Stjórnarskipunarlög

8. fundur
Miðvikudaginn 26. ágúst 1992, kl. 15:14:04 (84)


     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. viðskrh. sagði í ræðu sinni að afstaða manna til stjórnarskrárinnar ætti að fara eftir þeirra samvisku og hagsmunum þjóðfélagsins. Nú er það svo að hér er ofsagt og það verulega. Það á aðeins að fara eftir þeirra samvisku. Þar mun m.a. reyna á samvisku hæstv. forseta sem að vísu slapp við að þurfa að sverja það með hönd á helgri bók að vinna eið að stjórnarskránni heldur skrifaði undir drengskaparheit þrátt fyrir að margir þeir sem þurfa að fara með mikil völd þurfa að vinna eið að stjórnarskránni. Hins vegar hefði hæstv. viðskrh. ekki þurft að geta annars í ræðu sinni en að hann væri andvígur því að fara í kosningar og allur þingheimur hefði skilið hvers vegna. Það var alveg fullnægjandi. Hvort efnahagsástandið er rök fyrir því að hann er andvígur er ákaflega hæpið að taka trúanlegt. Ástæðan fyrir því að hann vill ekki kosningar er trúlega sú að hann óttast um ráðherradóm sinn og það er mjög skiljanlegt og það skilur þingheimur líka. En af því að forseti heldur mönnum mjög strangt við efnið þá ætla ég ekki að ræða hér það atriði sem fjallar beint undir þingsköp en mun biðja um orðið varðandi það á eftir.