Stjórnarskipunarlög

8. fundur
Miðvikudaginn 26. ágúst 1992, kl. 15:17:39 (87)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns geta þess að hæstv. utanrrh. óskaði eftir því í samtölum við okkur forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna að við samþykktum að hann færi á fund utanríkisráðherra Norðurlanda sem stendur í dag og á morgun og mundum ekki gera athugasemd við það þó hann væri ekki hér við hluta umræðunnar. Féllst ég á það fyrir mitt leyti að því tilskildu að 1. umr. um þetta stjórnarskrárfrumvarp lyki ekki fyrr en hæstv. utanrrh. kæmi til baka. Ég vil minna á þetta í upphafi máls míns enda tel ég að það sem gerst hefur í umræðunni til þessa sanni gildi þess fyrirvara að ekki er hægt að halda umræðunni áfram til loka nema hæstv. utanrrh. komi og tjái sig um það sem hér hefur komið fram bæði um hans eigin skýrslu frá í mars 1991 og umræður í síðustu ríkisstjórn.
    Í gær urðu hæstv. forsrh. og hv. þm. Björn Bjarnason til þess að setja þetta mál inn í sérkennilegan farveg. Hv. þm. Björn Bjarnason hélt því áfram í andsvörum í dag við ræðu 1. flm. þessa frv., hv. þm. Steingríms Hermannssonar. Þess vegna er óhjákvæmilegt í upphafi máls míns að víkja að þeim ranga málflutningi og sérkennilegu sviðsetningu sem forsrh. og hv. þm. Björn Bjarnason stóðu fyrir í sameiningu í gær.
    Hv. þm. Björn Bjarnason skoraði hvað eftir annað á þá sem með málin hefðu að gera að upplýst yrði hvernig var farið með skýrslu hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar í síðustu ríkisstjórn. Og eins og við manninn mælt fór hæstv. forsrh. að taka fundargerðir ríkisstjórnarinnar upp úr tösku sinni undir ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar. Þegar ég tók svo undir þessa ósk, vegna þess að ég taldi að hv. þm. Björn Bjarnason hefði farið rangt með eðli meðferðarinnar í tíð síðustu ríkisstjórnar, þá reis hæstv. forsrh. upp undir liðnum þingsköp og flutti þingheimi endursögn fyrrv. forsrh. af því sem stæði í fundargerð ríkisstjórnarinnar. Það er mjög alvarlegt mál að þessi endursögn hæstv. forsrh. var fölsk, hún var fölsuð. Fundargerðin er alls ekki með þeim hætti sem hæstv. forsrh. gaf þingheimi til kynna í gær. Auðvitað er mjög alvarlegt mál þegar forsrh. flytur þingheimi efni fundargerða ríkisstjórna, sem hann átti ekki sæti í en er nú vörslumaður fyrir, með þeim hætti að bæði þjóðin og þingið fékk falska mynd af því sem í fundargerðinni stendur.
    Þess vegna er óhjákvæmilegt í upphafi að leiðrétta þá fölsun sem hæstv. forsrh. fór með í gær. Ég mun svo síðar víkja að málflutningi hv. þm. Björns Bjarnasonar sem er í algerri mótsögn við eigin orð hans fyrir ári eins og ég mun einnig sýna fram á. Ef einhver orð standa ekki í þessu máli þá eru það orð hæstv. forsrh. og orð hv. þm. Björns Bjarnasonar.
    Ég óskaði eftir því í gær þegar hæstv. forsrh. var búinn að kveða sér hljóðs undir liðnum þingsköp að allar fundargerðir síðustu ríkisstjórnar frá desember á árinu 1990 þar sem fjallað væri um Evrópska efnahagssvæðið yrðu birtar. Ég endurtek þá ósk hér og endurtek einnig þá ósk mína að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, fyrst hann hóf þennan birtingarleik, hafi þá einnig vilja til að birta það sem fram hefur komið í tíð hans eigin ríkisstjórnar um ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í EES.
