Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 16:11:41 (121)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Andsvar mitt snýst öðrum þræði um þá röngu yfirlýsingu hv. síðasta ræðumanns að ég hafi lýst sérstökum áhuga á því að Ísland gerðist aðili að Evrópubandalaginu. Það hef ég hvergi gert. Ég hef hins vegar talað um nauðsyn þess að kannaðir væru kostir og gallar þess að Ísland stæði utan bandalagsins.
    Hv. síðasti ræðumaður vitnaði einnig í greinar sem ég hef ritað eins og hér hefur verið gert áður í umræðunum. Hann gerði það rétt, en það hefur ekki verið gert hingað til. Hv. 8. þm. Reykn. gerði það

einnig en sleit það þannig úr samhengi og rangfærði að ekki var heil brú í þeim málflutningi.
    Varðandi það sem ég sagði í þessum greinum þá stend ég að sjálfsögðu við það allt saman og tel að það frv. sem hér er til umræðu, sem hv. talsmenn frv. og flm. forðast að ræða eins og heitan eldinn, að því er mér virðist, sé enn ein varðan sem menn verða að skoða ef hugað er að för Íslands inn í Evrópubandalagið. Hér er flutt frv. um breytingu á stjórnarskránni sem heimilar framsal á íslensku ríkisvaldi til fjölþjóðlegrar stofnunar. Ég tel að þetta frv. sé enn ein varðan á þeirri leið sem menn hljóta að skoða ef Ísland gengur inn í Evrópubandalagið, eins og ég tel að samningurinn um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu sé slík varða. Hins vegar er það náttúrlega undir hverjum og einum komið hvort hann fer þær leiðir sem vörðurnar vísa. Það er unnt að líta á þetta sem áfanga og endapunkt og það fer náttúrlega eftir mati hvers og eins. En ég tel að hér hafi stjórnarandstaðan lagt fram frv. sem verði að skoða sem enn eina vörðu á leiðinni inn í Evrópubandalagið og hún er að gera því skóna að það þurfi ákveðinn meiri hluta á þingi til þess að framselja íslenskt ríkisvald til fjölþjóðlegrar stofnunar. Það er ekki gert með aðild að EES-samningnum en það yrði að sjálfsögðu gert ef Ísland gerðist aðili að Evrópubandalaginu.