Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 13:00:42 (100)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. sagði að ég hefði misskilið það að í frv. stjórnarandstöðuflokkanna kæmi fram, eftir að sú breyting hefði náð fram að ganga sem þar væri lýst ef samþykkt yrði, að þá væri búið að skapa skilyrði fyrir framsal á fullveldisrétti. Þingmaðurinn sagði að það væri rangt, það væri eingöngu land eða ríkisvald sem þar væri um að ræða. Það hefði engum dottið í hug að skapa skilyrði fyrir því að framsal á fullveldisrétti mætti eiga sér stað. En þingmaðurinn virðist ekki hafa lesið tillöguna sem

hún er sjálf meðflutningsmaður að. Þar segir:
    ,,Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða á hvers konar fullveldisrétti í íslenskri lögsögu, framsal einhvers hluta ríkisvalds til fjölþjóðlegrar stofnunar eða samtaka eða ef þeir horfa að öðru leyti til breytinga á stjórnarhögum ríkisins nema samþykki Alþingis komi til. Slíkt þingmál telst því aðeins samþykkt að þrír fjórðu alþingismanna greiði því atkvæði.``
    Ef þetta yrði samþykkt, þá yrði með þessari skipan, þeirri skipan að þrír fjórðu alþingismanna samþykktu, hægt að framselja hvers konar fullveldisrétt, hvorki meira né minna. Þingmaðurinn var einmitt að leiðrétta mig í upphafi hvað þetta snertir. Ég vek athygli á því til að mynda að ef þetta hefði náð fram að ganga þyrfti ekki að breyta stjórnarskrá til þess að við gætum gerst aðilar að Evrópubandalaginu. Það þyrfti tvímælalaust að gera í dag. Þess þyrfti ekki ef þetta hefði verið lögtekið og stjórnarskrá breytt í þessa veru.