    Hæstv. forsrh. sagði orðrétt í gær:
    ,,Herra forseti, út af þessari beiðni um að gera þetta sem allra fyrst, þá get ég upplýst það að skýrsla þessi var rædd sem handrit í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og þar er bókað að málið hafi verið ítarlega rætt mánuði áður en málið er lagt fyrir Alþingi.``
    Hvenær var málið lagt fyrir Alþingi? Málið er lagt fyrir Alþingi samkvæmt upplýsingum prentuðum í skjölum þingsins 11. mars 1991. Hvenær er fundurinn í ríkisstjórninni sem hæstv. forsrh. var að vitna til? Hann er 5. mars 1991. Þessi fullyrðing er því fölsk þar sem þjóðinni var gefið til kynna að mánuði áður en skýrslan var birt á Alþingi þá hefðum við setið í ríkisstjórninni og rætt þessa skýrslu. Hún er fölsk. 11. mars er þar að auki mánudagur, 10. mars sunnudagur, 9. mars laugardagur. Gerum því skóna að skýrslan hafi verið prentuð í ríkisprentsmiðjunni Gutenberg 8. eða 9. mars, þá líða í hæsta lagi tveir til þrír virkir dagar frá því að málið er tekið fyrir í ríkisstjórninni og þar til prentun í Gutenberg sem dreift er 11. mars fer fram.
    Í öðru lagi sleppti hæstv. forsrh. lykilorði í fundargerðinni og það var auðvitað engin tilviljun. Hæstv. forsrh. sleppti því sem segir í fundargerðinni undir 7. lið: ,,Utanrrh. dreifði til upplýsingar handriti að skýrslu utanrrh.`` Allir þeir sem starfað hafa í ríkisstjórnum vita auðvitað að grundvallarmunur er á því þegar ráðherra leggur fram skjal í ríkisstjórn, sem ríkisstjórnin á að taka afstöðu til, og þegar ráðherra leggur fram í ríkisstjórn skjal til upplýsingar. Það vita allir sem við þetta borð í gamla Stjórnarráðshúsinu hafa unnið mánuðum og árum saman. Auðvitað var það ekki tilviljun að hæstv. forsrh. sleppti orðunum ,,til upplýsingar`` í endursögn sinni á fundargerðinni hér. Ef hann hefði haft það með þá hefði hann því sannað málflutning okkar sem sátum í þessari ríkisstjórn að skýrslan var aldrei afgreidd í ríkisstjórninni af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Í þriðja lagi gaf hæstv. forsrh. það til kynna með orðavali sínu að það hefði liðið þannig tími frá því að utanrrh. leggur málið fram í ríkisstjórninni og menn hafi síðan skoðað skýrsluna og svo hafi menn komið saman til að ræða hana ítarlega. Það er líka rangt. Það var ekki þannig. Henni er dreift á borðin til upplýsingar um leið og málið er tekið fyrir þannig að það var útilokað að nokkur ráðherra gæti rætt skýrsluna út frá efni hennar á þeirri stundu vegna þess að hann hafði engan tíma til að lesa hana. Enda var það ekki ætlun hæstv. utanrrh. Hann lagði hana fram til upplýsingar. Ekki til að afstaða yrði tekin til hennar eða um hana færi endanleg efnisleg umræða. Þess vegna er rangt að mánuður hafi liðið frá því að skýrslan var tekin fyrir í ríkisstjórninni og þar til hún birtist Alþingi. Það eru kannski tveir til þrír virkir dagar. Í öðru lagi er rangt að skýrslan hafi verið lögð fyrir ríkisstjórnina til efnislegrar umfjöllunar og afstöðu. Hún var eins og ég hef lesið upp úr fundargerð ríkisstjórnarinnar eingöngu lögð fram til upplýsingar vegna þess að hæstv. utanrrh. fór með málið með sama hætti og hann hefur ávallt gert og ég held fyrirrennarar hans einnig, að skýrslur hans til Alþingis væru hans eigið mál og um þær væri ekki fjallað efnislega í ríkisstjórn. En auðvitað leggur hann þær fram til upplýsingar svo að menn hafi þær í höndunum áður en þeim er dreift á borð þingmanna. Það er auðvitað allt annað en þegar lögð eru fram frv. ríkisstjórnar sem beðið er um efnislega afstöðu til.
