verið að eyða öllum vafa um það hvort EES-samningurinn færi á einhvern hátt í bága við íslensku stjórnarskrána. Það hefur nú verið gert, sagði Jón Sigurðsson að lokum.``
    Menn skulu íhuga hver mælir þessi orð. Það er ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem lætur þetta frá sér fara og það eftir að komin er álitsgerð frá hópi lögfræðinga sem utanrrh. hæstv. setti á laggirnar sem viðbrögð við tillögu á Alþingi um að stofna nefnd lögfræðinga, óháða stjórnmálaflokkum, til þess að gefa Alþingi álit um málið. Hverjir skipuðu þessa fjögurra manna nefnd utanrrh.? Tveir af þeim voru í raun alls ekki bærir um að fjalla um málið þar sem þeir voru búnir að starfa að málinu á vegum ríkisstjórnarinnar. Þetta er auðvitað öllum ljóst og er viðurkennt í hópi allra lögfræðinga sem ég hef talað við að þessir menn eru vanhæfir í þessu samhengi. Ekki til að hafa skoðun á málinu, en til þess að vera fulltrúar í nefnd til þess að reiða fram álit til stjórnvalda væru þeir vanhæfir. Svo ekki fari á milli mála við hverja ég á er annar þeirra búinn að starfa á vegum dómsrh. en hinn á vegum utanrrh., prófessor í háskólanum, og veitt álitsgerðir um málið. Síðan eiga þeir að koma og veita þarna álit. Þetta er röksemdarfærsla sem gengur ekki upp. ( Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. að ljúka máli sínu.) Það hef ég gert.