Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 11:52:05 (94)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta var auðvitað líka mjög athyglisvert vegna þess að hæstv. forsrh. vék náttúrlega ekki að lykilatriðinu sem var í umfjöllun minni um þetta mál, þ.e. að það stendur skýrt í fundargerð ríkisstjórnarinnar að hæstv. utanrrh. hafi lagt þetta fram til upplýsingar. Það var orð sem hæstv. forsrh. sleppti alveg í endursögn sinni hér á Alþingi. Og það vita allir, m.a. núv. hæstv. forsrh., að skjöl eru yfirleitt lögð fram með tvennum hætti í ríkisstjórn. Annars vegar eru þau lögð fram til upplýsingar og hins vegar til þess að til þeirra sé tekin afstaða. Og utanrrh. gerði það alveg skýrt að hann var ekki að leggja þessa skýrslu fram til þess að það yrði tekin til hennar afstaða, enda var það ógerningur vegna þess að hann lagði hana á borðið á sömu mínútunum og átti að ræða hana. Og það var auðvitað útilokað að menn gætu hraðlesið skýrsluna á fimm mínútum og tekið þátt í umræðunni. Hún hafði ekki verið lögð fram fyrir fundinn og hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að það var ekki ætlunin að hún yrði rædd, til þess að til hennar væri tekin afstaða. Hún var bara lögð fram til upplýsingar í ríkisstjórninni til að ráðherra sæi hana áður en hún var prentuð. Auðvitað var málið rætt eins og oft var í ríkisstjórninni þegar menn settu fram sín sjónarmið í málinu almennt. Það kemur reyndar fram í fundargerðinni sem forsrh. las ekki að þar var aðallega vikið að fiskveiðimálum Norðmanna.
    Hvernig forsrh. fær það svo út að milli 5. mars og 11. mars séu 10 dagar, það er stærðfræði sem ég lærði a.m.k ekki í mínum skóla. En látum það vera, hann kannski reynir að upplýsa það hér einhvern tíma síðar að hann sagði fyrst að það var mánuður. Svo var bent á það að það væri rangt. Nú segir hann: Það voru 10 dagar. Fundurinn var 5. mars. Plagginu var dreift hér 11. mars. Hvernig það eru 10 dagar, það skil ég ekki.