    Ég fagnaði því í gær að hæstv. forsrh. skyldi vilja birta þessar fundargerðir vegna þess að ég vissi nákvæmlega hvernig atburðarrásin var. En ég harma að hæstv. forsrh. skyldi með orðum sínum gefa falska mynd af því sem gerðist. Ég tel þess vegna enn brýnni nauðsyn á því að þjóðin fái að sjá þessa texta alla og ég hvet til þess. Bæði frá tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og frá tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Varla á það að vera feimnismál fyrir þjóð okkar að hún fái að sjá hvað ríkisstjórnir hennar tvær, sem um þetta mál hafa fjallað, hafa aðhafst á þeim tímum sem málið hefur verið til umfjöllunar.
    Virðulegi forseti. Það er þess vegna alveg ljóst, þrátt fyrir upplestur hæstv. forsrh. hér, og það er einnig hæstv. núv. utanrrh., Jóni Baldvini Hannibalssyni ljóst, að þessi skýrsla var lögð fram í hans nafni sem hans yfirlýsing og hans skjal en á engan hátt stefnuyfirlýsing eða afstöðulýsing síðustu ríkisstjórnar. Ef málefnafátækt forustumanna Sjálfstfl. er hins vegar þannig hér á Alþingi að þeir telja nauðsynlegt að halda slíkum rangfærslum fram verða þeir auðvitað að gera það upp við sjálfa sig. En það er ekki í samræmi við sannleikann í málinu og nauðsynlegt að fjalla um það frekar þegar hæstv. utanrrh. kemur til þings.
    Hv. þm. Björn Bjarnason sagði í dag í þessari umræðu, í andsvari, að það væri fráleitt að skilja skýrslu utanrrh. frá mars 1991 á þann veg sem Steingrímur Hermannsson gerði, að utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson hefði talið í skýrslunni að það þyrfti að breyta stjórnarskránni til að auðvelda þátttöku í EES.
    En hvað segir hv. þm. Björn Bjarnason sjálfur um þessa skýrslu 26. mars 1991? Er hann þá á sömu skoðun og hann er nú? Nei, það er hann ekki. Það er reyndar mjög fróðlegt, eins og ég gerði í morgun, og ég þakka hv. þm. Birni Bjarnasyni fyrir að hafa óbeint orðið til þess að ég fór og las greinarnar sem hann birti í Morgunblaðinu í mars og apríl í fyrra til þess að kynna mér og rifja upp hvað hann sagði þá, ekki bara um þetta atriði heldur líka um EES, eðli samningsins og hvernig samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hlyti að vera forleikur að inngöngu í Evrópubandalagið, eins og hv. þm. Björn Bjarnason segir t.d. 16. apríl í Morgunblaðinu 1991, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þeir sem hafa kynnt sér umræðurnar um EES og þær vonir sem bundnar eru við samningaviðræður EFTA og EB í ríkisstjórnum EFTA-landanna vita að þar líta menn á EES sem fyrsta og annað skrefið inn í Evrópubandalagið.``
    Þar vita menn að EES er fyrst og annað skrefið inn í Evrópubandalagið og hv. þm. Björn Bjarnason segir meira, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,EES-samningagerðin er skipulegasta átak sem gert hefur verið til að opna Íslandi og öðrum EFTA-ríkjum leið inn í Evrópubandalagið.``
    ,, . . .  skipulegasta átak sem gert hefur verið til að opna Íslendingum leið inn í Evrópubandalagið``, segir núv. formaður utanrmn. íslenska lýðveldisins um EES-samninginn. Ég spyr hv. þm. Björn Bjarnason: Hafði hann rangt fyrir sér í apríl í fyrra? Eða er hann enn sömu skoðunar og hann var í apríl í fyrra en hefur kosið að þegja um hana nú af því að það hentar ekki að segja það? Það er ekki bara einu sinni, ekki bara tvisvar heldur oftar í þessum greinum frá í fyrra sem núv. formaður utanrmn. Alþingis, sá maður sem var svo mikilvægt að koma í það sæti að virðingarmaðurinn Eyjólfur Konráð Jónsson var felldur í þingflokki Sjálfstfl., sá maður, Björn Bjarnason, segir alveg skýrt að EES-samningurinn sé skipulegasta átakið til þess að koma löndum inn í EB.
