Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 11:54:12 (95)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar í gær og hann endurtók það nú í svari við andsvari forsrh. að skýrsla utanrrh. frá mars 1991 hefði verið lögð fram til upplýsingar en ekki til þess að ríkisstjórnin tæki afstöðu til hennar, eins og þetta skipti í raun og veru efnislegu máli hér.
    Þótt sú staðhæfing Ólafs Ragnars Grímssonar sé rétt í sjálfu sér að utanrrh. hafi lagt skýrslu sína fram til upplýsingar, hvað kom þá í raun og veru í veg fyrir það að ráðherrar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tækju afstöðu til málsins? Ef ágreiningur um skýrsluna var svo djúpstæður sem hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, vill vera láta skiptir varla máli hvernig formið var á birtingu skýrslunnar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Ágreiningur um svo mikilsverð mál hlaut að leiða til vandræða í stjórninni, jafnvel til stjórnarslita.
    Eftir því sem hér hefur verið upplýst var einnig djúpstæður ágreiningur um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnulífi Íslendinga í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Hvers vegna var þessi ágreiningur ekki opinberaður fyrst ekki tókst að leysa hann í ríkisstjórn? Hvers vegna hafði hann ekki áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið? Hvers vegna sátu þáverandi ráðherrar sem fastast á þessum ágreiningi? Hvers vegna sátu ráðherrarnir svona fast í ráðherrastólum sínum þrátt fyrir þennan grundvallarágreining?