Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 15:03:56 (110)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tel nauðsynlegt að minna á að það hefur ekki verið leiðrétt hér að sá mikli og djúpstæði ágreiningur sem var innan ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar var ekki leiddur til lykta af ríkisstjórninni og það var setið á honum. Og ekki nóg með það, heldur var því lýst yfir af þessum flokkum að þeir vildu starfa saman áfram eftir kosningar þannig að þeir hljóta að hafa haft sameiginlegan málefnagrundvöll í meginmálum. Og miðað við þá áherslu sem þeir leggja nú á stjórnarskrármálið, réttilega, þá hljótum við að líta svo á að stjórnarskrárþátturinn í þessu máli hafi verið meðal þeirra meginmála sem ekki var hægt að þola ágreining um.