Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 14:30:23 (107)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar menn flytja fortíðarræður eins og síðasti hv. þm. þá er afar mikilvægt að menn fari rétt með. Hv. þm. sagði hér áðan að Alþb. hefði í kosningunum mælt með samþykki EES-samningsins í síðustu alþingiskosningum, lagði svo út af því og dæmdi okkur hart. Þetta er rangt hjá þingmanninum. Alþb. mælti ekki með EES-samningnum í síðustu alþingiskosningum. Alþb. sagði þá eins og það hafði sagt áður og reyndar eftir kosningar einnig, sagði reyndar líka á landsfundi flokksins mörgum mánuðum eftir síðustu alþingiskosningar, að við mundum meta samninginn í heild sinni þegar hann lægi allur fyrir.
    Ég vil enn á ný, eins og ég hef gert fyrr í þessum umræðum, leiða hv. þm. Björn Bjarnason til vitnis. Hann segir í frásögn af sérstökum umræðufundi um EES sem við vorum á, hann og ég og utanrrh., og frásögnin birtist í Morgunblaðinu 16. apríl. Þar segir Björn Bjarnason, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þegar Jón Baldvin sagði að 98% samningsins væri lokið sagði Ólafur Ragnar það rangt eða samið hefði verið án umboðs og vitundar ríkisstjórnarinnar.``
    Í sömu grein segir Björn Bjarnason að mest harkan á þeim fundi hafi verið í deilum Jóns Baldvins Hannibalssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar.
    Þannig að ég bið hv. þm. Tómas Inga Olrich að vanda meðferð sína á sannleikanum í frásögn hans af því hvernig málið stóð fyrir síðustu þingkosningar og fara ekki rangt með lýsingar á málflutningi okkar alþýðubandalagsmanna og leggja síðan sjálfur út af eigin rangfærslu.