    Hv. þm. segir reyndar meira. Hann segir í greininni 26. mars:
    ,,Með EES hefur markvisst verið stefnt að því að innleiða hér á landi ákvæði úr Rómarsáttmálanum, stofnskrá EB og 70--80% af lagabálki Evrópubandalagsins.``
    Ég held að núv. formaður utanrmn. íslenska lýðveldisins skuldi bæði þinginu og þjóðinni svar við þeirri spurningu: Er hann enn á þessari sömu skoðun eða hefur hann breytt um skoðun? Hann hefur ekki nú, þegar við erum að ræða þessa samninga, kynnt þjóðinni þá afdráttarlausu skoðun sína frá í fyrra að EES-samningurinn sé skipulegt átak til að opna Íslandi leið inn í Evrópubandalagið, svo að ég noti hans óbreyttu orð, skipulegt átak til að opna Íslandi leið inn í Evrópubandalagið.
    Hv. þm. Björn Bjarnason segir reyndar margt fleira. Hann segir Í Morgunblaðinu 26. mars um skýrslu utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar frá í mars 1991:
    ,,Þessi hugleiðing`` og þar vitnar hann til þeirra orða í skýrslu utanrrh. sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson gerði að umtalsefni hér ,,um nauðsyn þess að breyta stjórnarskránni er nýmæli í umræðum um þátttöku í EES. Er hún sett fram af utanrrh. einum eða byggist hún á umræðum á bak við tjöldin í ríkisstjórninni eða meðal forustumanna stjórnarflokkanna sem hafa gumað af nánu samstarfi sínu um öll meginmál?``
    Þessi tilviltnun er merkileg vegna þess að í þessari tilvitnun viðurkennir Björn Bjarnason það rétta, að skýrslan er skýrsla utanrrh. þótt hann hafi í umræðum hér kosið að tala alltaf um hana sem skýrslu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Hann telur meira að segja í greininni sérstaka ástæðu til þess að spyrja um það hvort við hinir, ég og hv. þm. Steingrímur Hermannsson, höfum rætt þessa skoðun við utanrrh. Auðvitað vissi hv. þm. Björn Bjarnason í fyrra að þetta var sýrsla utanrrh. Það kemur hvað eftir annað fram

í þessum greinum í Morgunblaðinu þó að hann kjósi hér í umræðum að hafa allt aðra skoðun. Hvílíkur ,,jómfrúr-debut`` hjá formanni utanrmn. íslenska lýðveldisins. Hv. þm. segir fleira um skýrslu utanrrh., með leyfi hæstv. forseta. Hann segir í þessari blaðagrein:
    ,,Við lestur þessarar nýjustu skýrslu utanrrh. vaknar sú spurning``, ég bið þingmenn að taka eftir því, ,,hvort stjórnarfarslegu flækjurnar sem þarna er lýst séu í raun skynsamlegasti kosturinn fyrir okkur Íslendinga.``
    Það sem hann lofsyngur nú þegar hann segir: Þetta hefur ekkert breyst frá því í mars og apríl í fyrra, hefur ekkert breyst sagði hann í gær, sagði hann í apríl í fyrra að væru slíkar stjórnarfarslegar flækjur að það sé spurning hvort það sé skynsamlegasti kosturinn fyrir okkur Íslendinga. Og síðan bætir hann við: ,,Enginn veit hvernig stjórnarháttum á Evrópska efnahagssvæðinu verður háttað. En réttarstaða okkar gagnvart því er óljósari en gagnvart Evrópubandalaginu sjálfu.``
