Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 11:58:18 (97)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að hafa staðfest það hér að honum þótti sætt í ríkisstjórn þrátt fyrir þennan djúpstæða ágreining.
    En ég hef aðra athugasemd að gera. Í máli hv. þm. kom það fram hér áðan að hann taldi það vera meinbug á starfi fjórmenninganefndar utanrrh. að í störfum sínum að EES-samningunum sjálfum hefðu tveir af fjórmenningunum þegar bundið sig við þá afstöðu að EES-samningurinn væri innan ramma stjórnarskrárinnar. Að öðrum kosti hefðu þeir hlotið að koma fram með ábendingar um hugsanleg stjórnarskrárbrot áður. En það var einmitt það sem einn af þessum fjórmenningum gerði. Hann kom fram með álit, hann kom fram með slíka aðvörun á árinu 1990 eins og hv. 4. þm. Austurl. upplýsti hér í gær. Mér finnst nú sennilegt að trúnaðarsamband milli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og hv. 4. þm. Austurl. sé það mikið þrátt fyrir allt að þessar upplýsingar hefðu átt að ganga á milli þeirra þó svo að ráðherrann hafi ekki séð þetta álit á því tímabili sem líður frá 1990 í febrúar, ef ég man rétt, þetta álit var undirritað hinn 25. febr., og fram að þeim tíma þegar þessi skýrsla hér er birt þar sem fullyrt er að engin stjórnarskrárbrot séu fólgin í EES-samningnum.