Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 15:04:31 (111)

     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. fyrir að gera mér viðvart svo ég mætti heyra hans stórmerku ræðu. Ég held hins vegar að hv. þm. þurfi að kynna sér miklu betur allan aðdraganda málsins og ætti m.a. að fara vandlega yfir skýrslu utanrrh. sem hér hefur verið til umræðu frá því í mars 1991. En eins og þar kemur afar greinilega fram þá eru öll þessi mál í mótun. Hv. þm. ætti að lesa blaðsíðu 19, 20 og 21, þar sem fram kemur að eitt af meginágreiningsmálunum á þeirri stundu er hvaða vald EES-dómstóllinn sem þá var talað um ætti að hafa. Síðan varð meira að segja ekkert úr þessum EES-dómstóli eins og hv. þm. veit mætavel. Og ég get fullvissað hv. þm. um það að með festu var staðið á því sem ég gaf fyrir hönd ríkisstjórnarinnar yfirlýsingu um í Ósló í mars 1989 að ekki yrði um yfirþjóðlegt vald að ræða. Ég hef hins vegar sagt að við leiddum hugann að því að það kynni að vera betra fyrir hagsmuni Íslands að fallast á dómstól til að skera úr um mjög takmörkuð ágreiningsmál. Því máli var alls ekki lokið þegar þessi skýrsla var skrifuð og fyrri ríkisstjórn fór frá. Ég hef meira að segja sagt hér að ef komið hefði í ljós, eins og nú hefur komið í ljós, að slíkur dómstóll kynni að brjóta í bága við stjórnarskrána þá hefði ég talið sjálfsagt í þeirri ríkisstjórn að breyta stjórnarskránni þótt það hefði vitanlega kostað kosningar á milli tveggja þinga. Ég er sammála hv. þm. um að það kemur ekki til mála að láta það standa í vegi. Ég satt að segja skildi hv. þm. þannig að hann vildi fara mjög varlega með stjórnarskrána. Og ég skildi hv. þm. þannig að hann hefði talið að samningurinn eins og hann var í lok síðustu ríkisstjórnar hafi verið brot á stjórnarskránni. Er þann það þá ekki núna einnig? (Forseti hringir.) Ég vek athygli á greinargerð Guðmundar Alfreðssonar og Björns Þ. Guðmundssonar, m.a. um forúrskurðina sem Guðmundur Alfreðsson skrifar um á blaðsíðu 16 þó ég hafi ekki tíma til að til að lesa hann.