    Maðurinn sem stóð hér í gær og sagði: Það hefur ekkert breyst frá í fyrra, sagði í fyrra: Þetta er svo óljóst að réttarstaða okkar gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu er óljósari en réttarstaðan gagnvart Evrópubandalaginu. Þetta var dómur formanns utanrmn. íslenska lýðveldisins. Ég vil segja að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, fyrrv. formaður utanrmn., hefur aldrei tekið jafnafdráttarlaust til orða um stjórnarfarslegu flækjurnar í EES eins og hv. þm. Björn Bjarnason gerði í þessum dómi sínum í fyrra. Þeir útlendingar sem lesa um íslensk stjórnmál í blöðum og greinum hljóta að álykta sem svo að Sjálfstfl. væri að hefja til vegs hinn mikla efasemdarmann um ágæti EES, byggt á greinum og skoðunum hans þegar hann taldi málið liggja fyrir. En það er ekki búið. Hv. þm. Björn Bjarnason sagði líka, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Auðvelt er að færa fyrir því rök að meiri hætta steðji að fullveldi þjóðar þegar óvissa er um réttarreglur í samskiptum ríkja en þegar þær eru skýrar.`` Eða svo ég lesi þetta í samhengi, með leyfi hæstv. forseta: ,,Enginn veit hvernig stjórnarháttum á Evrópska efnahagssvæðinu verður háttað. Réttarstaða okkar gagnvart því er óljósari en gagnvart Evrópubandalaginu sjálfu. Auðvelt er að færa rök fyrir því að meiri hætta steðjar að fullveldi þjóða þegar óvissa er um réttarreglur í samskiptum ríkja en þegar þær eru skýrar.``
    Hér er ekki verið að tala neina tæpitungu. Hér er sagt í fyrsta lagi: Það er meiri óvissa gagnvart íslensku fullveldi í réttarreglum EES en í samskiptum okkar við Evrópubandalagið og það er auðvelt að færa fyrir því rök. Þingmaðurinn segir að af því stafi sérstök hætta fyrir fullveldi þjóðar. Það liggur við að maður spyrji: Hvað varð um þennan mann sem skrifaði þessar skýru og afdráttarlausu greinar í fyrra þegar hann segir okkur nú að málið hafi þá legið fyrir skýrt og ljóst og ræðst á okkur, mig og hv. þm. Steingrím Hermannsson, fyrir það að málið hafi verið svo skýrt og ljóst í fyrra að við séum með einhverja pólitík í málinu. Ég vil ekki á þessu stigi nota sömu orð um hv. þm. Björn Bjarnason. Ég vil, þar til annað kemur í ljós, telja að hann standi enn við þessi orð sín því að þau eru afdráttarlausari en nokkur annar þingmaður hefur viðhaft um EES að undanskildum hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Auðvitað skuldar maður, sem hefur tekið sæti fyrir borðsendanum í utanrmn. íslenska lýðveldisins og vill vera vandur að virðingu sinni, þjóðinni og þinginu skýringar á því: Er hann enn á þessari skoðun eða hefur hann breytt um skoðun og hvað hefur svo breyst? Eða var þetta allt rangt sem þingmaðurinn sagði í fyrra?
