Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 13:39:40 (105)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Mér sýnist að þingstörfin ætli að ganga hægt fyrir sig í dag. Ég vil eiginlega ógjarnan tala um þetta mál nema hér sé a.m.k. viðstaddur forsrh., hann er sjálfsagt einhvers staðar skammt undan, og viðskrh. Viðskrh. lagði talsvert inn í þessa umræðu í gær og það er ýmislegt í mínu máli sem beinist beinlínis að honum. Hann er þar að auki settur utanrrh. þar sem utanrrh. er erlendis og ég vil síður tala hér án þess að hafa hann viðstaddan. Mér er því dálítill vandi á höndum sem ég óska eftir að forseti skeri úr með einhverjum hætti. Er enginn í forsetastólnum? ( ÖS: Það varð ljós.) Það varð ljós. Þetta er öflugur maður, Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Alþfl. Hann getur kveikt á perum í sínum flokki.
    Þá er mér ekkert að vanbúnaði að tala hér. Erindi mitt upp í þessa pontu er eiginlega fyrst og fremst það að fjalla lítillega um þau rök sem komu fram í gær gegn breytingu á stjórnarskránni og komu bæði fram hjá hæstv. forsrh. og utanrrh. En nú sakna ég forsrh. ( Forseti: Forsrh. er nýfarinn úr húsinu, þurfti að bregða sér frá. Ég vil spyrja ræðumann hvort hann geti tekið þann kafla ræðu sinnar sem varðar það sem hann hefur hugsað sér að ræða við hæstv. viðskrh. meðan beðið er eftir forsrh. eða hvort hann vill gera hlé á ræðu sinni.) Ég vil gera hlé á ræðu minni vegna þess að ég er hér beinlínis komin í pontuna til þess að svara ýmsu sem kom fram í máli hæstv. forsrh. í gær og reyndar viðskrh. Það samtvinnast mjög og verður ekki í sundur slitið frekar en þessir tveir ráðherrar. Ég óska eftir að gera hér hlé á máli mínu. --- [Fundarhlé.]