    Hann sagði meira. Hann sagði nefnilega meira. Hann sagði líka, með leyfi hæstv., forseta 26. mars þegar hann var að fjalla um skýrslu utanrrh.:
    ,,Í stuttu máli eru þarna lögð á ráðin um það hvernig æðstu stofnanir ríkisins`` þ.e. íslenska ríkisins, ,,verða lagaðar að stjórnarstofnunum Evrópska efnahagssvæðisins. Hvergi hafa endanlegar ákvarðanir verið teknar,`` sagði hann 26. mars í fyrra um skýrsluna frá 11. mars sem hann segir núna að hafi lýst öllu eins og það varð endanlega. En bætir svo líka við: ,,Hvergi hafa endanlegar ákvarðanir verið teknar. Í öllum tilvikum er farið inn á nýjar og ákaflega óljósar brautir.``
    Maðurinn sem sagði hér í gær: Þetta er allt saman eins og það var fyrir kosningar í fyrra. Nú eru engar óljósar brautir. Við hv. þm. Steingrímur Hermannsson erum sakaðir um það að segja eitt í dag og annað á morgun. Hvers konar er þetta eiginlega?
    Hv. þm. Björn Bjarnason segir reyndar meira. Hann segir einnig í þessari grein: ,,Hvergi kemur fram í skýrslu utanrrh. að neitunarvald sé viðurkennt á vettvangi EES.`` Það kemur hvergi fram að dómi Björns Bjarnasonar í skýrslu utanrrh. að Íslandi hafi neitunarvald á vettvangi EES. Nú er það hins vegar ein meginuppistaðan í málflutningi utanrrh. að Ísland hafi þetta neitunarvald. Ég vil þá spyrja manninn Björn Bjarnason, sem hefur sagt hér í þingsalnum að ekkert hafi breyst frá því að við Steingrímur Hermannsson fórum úr ríkisstjórn: Hvenær kom þetta neitunarvald inn? Var það áður eða eftir að við fórum úr ríkisstjórn? Það er ekki bæði sleppt og haldið í þessum málflutningi, hv. þm. Björn Bjarnason.
    Alvarlegustu ummælin í þessum greinum Björns Bjarnasonar, sem hann birti í aðdraganda kosninganna í fyrra þegar hann var að kynna þjóðinni að hér væri á ferðinni maður sem vildi vanda málflutning sinn í utanríkismálum, eru auðvitað þar sem hann segir afdráttarlaust að Evrópska efnahagssvæðið sé fyrsta og annað skrefið inn í Evrópubandalagið, svo ég vitni aftur í hans óbreyttu orð. Þá liggur það ljóst fyrir að formaður utanrmn. íslenska lýðveldisins hefur sagt það alveg skýrt að Evrópska efnahagssvæðið sé fyrsta og annað skrefið inn í Evrópubandalagið. Hann hefur einnig í þessum greinum rakið það mjög rækilega hvernig við deildum á fundi þar sem við vorum þrír, ég og hv. þm. og hæstv. utanrrh. Jón Baldvin

Hannibalsson, fyrir kosningarnar í fyrra. Þær greinar eru auðvitað nægilegur vitnisburður um það að honum var fyllilega ljós skoðanaágreiningur minn og hæstv. utanrrh. fyrir ári síðan. En kannski er ekkert að marka það sem hv. þm. Björn Bjarnason segir. Kannski er þetta bara eins og þegar menn voru á Morgunblaðinu og skrifuðu eitt í dag og annað á morgun. Hann segir m.a. 17. apríl um núv. hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson og ég geri það að lokaorðum tilvitnana í hv. þm. Björn Bjarnason. Hann segir um hæstv. utanrrh., sem hann hælir, eini maðurinn hér í þingsalnum sem hefur hælt núv. utanrrh. fyrir ræðu hans og málflutning. Hv. þm. Björn Bjarnason sagði 17. apríl í lok deilna sinna við hæstv. utanrrh. um þessa skýrslu því sá maður sem deildi aðallega við hæstv. utanrrh. í fyrra um skýrsluna var einmitt hv. þm. Björn Bjarnason. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Lesendur Morgunblaðsins hafa getað kynnst því af orðaskiptum okkar Jóns Baldvins hér í blaðinu að til næsta lítils er að eiga orðastað við hann um alvörumál, jafnvel á hans eigin verksviði.``
    Þetta sagði formaður utanrmn. um þann utanrrh. sem hann ætlar að þjóna í formannssæti í utanrmn., að það sé til lítils að eiga orðastað við hann um alvörumál, jafnvel á sviði utanríkismála. En hann sagði meira um utanrrh., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hann [þ.e. utanrrh.] velur þann kost að víkja sér undan og neita að viðurkenna staðreyndir þegar við hann er rætt með vísan til þeirra.``
    Utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson neitar að viðurkenna staðreyndirnar, sagði Björn Bjarnason þjóðinni fyrir ári síðan um þetta mál, EES-málið, vegna þess að þessi ummæli komu í kjölfar ritdeilna þeirra í Morgunblaðinu um þessi mál og önnur utanríkismál á þessum tíma.
    Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað allt saman frekar dapurlegt. Það er auðvitað dapurlegt að forsætisráðherra, sem er tiltölulega nýr í starfi, skuli fyrstur forsætisráðherra verða til þess að taka hér fundargerðir og lesa þær upp í þingsalnum án þess að ræða um það við fyrirrennara sína, en látum það nú vera. En að gera það þá með þeim hætti að um beina fölsun er að ræða í endursögninni, það er dapurlegt. Og það er líka dapurlegt að nýr formaður utanrmn. skuli hreykja sér svona hátt í umræðunni og tala af svona miklum þjósti til okkar hinna, dómharður og skylmingafús þegar við höfum hans eigin orð um þetta stjórnarskrármál, um skýrslu utanrrh., um EES og eðli þess að vera innganga í EB, forleikur, fyrsta og annað skref, skipulegt átak til inngöngu í EB. Maður veit satt að segja ekki hvort maður á að halda áfram orðaskaki við menn sem eru komnir á þessi vegamót í umræðunni eða hvort maður á einfaldlega að vorkenna þeim og láta þar við sitja.
    Auðvitað hefur margt breyst frá því að utanrrh. flutti þinginu skýrslu sína í fyrra. Ég ætla bara að nefna þrjú atriði sem hann segir í skýrslunni að séu á einn veg en hafa orðið á annan og öll þau atriði snerta stjórnarskrárþátt málsins í höfuðatriðum.
    Það er í fyrsta lagi að utanrrh. segir í þessari skýrslu á bls. 19, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ef samið verður um að EFTA-eftirlitsstofnunin geti kveðið á um sektir eða rannsókn á bókhaldi fyrirtækja verður fullnusta slíkrar ákvörðunar að vera í höndum þar til bærra yfirvalda í aðildarríkjunum.``
    Nú er það auðvitað ljóst og er eitt af megineinkennum þess samnings sem við erum að fjalla hér um og er eitt af lykilatriðum í umfjöllun lögfræðinga um það hvort samningurinn stenst stjórnarskrá eða ekki, að hinar erlendu stofnanir hafa beina leið til þess að fullnusta úrskurði sína hér á Íslandi. Og það er ekki hægt fyrir nein íslensk stjórnvöld að draga þá niðurstöðu í efa. Þau geta eingöngu fjallað um það hvernig fullnustan var framkvæmd. Þetta er auðvitað alveg ljóst.
    Í öðru lagi kemur það skýrt fram á bls. 21 í skýrslunni að utanrrh. fullyrðir að gengið hafi verið út frá því um sjálfstætt eftirlit með sameiginlegum samkeppnisreglum hafi EFTA-ríkin talið að ákvarðanir eftirlitsstofnunar, sem beinast að einstaklingi eða fyrirtækjum sem gerst hefur brotlegt, verði ekki hægt að fullnægja nema fyrir atbeina þar til bærra stjórnvalda í aðildarríkjum. --- Og aftur er þetta áréttað með þessum hætti. En auðvitað er niðurstaðan önnur. Það þarf engin stjórnvöld til þess að ákveða þessa fullnustu. Hún er skylda og hana verður að framkvæma og eina áfrýjunin sem íslenskir þegnar eiga er um aðferðina við framkvæmdina.
    Síðan er auðvitað þessi fullyrðing að fari landsdómstóll ekki eftir túlkun EES-dómstólsins þá gildi niðurstaða landsdómstólsins gagnvart aðilum máls. Það vita auðvitað allir að er ekki.
    Ég verð því satt að segja að lýsa undrun minni á því hvers vegna þessir tveir leiðtogar Sjálfstfl., hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hv. nýkjörinn formaður utanrmn., Björn Bjarnason, hafa kosið að gera þessa skýrslu utanrrh. að meginuppistöðunni í málflutningi sínum hér í málinu, skýrslu utanrrh. frá í mars 1991. Ég sé satt að segja ekki hvaða akk þeir sjá í því nema þeir hafi gert það í trausti þess að í fyrsta lagi mundum við ekki birta það sem í fundargerð ríkisstjórnarinnar stóð. Við mundum láta forsrh. komast upp með það að endursegja það mjög frjálslega. Þeir hafi skákað í því skjólinu að við mundum gera það. Og í öðru lagi hafi hv. þm. Björn Bjarnason skákað í því skjólinu að fáir hafi nennt að lesa greinar hans í mars og apríl í fyrra og a.m.k. væru þeir fáu búnir að gleyma því sem þar stóð. En ég get fullvissað þingmanninn um það að ég hef ávallt sýnt honum þá virðingu að lesa alla þá texta sem hann hefur birt undir nafni og líka marga aðra sem hann birti undir dulnefni á undanförnum árum en ég sá á handbragðinu hvaðan voru ættaðir. Og ég mun halda því áfram.
    Virðulegi forseti. Það er líka mjög leitt að forustumenn ríkisstjórnarinnar báru ekki gæfu til þess hér á síðasta þingi að samþykkja þá tillögu frá okkur í stjórnarandstöðunni um að óháðir aðilar væru látnir velja þá menn sem ættu að meta það hvort stjórnarskráin væri með þeim hætti að EES-samningurinn stangaðist á við hana. Vandamál af þessu tagi koma oft upp og í ýmsum öðrum löndum er farið þannig með þau að ýmist er til sérstakur stjórnarskrárdómstóll sem metur slík mál eða menn hafa komið sér saman um virðulegar nefndir eða ráð sem láta þinginu í té álit.
    Ég get upplýst það hér að ég sagði við vin vinn og samflokksmann, hv. þm. Hjörleif Guttormsson, þegar hann kynnti þá tillögu í okkar þingflokki að fá óháða aðila valda af lagadeild Háskólans, Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélaginu, af því að mér var ljóst að hann hefði sett fram þá skoðun að samningurinn kynni að brjóta í bága við stjórnarskrána, að hann yrði þá að taka þá áhættu og við öll yrðum að taka þá áhættu að þeir menn sem valdir væru af óháðum aðilum mundu túlka málið á annan veg en hann hefði gert.
    Nú veit ég að ég þarf ekki að lýsa hér fyrir þinginu hvað EES-málið hefur verið mikið og stórt mál í huga hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og hve hann hefur sótt málflutning sinn í því máli af miklum ákafa, svo mjög að mörgum hefur oft ofboðið. Engu að síður var hann tilbúinn að taka þá áhættu að leggja málið í dóm sérfræðinga sem valdir væru með óháðum hætti. En ríkisstjórnin var ekki tilbúin til þess. ( Forseti: Forseti verður að vekja athygli hv. þm. á því að nú er tíma sem þessum fundi er ætlaður að ljúka og vildi því spyrja hv. þm. hvort hann er kominn að því að ljúka sinni ræðu eða hvort hann vill fresta henni til næsta fundar.) Virðulegi forseti. Ef ekki hefði komið til þessi sérkennilega framganga hæstv. forsrh. og hv. þm. Björns Bjarnasonar hér fyrr í dag og í gær, þá hefði mér nægt sá tími sem ég hef nú notað til þess að fjalla efnislega um frv. En ég á því miður eftir smástund til þess að gera það og kýs þess vegna að gera hlé á ræðu minni.